Ólíkir menningarheimar þýða bækur og texta á víxl eins og þurfa þykir en hvað gerist þegar samtal þarf að fara fram milli eiginlegra heima eða hnatta? Ragnheiður Gyða Jónsdóttir velti þessu fyrir sér í síðasta pistli sínum í Víðsjá um töfraheima tungumálanna og tók meðal annars dæmi úr kvikmyndinni Arrival.


Ragnheiður Gyða Jónsdóttir skrifar: 

Halldór Laxness sagðist hafa verið 12 daga að þýða Candide (Birtíng) eftir Voltaire og hefur þá heldur betur látið hendur standa fram úr ermum. Því þýðing hans er ekki bara þýðing, hún er yfirfærsla inntaks bókarinnar úr franskri menningu yfir á íslenska. Ekki Voltaire að kenna eða þakka að Íslendingum þykir mörgum vænna um Birtíng en Candide. Carry coals to Newcastle þýðir t.a.m.hreint ekki að bera kol til Newcastle á Englandi norðanverðu. Þar og í nærsveitum var forðum mikil kolavinnsla og þaðan kolaútflutningur. Því þótti í meira lagi tilgangslaust að bera kol til Newcastle. Og við þýðum þetta yfir á íslensku með að bera í bakkafullan lækinn, - til hvers að bera vatn í bakkafullan læk?

Setning þessi hefur fylgt mér frá því ég var níu ára og kassi með leikriti Davíðs Stefánssonar og tónlist Páls Ísólfssonar var borinn inn á æskuheimilið. Davíð hafði ungur heillast af þjóðsögunni um sálina hans jóns míns, gaf út samnefnda ljóðabók árið 1933 og verk þeirra Páls frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur jólin 1941. Davíð Stefánsson hafði heldur betur fyllt uppí persónugallerí þjóðsögunnar, þar segir m.a. að kona Jóns hafi fleygt skjóðu með sál hans alla leið inn í himnaríkishöll. Hugsanlega hefur Davíð Stefánsson heyrt að hugsanlega hafi Matthías Jochumsson skráð þjóðsögu þessa þegar hann var í Prestaskólanum á árunum 1863-1865, hún hafi því ekki verið eldgömul.

Auðvitað hefur íslenskt alþýðufólk ímyndað sér himnaríkishöllina sem veglegan burstabæ, - hvað var glæsilegra í þeira augum á ísa köldu landi? Þótt María mey, sonur hennar eingetinn og sánkti Páll komi fyrir er ekki þar með sagt að þjóðsagan sé úr kaþólsku. Siðaskiptum þessarar þjóðar lauk ekki með aftökunum í Skálholti haustið 1550, sísona. Opinberlega kannski, en lengi lifir í gömlum glæðum. En þetta var skógarstígur, - ekki tel ég líklegt að ég hafi hugleitt ímyndunarafl alþýðumanna fyrri alda þegar ég var níu ára heldur þegar heilinn hugsunin þroskaðist. Neita þó ekki að vangaveltur um íslenska þjóðarsál fylgdu auknum þroska, en ímyndunarafl mannkyns er merkilegt. Sennilega finnst flestum brjálæðislegt frelsi innbyggt í orðið en það er samt skelfilega heft og innrammað. Af reynslu okkar og þekkingu, - við getum ekki, nema kannski sumir með “ólöglegum” efnum, brotist úr þessum stranga ramma. En reynum samt, hver sem betur getur. Tökum til dæmis kvikmyndir og skáldsögur um geimverur. Allsstaðar eru þær því marki brenndar að bera keim af lífverum jarðar, fyrr og síðar. Hellaristur, myndskreytingar fornra þjóða og hvaðeina hafa m.a.s. verið túlkaðar sem frásagnir af komu geimvera til jarðarinnar. Og þær eru allar í jarðlegri mynd. Kvikmynd Denis Villeneuve frá 2016 er því marki brennd þegar kemur að geimverum; þær eru með höfuð, viðbein, búk, eru heptapod, sjöfætlingar. Úr þessum sjö ganglimum ganga svo sjö angar, einskonar “hendur” og gefa frá sér eitthvað sem í okkar augum líkist bleki. Verur þessar koma til jarðarinnar á 12 egglaga flygildum sem minna á skeljar og koma þeim fyrir víða um heimsbyggðina. En stíga ekki til jarðar.

