Á Atlastöðum í Fljótavík búa fjögur systkini sem ólust upp í torfbæ og gengu um í sauðskinnsskóm. Þilin voru vissulega úr timbri en hliðarnar úr torfi. Þar var hvorki rafmagn né rennandi vatn og erfitt að komast úr víkinni til að ná í aðföng eða sækja skóla.
„Þegar þeir byggðu þessa bæi sóttu þeir allan við í almenning, norður fyrir kögrin, bara á árabát. Pabbi var næstum því drukknaður í einni ferðinni. Hann var fastur undir árum, hvolfdi bátnum,“ segir Þórunn Vernharðsdóttir, ein systkinanna á Atlastöðum.
Elstu systurnar gengu í skóla að Látrum, en þangað er töluverður spotti. Þar bjuggu amma þeirra og afi en vísir að sjávarþorpi myndaðist þar snemma á 20. öld með verslun og barnaskóla. Þórunn minnist þess þegar föðursystir hennar kenndi henni að lesa þegar hún var sjö ára. „Þá átti ég að fara yfir í Aðalvík til að taka próf.“ Þetta var um hávetur og snjór, og Þórunn þurfti að labba ásamt föðurbróður sínum sem var á skíðum. „Ég þurfti bara að hlaupa með á eftir. Þegar ég kom loksins á Látra var ég orðinn svo veik að ég ældi og veit ekki hvað og hvað. „Ætlið þið að drepa fyrir mér barnið?“ sagði amma þá.“
Rætt er við Þórunni Vernharðsdóttur í síðasta þætti Ferðastikla sem er á dagskrá RÚV klukkan 20:05. Hægt er að sjá hluta úr viðtalinu hér að ofan eða horfa á eldri þætti í Spilaranum. Fljótavík er nyrsta bæjarstæðið á Vestfjörðum en byggðin fór í eyði um miðja síðustu öld. Á veturna er þar kalt og hart en á sumrin fyllist víkin af lífi og gróður vex villt um allar brekkur. Í þessum lokaþætti fer Lára Ómarsdóttir ásamt föður sínum, Ómari Ragnarssyni, í Fljótavík þar sem hjartað slær í öðrum takti en í borginni.