„Ákvörðun akademíunnar er tímaskekkja og ómarktæk,“ segir gagnrýnandi Lestarinnar um Óskarsverðlaunin sem Green Book hlaut á dögunum. „Við verðum að spyrja, af hverju er sagan um Tony Vallelonga og Don Shirley sögð á þennan hátt og hverjir eru að segja hana?“
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Óskarsverðlaunahátíðin fór fram sunnudaginn síðastliðinn við hátíðlega athöfn að vanda. Á meðan margir verðlaunahafar þóttu vel að verðlaunm komnir voru aftur á móti skiptar skoðanir um þá ákvörðun akademíunnar að veita Green Book Óskarinn fyrir bestu kvikmyndina. Ég hef fylgst með umfjöllun um Green Book og var búin að afskrifa hana sem mynd sem hefur eitthvað mikilvægt, nýtt og frumlegt að segja um heiminn, en fann mig tilneydda til þess að sjá hana á mánudagskvöldið. Það nægir að setja inn „The problem with Green Book“ inn í leitarvél Google til þess að fá hugmynd um það hversu umdeild myndin er og þá sérstaklega velgengnin sem hún hefur notið sem náði hámarki sínu með því að hljóta verðlaunin eftirsóttu.
Leikstjórinn Spike Lee sem hlaut sín fyrstu Óskarsverðlaun á sunnudaginn fyrir besta handrit byggt á áður útgefnu efni fyrir BlacKkKlansman gerði tilraun til þess að yfirgefa salinn þegar Green Book vann fyrir bestu myndina. Eftir athöfnina, aðspurður út í atvikið, sagðist hann hafa upplifað sig á körfuboltaleik í Madison Garden og að dómarinn hefði dæmt illa að hans mati. Hann og handritshöfundurinn Jordan Peele sem skrifaði handritið fyrir Get Out, var einnig á meðal þeirra sem klöppuðu ekki þegar myndin vann. Spike Lee hefur einnig bent á að Green Book sé ekki mikið meira en uppfærð útgáfa á Driving Miss Daisy. Á Twitter rak ég augun í færslu frá notanda sem benti á kaldhæðnina fólgna í því að sjá hóp hvítra karlmanna taka á móti verðlaunum fyrir mynd sem fjallar um kynþáttafordóma í Suðurríkjunum. Leikstjóri Green Book er Peter Farelly sem er þekktastur fyrir gamanmyndirnar Dumb and Dumber og There’s something about Mary.
Green Book byggir lauslega á sönnum atburðum og segir frá ferðalagi hins ófágaða ítalskættaða Tony „Lip“ Vallelonga, leikinn af Viggo Mortensen, sem Dr. Don Shirley, frægur píanóleikari hefur ráðið sem bílstjóra og hálfgerðan lífvörð fyrir tónleikaferðalag um Suðurríkin. Myndin gerist árið 1962 þannig að Suðurríkin eru hættulegur staður fyrir Shirley sem er svartur. Titill myndarinnar vísar í ferðahandbók fyrir svarta ferðalanga í Bandaríkjunum, sem innihélt upplýsingar um örugga gisti- og matstaði fyrir svarta í fjandsamlegu umhverfu ríkjandi hvítrar kynþáttahyggju. Handrit Green Book er skrifað af Nick Vallelonga, syni Tony, ásamt leikstjóranum sem að útskýrir að einhverju leyti þessa áherslu á persónu Tony.
Hvíta persónan í aðalhlutverki
Myndin er þannig þroskasaga Tony sem fer frá því að henda glösum í ruslið sem tveir svartir menn hafa drukkið úr inni á heimili hans yfir í að verða vinur Don Shirley sem hann býður á endanum velkominn inn á heimilið sitt. Sem að er gott og blessað út af fyrir sig. Vandamálið er að hér er á ferðinni enn ein sagan sem fjallar um vináttu hvítra og svartra sem gerir sjónarhorn hvíta mannsins miðlægt. Drifkraftur Green Book og þungamiðja myndarinnar er í raun litarhaft Shirley sem tekst á við viðbjóðslega fordóma á ferðalagi sínu en hann er samt sem áður aukapersóna í myndinni, enda fékk Mahershala Ali, sem fer með hlutverk Shirley verðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverki á meðan Mortensen var tilnefndur fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Eins og víða hefur verið bent á þá á fellur myndin einnig í þá gryfju að verða að sögu um hvítan bjargvætt, en Tony bjargar Shirley trekk í trekk frá vandræðum og rasistum.
Tambay Obenson skrifar í Indie Wire að persóna Shirley í Green Book sé smættuð í að vera það sem Obenson kallar „magical negro“, það er þegar svört persóna í sögu eða bíómynd er aðeins til staðar til þess eins að hjálpa hvíta persónunni á ferðalagi sínu til þroska og sigurs. Obenson nefnir fjölmargar kvikmyndir þar sem fyrirbærið kemur við sögu en sem sem dæmi má nefna kvikmyndina Ghost og persónuna Oda Mae Brown sem leikin var af Whoopi Goldberg, og Morgan Freeman í hlutverki sínu í Shawshank Redemption. Þetta er erkitýpa sem er skrifuð af hvítum handritshöfunum, grunn persónusköpun þar sem við fáum aldrei djúpa innsýn inn í hugar- og reynsluheim þessara persóna.
