Ráðherra neytendamála ætlar að stöðva starfsemi smálánafyrirtækja, sem hún segir að brjóti lög. Hún hyggst leggja fram frumvarp sem kemur í veg fyrir að fyrirtækin geti innheimt lán sem bera ólöglegan kostnað.
Öll helstu smálánafyrirtæki landsins eru í eigu eins og sama móðurfyrirtækisins sem er með höfuðstöðvar í Kaupmannahöfn. Í Kveik á þriðjudag var greint frá því að fyrirtækin veiti lán til Íslands, sem brjóta í bága við íslensk lög, en ekki dönsk. Íslensk lög heimila að vextir og annar kostnaður lána sé samtals að hámarki 50 prósent. Smálánafyrirtækin rukka allt að 35.000 prósent. Til að innheimta þessi lán beinir innheimtufyrirtæki smálánafyrirtækjanna viðskiptum sínum til Sparisjóðs Strandamanna á Hólmavík.
„Þetta er auðvitað brot á íslenskum lögum,“ segir Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ráðherra neytendamála.
Þurfa að finna leiðir
Í janúar skilaði starfshópur Þórdísi Kolbrúnu skýrslu um starfsumhverfi smálánafyrirtækja, þar sem lagðar eru fram nokkrar tillögur. Þórdís Kolbrún ætlar að leggja fram frumvarp á Alþingi í haust, þar sem brugðist er við stöðunni.
„Og það sem þarf að gera í mínum huga er að þessi starfsemi, þegar um er að ræða lán sem er langt umfram það sem lögin heimila, þá séu kerfin einfaldlega þannig að það sé ekki hægt að rukka það. Og þetta getur varðað breytingar á greiðsluþjónustu banka og sparisjóða, þannig að það sé einfaldlega ekki hægt að innheimta lánin, og hins vegar að neytandinn muni ekki þurfa að greiða umfram lögbundið hámark. Og þá má spyrja hver sé rekstrargrundvöllur slíkra fyrirtækja ef þeir fara úr 35.000 prósenta kostnaði niður í 50 prósent.“
Þannig að með þessu yrði starfsgrundvöllur þessara fyrirtækja enginn?
„Það er það sem ég vona að við getum gert.“
Þannig að þú ætlar í rauninni bara að stöðva starfsemi þessara fyrirtækja?
„Við þurfum allavega að finna leiðir til þess að koma því þannig fyrir að þau geti ekki stundað þessa starfsemi sem fer augljóslega gegn íslenskum lögum.“
Þórdís Kolbrún telur að það sé ekki nóg að upplýsa neytendur, enda sé alltaf til fólk sem taki svona lán í örvæntingu.
Stjórnvöld hafa haft samband við Neytendastofu vegna málsins. Þórdís Kolbrún segir að ef stofnunin telji sig skorta heimildir til þess að taka á málinu, verði því kippt í liðinn í frumvarpinu í haust.
„Ég vona að við komum með frumvarp í haust, það verði samþykkt fyrir áramót þar sem við náum að snerta á málinu þar sem það bítur, sem er einfaldlega rekstrargrundvöllur þessara fyrirtækja,“ segir Þórdís Kolbrún.