Neikvæð áhrif af falli WOW air verða ekki jafnmikil á efnahagslífið og margir hafa spáð, segir ferðamálaráðherra. Að hámarki verði Ísland af komu um tvö hundruð þúsund ferðamanna á árinu. Þingmaður Samfylkingarinnar segir brýnt að grípa fljótt til ráðstafana til að draga úr samdrætti í ferðaþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

Þeir ferðamenn sem komu hingað til lands með WOW air voru að stærstum hluta yngri en þeir sem koma með öðrum flugfélögum, dvöldu hér skemur, nýttu sér íbúðagistingu og stoppuðu styttra. Meðalútgjöld WOW air ferðamanna voru minni en hjá farþegum Icelandair en svipuð og þeirra sem komu hingað með öðrum flugfélögum. Þetta kemur fram í úttekt sem Ferðamálastofa birti í morgun. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra var gestur atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. Hún fór yfir stöðuna eftir fall WOW air, í samtali við fréttastofu RÚV.

„Flugfélög hafa tekið við sér í töluverðum mæli. Þannig að við vitum t.d. að um er að ræða u.þ.b. 300.000 erlenda  ferðamenn sem hefðu komið með WOW air frá apríl til desember. Nú er sú tala í rauninni komin undir 200.000 vegna viðbragða Icelandair, Wizz Air og Transavia sem eru að auka sitt framboð. Það er auðvitað ennþá apríl og háannatíminn fram undan og spurning hvað er hægt að gera meira og margir ákveða auðvitað með skömmum fyrirvara að koma. Þannig að ég myndi ekki segja að við værum að horfa fram á 200.000 ferðamannafækkun fyrir sumarið,“ segir Þórdís.

Erfitt sé að meta hve mikill tekjumissirinn verði fyrir þjóðarbúið.

„En svona heilt yfir myndi ég samt leyfa mér að segja að miðað við þær sviðsmyndir sem hafa verið teiknaðar upp þá myndi ég halda að þetta væri aðeins bjartari mynd en ýmsir hefðu getað gert ráð fyrir,“ segir Þórdís.

Hefur orðstír Íslands út á við beðið hnekki?

„Mjög lítið. Miklu minna heldur en ég held að margir hafi gert ráð fyrir,“ segir Þórdís.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir að ferðaþjónusta á landsbyggðinni sé viðkvæm fyrir sveiflum í ferðaþjónustunni. 

„Það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af er staða ferðaþjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins því það eru oft smærri fyrirtæki sem treysta mjög á háönnina. Eins og við sjáum fram á núna verður skellurinn mestur í sumar líklega,“ segir Albertína.

Ráðherra vill að hlutverk markaðsstofa á landsbyggðinni verði betur skilgreint. Ætlarðu að veita auknu fé til markaðstofanna?

„Slíkt hefur ekki verið ákveðið en ég hef rætt við þessa aðila og það er spurning hvort við gætum mögulega farið í sameiginlegt átak fyrir sumarið,“ segir Þórdís.

Hafa stjórnvöld ekki brugðist skyldu sinni með því að leyfa því að viðgangast að eitt félag geti haft svo mikil áhrif á þjóðarbúið?

„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Þetta var félag sem var ekki á markaði. En það er auðvitað mjög öflugt eftirlit með flugfélögum almennt, fyrst og fremst út frá öryggi en líka öðrum þáttum. Samgöngustofa stóð sig vel í þvi eftirliti. Sem betur fer búum við í samfélagi þar sem fólk getur stofnað fyrirtæki og tekið áhættu. Þannig að það er þá frekar, hvað gera stjórnvöld þegar eitthvað bjátar ár. Hér var tekin ákvörðun eftir mjög ítarlega greiningu að stíga ekki inn í það og taka áhættu fyrir hönd skattgreiðenda. En það að fólk með fjármagn taki áhætti og stofni fyrirtæki og láti það vaxa, það er okkur bara lífsnauðsynlegt,“ segir Þórdís.