Björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu hjálpuðu um 40 ferðamönnum til byggða milli klukkan fimm í dag og níu í kvöld. Fólkið lenti í vanda á Mosfellsheiði. Skilja þurfti tíu til fimmtán bíla ferðamanna og eina rútu eftir. 20 manns voru í rútunni og álíka margir samanlagt í fólksbílunum.
Björgunarsveitarmenn eru á leið með ferðamenn á gististaði hér og þar á höfuðborgarsvæðinu. Fram kemur í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg að ekkert ferðaveður sé á Mosfellsheiði frekar en víða annars staðar á heiðarvegum og og að ferðalangar ættu að kynna sér vel aðstæður áður en lagt er í hann um jólahátíðirnar.
Jónas Guðmundsson í aðgerðastjórn Landsbjargar segir að allir þeir sem þurfti að aðstoða í kvöld hafi verið erlendir ferðamenn. Ákveðið hafi verið að skilja bíla þeirra eftir, frekar en að verja tíma í það nú að draga þá af heiðinni. Bílarnir hafi verið settir út í kant svo þeir væru ekki fyrir. Einn björgunarsveitarbíll lenti utan vegar í aðgerðunum og var ákveðið að skilja hann líka eftir.
Þetta eru önnur jólin í röð þar sem björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu eru kallaðar út skömmu fyrir klukkan sex á aðfangadagskvöld. „Verðum við ekki að segja að allt er þegar tvennt er,“ segir Jónas í léttum tón, en tekur fram að björgunarsveitarmenn sjái ekki eftir þeim tíma sem fer í að aðstoða fólk á aðfangadagskvöldi.
Hlusta má á viðtal við Jónas Guðmundsson, hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, með því að smella á myndina.