Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði segir að bæjarstjórnin ætli að krefjast skýringa frá Veitum um það hvers vegna mikið beri í milli spár um heitavatnsnotkun og raunverulegrar þarfar. Veitur segja að ekki hafi þurft að takmarka afhendingu á heitu vatni.

Aldrei hefur verið notað meira af heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu en síðastliðinn sólarhring samkvæmt tilkynningu frá Veitum. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu notuðu tæplega 17 þúsund rúmmetra. Enn hefur ekki þurft að takmarka afhendingu heits vatns til stórra notenda á höfuðborgarsvæðinu. Á Sandskeiði og í Víðidal í Reykjavík mældist mest frost á láglendi síðastliðinn sólarhring eða 21,5 stiga frost. 

Aukning um 50 prósent í haust

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, segir að uppbyggingin á höfuðborgarsvæðinu hafi verið meiri en spár Veitna hafi gert ráð fyrir í áætlun á heitavatnsnotkun. Í haust bætist við heitavatnsvinnsluna í Hellisheiðarvirkjun. Þá aukist framleiðsla á heitu vatni um 50 prósent miðað við það sem nú er. „Þannig að þá þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta snýst líka í rauninni um þessa stórnotendur. Það er tryggt að það hafi allir heitt vatn til síns heimilis. Þannig að það er ekki í neinni hættu og hefur ekki verið,“ sagði Siguroorg í Vikulokunum.   

Rósa telur augljóst að Veitur hafi vanmetið stöðuna og segir að fólk finni til óöryggis. „Við ætlum að setja þetta á dagskrá bæjarstjórnar núna eftir helgi, fara vel inn í þetta mál og krefjast skýringa og skoða þessa hluti alla,“ sagði Rósa. „Mér finnst þetta bara það alvarlegt. Hvað vitum við hvernig veðrið verður á næstu vikum þangað til þessu verður kippt í liðinn og farið í einhverjar framkvæmdir í haust eins og hefur verið boðað? Við væntum þess að fá frekari skýringar hvernig stendur á því að það ber svona mikið í milli spár og raunverulegs ástands að það þurfi að fara að gera þetta og árið 2019 að við séum á þessum stað.“

13 tankar í notkun

Þrettán heitavatnstankar eru á höfuðborgarsvæðinu með samtals 97 þúsund rúmmetrar af heitu vatni, samkvæmt upplýsingum frá Veitum. Þetta eru bæði varabirgðir og miðlunartankar. Í Öskjuhlíðinni eru fjórir tankar af sex notaðir undir heitt vatn, samtals sextán þúsund rúmmetrar af vatni. Í Grafarholti eru tankarnir sex og taka níu þúsund rúmmetra hver. Á Reynisvatnsheiði eru síðan þrír tankar sem taka níu þúsund rúmmetra hver. 

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Veitum, segir að tankarnir hafi verið fullir í gegnum kuldatíðina að undanförnu. „Það hefur ekkert gengið á þessar birgðir enda hefur ekki þurft að fara í neinar takmarkanir á afhendingu. Allir hafa fengið það vatn sem þeir þurfa. Við virkjuðum viðbragðsáætlun vegna þess að það stefndi í mikla notkun.“

Fréttin hefur verið leiðrétt með réttu nafni formanns skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Hún heitir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir en ekki Sigurbjörg eins og áður var skrifað. Beðist er velvirðingar á þessu.