Aðgerðirnar megi ekki hækka fasteignaverð

15.08.2016 - 22:37
Mynd með færslu
 Mynd: Bjørn Giesenbauer  -  Flickr
Stjórnvöld verða að tryggja að boðaðar aðgerðir til að aðstoða fólk við kaup á fyrstu íbúð leiði ekki til hækkunar fasteignaverðs. Þetta er mat framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem fagnar þó tillögum stjórnvalda. Hagfræðingur ASÍ telur stuðninginn tímabæran en þó sé ljóst að hann gagnist ekki öllum.

Stjórnvöld kynntu í dag þríþætta aðgerð fyrir þá sem vilja kaupa sína fyrstu fasteign. Í fyrsta lagi að nota séreignarsparnað skattfrjálst í allt að tíu ár til safna fyrir kaupum á fyrstu íbúð. Í öðru lagi að nota séreignarsparnaðinn skattfrjálst til að greiða inn á höfuðstól láns og í þriðja lagi að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst sem afborgun inn á inn óverðtryggt lán og lækka þannig greiðslubyrði og höfuðstól. Markmiðið er að greiðslubyrði af óverðtryggðum íbúðalánum á fyrstu árum verði sambærileg við löng verðtryggð lán. Framkvæmdastjóri SA fagnar framtaki stjórnvalda en segir að vanda þurfi útfærsluna.

„Hafi þetta eitt og sér áhrif á greiðslumat fólks, að vegna þessara úrræða geti fólk staðist hærra greiðslumat, ráðist í kaup á dýrara húsnæði og svo framvegis, þá gæti það grafið undan þessari leið til lengri tíma litið. Við sjáum í raun og veru allar slíkar aðgerðir stjórnvalda í gegnum tíðina, hærri veðhlutföll eða þá lækkun raunvaxta á húsnæðismarkaði, hafa á endanum bara endað í hærra húsnæðisverði og myndu þarf af leiðandi með þeim hætti vera búið að draga séreignasparnað fólks inn í það sem á endanum væri bara hærra húsnæðisverð og gagnaðist engum. Þannig að ég held að það sé mjög mikilvægt að menn hugi vandlega að heildaráhrifum og langtímaáhrifum þessarar leiðar. En við fyrstu sýn sýnist mér þetta vera um margt áhugaverða leið sem er vel þess virði að skoða nánar,“ segir Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Vissulega munu þær gagnast ákveðnum hópi, gera honum kleift að greiða inn á sín lán og greiða þau hraðar niður eða safna sér upp höfuðstól á löngum tíma með skattaafslætti. Þetta mun gagnast ákveðnum hóp. En ég held að það verði samt sem áður ákveðinn hópur af ungu fólki sem verði í vanda,“ segir Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ.

Henný bendir á að stór hópur fólks hafi hreinlega ekki tekjur til að greiða af lánum og vextir séu enn of háir. 

„Svo þarf fólk þrátt fyrir þessa aðgerð að standast greiðslumat í bönkum. Til þess þarf fólk að hafa býsna góðar tekjur í dag. Og það verður óbreytt þrátt fyrir þetta. Hópurinn sem ekki gerir það er jafnilla staddur,“ segir Henný.

Þorsteinn segir að það verði að vanda til verka, og flýta sér ekki um of við þessa lagasetningu.

Heldurðu að það væri skynsamlegra að fresta þessu máli fram yfir kosningar?

„Ég held að það sé alla vega mikilvægt að taka sér tíma í að skoða hvaða áhrif þetta hefur á fasteignamarkaðinn, hvaða áhrif þetta hefur á einstaka hópa. Það skiptir líka miklu máli þegar um svona viðamikla kerfisbreytingu er að ræða að þetta setji ekki stíflu í markaðinn. Hér er verið að tala um gildistöku frá og með 1. júlí 2017. Það verða allir hópar að vera jafnsettir, svo fólk lendi í ekki þeirri stöðu núna að fara að bíða eftir gildistöku laganna,“ segir Þorsetinn.