Í Bandaríkjunum nema þær staðar í Montana og ekki stendur á hernum að koma þar upp búðum sínum og leyniþjónusta ríkjasambandsins sendir sinn fulltrúa á vettvang. En enginn skilur neitt í neinu. Herforingi skundar því á fund sérfræðinga og spilar eftirfarandi upptöku úr síma sínum.

Kvenmálvísindadoktor og karleðlisfræðdoktor eru flutt til Montana. Þeim er ætlað að botna í geimverunum, hvoru með sinni aðferð. Fljótlega snýr þó karleðlisfræðingurinn baki við sínum fjölmörgu formúlum og ánetjast aðferðum málvísindakonunnar. Hún áttar sig á að seint skilji hún hljóðin sem gestirnir gefa frá sér og reynir því að ná sambandi við þá með rituðum orðum.

En herforinginn bandaríski og fulltrúi leyniþjónustunnar er ekki kátir, finnst tvímenningum ganga seint og illa að skilja sjöfætlingana úr fjarlægum alheimi. Málvísindakonan útskýrir vandann fyrir honum með dæminu hver er tilgangur ykkar með komunni til jarðarinnar?

Málvísindakonan og geimverurnar skrifast á. Geimverurnar skrifa ekki í beinni línu, upp, niður, frá hægri til vinstri eða öfugt. Þær skrifa í hring með tveimur öngum í senn, orðin eru ekki stafir, í okkar augum amk, heldur mynstur hér og þar á hringnum. Hljóðin sem þeir gefa frá sér tákna fremur tilfinningar en orð. Tjáskiptin eru því sjónræn en með fylgir að geimverurnar skynja tímann ekki línulaga heldur í hring, geta því séð framtíðina fyrir. Með hugsanaflutningi og frekari upplýsingum frá þeim áttar málvísindakonan sig á að í þeirra hugum er enginn samsvörun talaðs og ritaðs máls. En aðrar þjóðir hafa verið við sama starfa og kínverskir málvísindamenn telja að ákveðið mynstur á geimveruhring tákni að þeir komi með vopn og vill árás á þá. Sem og álíka fulltrúar annarra þjóða, svo og bandaríski herforinginn og fulltrúi leyniþjónustunnar. Ef þið, hlustendur góðir, hafið ekki séð þessa kvikmynd, vil ég ekki segja meira. En sorgarsagan er eiginlega að vísindamennirnir tveir skilja geimverurnar og þær þau, samskipti vísindamannanna, hers og leyniþjónustu eru hinsvegar í molum. Enginn skilur annan, hugmyndaheimur herforingja, leyniþjónustumanns, fulltrúa málvísinda og eðlisfræði og öll viðbrögð við aðstæðum eru gjörólík. Því hvenær skilur maður mann og hvenær skilur maður ekki mann? Og hvort er meira áríðandi; að skilja mann og annan eða geimverur? Því trúið mér, hlustendur góðir, til er sú grein málvísinda sem nefnist xenolinguistics. Margir þekkja orðið xenófóbía yfir ótta við útlendinga, ef ekki hatur á útlendingum. Forn-gríska orðið xenos merkir útlendingur, ókunnur, óþekktur, öðruvísi, framandi og xenolingistics eru því framandi málvísindi eða bara geimverumálvísindi. Auðvitað var einn slíkur málvísindamaður þeim sem stóðu að Arrival til aðstoðar og leiðbeiningar í hverjum ramma myndarinnar. Þessir málvísindamenn berjast við að leita að “tungum” sem gætu auðveldað samskipti jarðarbúa og framandi geimvera. Sem ekki er vitað hverjar eru, hvernig eru, hvort þær hugsa og skynja einsog við, hvort þær yfirleitt gefa frá sér hljóð o.s.frv. Rúmlega 7 milljörðum og 700 milljónum jarðarbúa hefur á bara 300.000 árum gengið ákaflega misvel að skilja náungann. Eru þó milljalarðar þessir og hundruð milljóna öll af sama meiði en hugsa og skynja eftir sömu brautum á ákaflega fjölbreyttan máta. Og standa flestir ákaflega fast á sínum skilningi, telja jafnvel sér til vansa að skipta um skoðun. Spurning hvort framandi verur úr alheimi hafi áhuga á að blanda geði við íbúa þessarar bláleitu rekistjórnu, þeirri þriðju frá sólu í sínu kerfi sem snýst ekki bara um þá sól heldur kringum sjálfa sig á ferð sinni um geiminn .....