Áhorfendur settir í spor hælisleitenda

24.03.2017 - 09:31
Ósýnilega leikhúsið – Osynliga Teatern – er leikhópur sem starfar í Stokkhólmi en er staddur hér á landi vegna uppsetningar sýningar sinnar Aftur á bak sem verður sýnd í nokkur skipti í Borgarleikhúsinu.

Sýningin varpar ljósi á stöðu hælisleitenda með óvenjulegum hætti, áhorfendur fá meðal annars afnot af sýndarveruleikagleraugum og heyrnartólum til þess að komast nær því að upplifa stöðu flóttamanns.

Áhorfandinn er hreinlega settur í spor þess yfirheyrða. Hann tekur sér stöðu hælisleitanda og með sýndarveruleikagleraugunum verður þetta allt svo raunverulegt. Ströndin þar sem flóttamaðurinn kemur að landi, yfirheyrslan, ferðalagið og jafnvel stundir úr fortíðinni.

Ekki líf — heldur röð staðreynda

Jens Nielsen er annar leikstjóri verksins og var staddur í salnum fyrir framan mötuneyti Borgarleikhússins þegar Víðsjá bar að garði, en þar mun viðburðurinn fara fram.

Verkið byggir á viðtölum sem hópurinn tók við lögfræðinga, túlka og starfsmenn innflytjendastofnunar, en einnig fólk sem hefur sjálft flúið land og fengið hæli.

„Þannig kynntumst við Marwan, ungum sýrlenskum manni, sem þá var 23 ára. Hann var ákafur í að segja sögu sína. Hann vildi að fólk hlustaði,“ segir Jens Nielsen.

Mynd með færslu
 Mynd: Jonas Eng  -  Osynliga teatern
Marwan Arkawi segir sögu sína.

Marwan Arkawi veitir áhorfendum innsýn inn í veröld innflytjenda og hælisleitanda, en hann flúði frá Sýrlandi og er nú búsettur í Svíþjóð. Titill verksins er fenginn úr umsóknarferli hælisleitenda, en þar er þeim gert að segja sögu sína aftur á bak. „Manneskjan sem segir sögu sína verður nafnlaus. Lífið sem sagt er frá, er ekki líf í okkar skilningi, heldur röð staðreynda,“ segir Nielsen.

Flóttamenn verða að tölum á blaði í samkeppni um öruggt skjól og almenningur skynjar þá sem eina heild – ógn við jafnvægi samfélagsins. Með gjörningi sínum gerir Ósýnilega leikhúsið hælisleitendur kannski sýnilega.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi