Aflandsfélag fjármálaráðherra var ekki afskráð fyrr en árið 2012 og starfsemi var í því að minnsta kosti fram í október 2009. Samt segist Bjarni Benediktsson ekki hafa þurft að skrá aflandsfélagið í hagsmunaskrá, samkvæmt reglum sem settar voru í lok mars 2009. Félagið á Seychelles-eyjum fékk ekki að stofna bankareikning eftir hrun, þar sem leynd hvíldi yfir raunverulegu eignarhaldi þess. Kaup á fjórum íbúðum fóru í gegnum fjórar heimsálfur.
Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld. Í þættinum var fjallað um tengsl íslenskra stjórnmálamanna við fyrirtæki í þekktum skattaskjólum. Þátturinn sem unninn var í samstarfi við Reykjavík Media, Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna (ICIJ) og þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung. Umfjöllunin byggði á svokölluðum Panama-skjölum, gögnum sem lekið var til þýska blaðsins og geyma viðskiptaupplýsingar aflandsþjónustufyrirtækis á Panama.
„Getum við gefið út handhafabréf eða þarf að skrá bréfin á nöfn?“
Svona hljóðaði beiðni starfsmanns Landsbankans í Lúxemborg sem sendur var til panamska aflandsþjónustufyrirtækisins Mossack Fonseca 11. janúar 2006. Tilefnið var stofnun félagsins Falson & Co. sem sami starfsmaður Landsbankans hafði óskað eftir af lista yfir tilbúin aflandsfélög af lista Mossack Fonseca á jóladag 2005.
Ekki skráðir eigendur
Það sem starfsmaður bankans vildi forðast að yrði skráð á hlutabréf aflandsfyrirtækisins Falson, voru nöfn þriggja Íslendinga. Þeirra Bjarna Benediktssonar, þáverandi alþingismanns og núverandi fjármálaráðherra, Ægis Birgissonar, þáverandi starfsmanns Glitnis banka og núverandi framkvæmdastjóri Fjárfestingafélagsins Reik ehf., og Baldvins Valdimarssonar, framkvæmdastjóra og eins eiganda Málningar hf.
Landsbankinn gaf síðan fyrirmæli um prókúruhafa Falson, Bjarna og félaga hans tvo, og að raunverulegir eigendur verði þeir hinir sömu. Hlutabréfin voru svo stíluð á handhafa, en ekki nöfn þremenningana. Í stjórn sátu svo einstaklingar á vegum Mossack Fonseca, til málamynda, eins og í flestum slíkum félögum.
Prókúran sem skráð var á þremenningana veitti þeim þó ótakmörkuð völd til að sýsla með Falson & Co. Skuldsetja, undirrita samninga og fara með það eins og sína eign, sem hún auðvitað var.
Fjórar heimsálfur
Félagið var að sögn stofnað um kaup á fjórum íbúðum í Emirates Crown turninum í Dúbaí, sem þá var í byggingu. Fjárfestingu sem nam að sögn 120 milljónum króna á þeim tíma. Bjarni segist sjálfur hafa talið félagið skráð í Lúxemborg. En leiðin milli Íslands og Dúbaí tók á sig fleiri króka. Íbúðakaupin áttu sér stað í gegnum fjórar heimsálfur.
Heimilisfang Falson & Co. var í tíu þúsund kílómetra fjarlægð frá Íslandi – á Seychelles-eyjum í Indlandshafi. Stofnun Falson fór fram í gegnum Mossack Fonseca í Panama, að beiðni Landsbankans í Lúxemborg. Falson & Co. fjárfesti svo í glæsiíbúðunum í Dúbaí.
Gátu ekki opnað bankareikning
Hrunið hafði áhrif á fjárfestinguna í Dúbaí eins og margar aðrar. Eftir fall Landsbankans í október 2008 fékk Mossack Fonseca beiðni um að hlutabréf Falson & Co. yrðu skráð á nöfn Bjarna og viðskiptafélaga hans, en ekki handhafa. Falson & Co. hafði þá verið synjað um að færa viðskipti sín úr Landsbankanum yfir til banka í Lúxemborg, þar sem raunverulegir eigendur Falson & Co. væru ekki skráðir fyrir því. Bjarni segist halda að umræddur reikningur hafi á endanum ekki verið stofnaður.
Skiluðu íbúðinni með tapi
Stuttu síðar fór Falson & Co. fram á að geta skilað íbúðunum og ganga út úr kaupunum með tapi. Í lok apríl 2009 fékkst endanleg samþykki fyrir því. Endanlegt uppgjör á íbúðakaupum Falson & Co. fór þó ekki fram fyrr en í lok október 2009 og samkvæmt gögnum úr fyrirtækjaskrá á Seychelles-eyjum var félaginu ekki slitið formlega fyrr en 2012.
Þegar við höfðum samband við Bjarna þann 12. mars sagðist hann alltaf hafa gefið upp eignarhlut sinn í félaginu til skattayfirvalda hér á landi. Spurður hvers vegna hann hefði ekki nefnt þetta félag í Kastljósviðtali fyrir ári, sagðist hann ekki líta svo á að félagið hafi fallið undir þá skilgreiningu sem þá var spurt um.
„Engar eignir í skattaskjólum”
Í umræddu Kastljósviðtali frá í febrúar 2015, voru gögn um eignir Íslendinga í aflandsfélögum og kaup á þeim til umræðu. Bjarni var þar spurður hvort hann hefði sjalfur átt viðskipti í gegnum það sem hefði verið skilgreint sem skattaskjól, átt þar eignir eða farið með peninga í gegnum slík félög. Svar Bjarna þá var afdráttarlaust.
„Nei. Ég hef ekki verið með neinar eignir í skattaskjólum – hef ekki verið með neitt slíkt og á engin hlutabréf eða neina slíka hagsmuni í dag.“
- Þannig þú hefur aldrei átt eignir eða átt viðskipti í gegnum þessi svokölluðu skattaskjól?
„Nei það hef ég ekki gert.“
Taldi Falson skráð í Lúxemborg
Í yfirlýsingu sem Bjarni sendi frá sér um miðja vikuna sagði hann hins vegar að sjálfur hefði hann alltaf talið félagið staðsett í Lúxemborg. Hann hafi einungis fengið af því spurnir nýlega eftir fyrirspurn blaðamanns að félagið hefði verið staðsett í hinu þekkta skattaskjóli Seychelles-eyjum.
„Eftir bestu vitund“
„Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði,“ sagði í yfirlýsingu Bjarna. „Eini tilgangur félagsins var að halda utan um eignina í Dúbaí en svo fór að við tókum aldrei við henni. Ákveðið var að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli. Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi. Við gildistöku reglna um hagsmunaskráningu þingmanna átti ég því hvorki hlut í félagi í atvinnurekstri né aðrar fasteignir en húsnæði til eigin nota.”
Öll félög á að skrá
Líkt og forsætisráðherra hefur Bjarni lagt áherslu á að félag hans hafi ekki verið í „atvinnurekstri“ þegar reglur um hagsmunaskráningu tóku gildi. Í fréttatilkynningu forsætisnefndar sem setti reglurnar í mars 2009 þar sem reglurnar eru skýrðar, er þó hvergi getið um hvort félög séu í atvinnurekstri né heldur er hann skilgreindur. Skrifstofa Alþingis hefur staðfest þann skilning.
„Reglurnar kveða einnig á um að skráðar skuli upplýsingar um stjórnarsetu og önnur trúnaðarstörf fyrir hagsmunasamtök, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félög önnur en stjórnmálaflokka óháð því hvort þessi störf eru launuð. Skrá skal nafn félags, hagsmunasamtaka, stofnunar eða sveitarfélags og eðli trúnaðarstarfs.“
Kvaðst ekkert eiga 2008
Bjarni hefur ítrekað sagst hafa hætt öllum afskiptum af viðskiptum í lok árs 2008. Eftir úrsögn úr stjórn Olíufélagsins N1 og fleiri fyrirtækja sagðist Bjarni í viðtali við Viðskiptablaðið í desember 2008 „ekki eiga neinna hagsmuna að gæta í neinum hlutafélögum og því hafi þetta verið einföld ákvörðun. Atburðir síðustu vikna í þjóðfélaginu leggi hins vegar enn meiri ábyrgð á herðar stjórnmálamanna.“
Uppgjör í lok árs 2009
Bjarni segist ekki hafa átt starfandi félag eða fasteign sem gera hafi þurft grein fyrir í hagsmunaskráningu þingmanna, sem samþykktar voru í mars 2009. Því hafi hann ekki þurft að gera grein fyrir eign sinni. Falson & Co. var hins vegar enn starfandi á þeim tíma. Og uppgjöri vegna fasteignaviðskipta lauk ekki fyrr en hálfu ári eftir að reglurnar tóku gildi.
Í frétt DV árið 2010 kom fram að Bjarni hefði tekið við greiðslum vegna sölu íbúðarinnar í Dúbaí. Þar er vitnað til tölvupósts Ægis Birgissonar sem sendur var á netfang Bjarna hjá Alþingi 23. október 2009 í því skyni að fá uppgefið reikningsnúmer Bjarna til þess að leggja inn á hann peninga vegna sölu íbúðarinnar. Bjarni gaf honum upp reikningsnúmer sitt í svissneska bankanum Julius Baer.
Gaf ekki kost á viðtali
Eins og áður segir var félaginu Falson & Co. var ekki formlega slitið fyrr en árið 2012, samkvæmt fyrirtækjaskrá á Seychelles-eyjum.
Bjarna hefur á síðustu viku ítrekað verið boðið viðtal um efni Falson vegna Kastljóssþáttarins í kvöld. Hann gaf ekki kost á því.