Eins og Obenson bendir á greininni þá fáum við áhorfendur ekki að vita mikið um líf, fjölskyldu og sögu Don Shirley á meðan við kynnumst eiginkonu og eiginlega allri stórfjölskyldu Tony, sem gerir það að verkum að áhorfendur tengjast honum frekar og finna til samkenndar með honum. Þannig er Green Book ekki ævisöguleg mynd um hinn merka píanóleikara Don Shirley og þetta hættulega tónleikaferðalag, en tónskáldið Igor Stravinsky sagði um Shirley að snilligáfa hans væri samboðin guðunum, heldur verður þetta einvörðungis að þroskasögu Tony “Lip” Vallelonga. Saga sem þó hefði ekki verið sögð ef ekki hefði verið fyrir kynni hans af hinum merka Don Shirley.
Víðtækt menninganám
Green Book er á yfirborðinu „feel good“ mynd, og Viggo Mortensen og Mahershala Ali leika báðir vel, en myndin þjónustar fyrst og fremst hvíta áhorfendur. Þetta er saga um hvítan mann, einhvers konar friðþæging kannski og óþægileg einföldun á flókinni sögu kynþáttafordóma í Bandaríkjunum. Það er ekki nóg með að persóna Shirley sé ekki gerð skil með þeim hætti sem hann á skilið þá kemur það í hlut Tony að fræða Shirley, sem hefur hlotið menntun í klassískum píanóleik og tilheyrir hvorki í heimi hvítra né svartra, um dægurmenningu svartra, en hann kynnir hann fyrir tónlist og steiktum kjúklingi. Af því að Tony er í lágstétt þá gerir hann tilkall til og nærist á menningu svartra, Tony segist meira að segja vera svartari en Shirley þegar hann furðar sig á vanþekkingu hans. Það er ekki ljóst fyrir mér hvort að kvikmyndagerðarfólkinu sé sjálfu ljóst að þarna er um að ræða mjög áberandi dæmi um menningarnám eða cultural appropriation.
Hvort það sé meðvitað eða hvort þetta eigi að vera til marks um að Tony geti ekki verið svo slæmur rasisti fyrst hann fílar tónlist og matseld svartra. Það er talað um menningarnám þegar hvítu fólki eða þeirra sem lifa og hrærast innan eins ákveðins og ríkjandi menningarhóps tileinkar sér ákveðna þætti, yfirleitt tónlist og matargerð, úr menningarheimi undirokaðs þjóðfélagshóps, í þessu tilviki svartra Bandaríkjamanna, án þess að horfast í augu við samhliða djúpstæða kynþáttafordóma sem er sópað til hliðar. Á það að Tony búi yfir þekkingu á menningarheimi svartra að gera hann að upplýstari eða betri manneskju og þar af leiðandi sympatískari í augum áhorfenda, og að hann sé úr lágstétt hvítra innflytjenda færi hann nær reynsluheimi svartra? Það kemur berlega í ljós í upphafi myndarinnar að hann er rasisti sem er tilbúinn að gera hvað sem er nánast fyrir pening. En á endanum er það Shirley sem er meinað um aðgang að ákveðnum hótelum og veitingastöðum á meðan hinn groddaralegi Tony kemst alls staðar inn. Kynþáttur er spilið sem trompar alltaf leikinn í Bandaríkjunum og það fer ekkert á milli mála að kynþáttahatur og -misrétti er gríðarlega stórt samfélagsmein þar og víða annars staðar.
Við verðum að spyrja, af hverju er sagan um Tony Vallelonga og Don Shirley sögð á þennan hátt og hverjir eru að segja hana? Af hverju hefur akademían valið Green Book sem bestu mynd ársins? Bæði BlacKkKlansman Spike Lee og Black Panther voru tilnefndar, sem segja sögur svartra frá sjónarhorni svartra kvikmyndagerðarmanna. Ákvörðun akademíunnar er tímaskekkja og ómarktæk, það bakslag sem velgengni og viðtökur Green Book hefur fengið, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðum er til marks um það að tími frásagna á borð við Green Book á að vera liðinn.
Skömmu eftir frumsýningu Green Book síðasta haust sagði Viggo Mortensen n-orðið á fjölmiðlafundi í tengslum við myndina en notkun hans á orðinu vakti upp deilur og hneykslan. Ég efast ekki um að margir hvítingjar hafi ranghvolft í sér augunum, pólitíska rétttrúnaðarlögreglan, má ekki segja neitt lengur, en Halldór Armand fjallaði meðal annars um málið hér í Lestinni og vottaði Viggo Mortensen samúð sína. Málið er bara það að hvít viðkvæmni þarf að víkja til hliðar og í stað þess að móðgast þá þurfum við hvítt fólk að hlusta meira og betur á gagnrýni þeirra sem mótmæla sögunum sem við hvíta fólkið segjum um líf og reynslu þeirra sem við höfum undirokað öldum saman. Og þegar hvítur maður segir n-orðið upphátt á opinberum vettvangi þá er það einmitt samhengið sem skiptir öllu máli, þetta orð er ennþá svo gildishlaðið og eldfimt og sú staðreynd að hvítu fólki leyfist ekki að segja það á opinberum vettvangi afhjúpar sekt okkar og skömm. Vegna þess að á meðan við njótum góðs af því að lifa við valdakerfi sem meta hvít líf meira virðis en annarra og ef við erum ekki tilbúin að hlusta og vera aukapersónur í sögum um réttindabaráttu svartra þá erum við ekki mikið betri en Tony „Lip“ Vallelonga árið 1962.