Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að setja á fót átakshóp í húsnæðismálum sem á að skila af sér tillögu að heildarlausn ekki síðar en 20. janúar. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að framboð á íbúðahúsnæði verði aðalverkefni hópsins en staða leigjenda verði líka skoðuð að kröfu stéttarfélaganna.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu sameiginlega tillögu á ríkisstjórnarfundi í morgun um að stofna átakshóp um aukið framboð á íbúðarhúsnæði. Að auki á hópurinn að fjalla um aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði. Þetta gerðu ráðherrarnir eftir fund stjórnvalda og heildarsamtaka á vinnumarkaði síðastliðinn föstudag. Niðurstaða þess fundar var að koma slíkum átakshóp á legg.
Mjög þröngur tímarammi
„Það er heilmikið búið að vinna í því að kortleggja húsnæðismálin af hálfu félagsmálaráðherra sem hefur verið með ýmsar nefndir starfandi í því,“ sagði forsætisráðherra í hádegisfréttum RÚV. Nú sé samkomulag um að fara í framboðsmálin. „Það er ekki nægjanlegt framboð af húsnæði og við þurfum að horfa til þess hvernig við getum gert þar bragarbót, bæði til skemmri tíma og lengri tíma. Þess vegna setjum við mjög þröngan tímaramma um þennan hóp. Hann á að skila af sér í janúar og köllum hann átakshóp þar sem allir koma saman og vinna að þessu markmiði.
„Framboðsmálin eru aðalverkefni hópsins en hann mun líka skoða sérstaklega stöðu leigjenda, sem er eitt af því sem verkalýðshreyfingin hefur lagt áherslu á,“ sagði Katrín.
Aðspurð um hvort skipulagsreglur og kröfur til íbúðahúsnæðis hamli uppbyggingu svaraði Katrín: „Það eru hindranir á þessari leið sem við verðum að yfirstíga. Þetta er eitt af lykilatriðunum. Það hefur kom fram í máli verkalýðshreyfingarinnar að til þess að stjórnvöld geti greitt fyrir kjarasamningum þá séu húsnæðismálin eitt af lykilatriðunum. Við viljum með þessu sýna að við leggjum fullan á að fá niðurstöður frá þessum hópi sem geta orðið til að leysa úr þessum málum, bæði í bráð og lengd.“
Tveir formenn átakshóps
Íbúðalánasjóður á að vinna að málinu með átakshópnum. Formenn hópsins verða Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri Íbúðalánasjóðs, og Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Anna tekur sér leyfi frá störfum hjá Íbúðalánasjóði til að sinna þessu verkefni af fullum þunga, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu. Starfshópinn skipa þrír fulltrúar frá ríki, tveir frá sveitarfélögum og þrír frá heildarsamtökum á vinnumarkaði.