Hljóðbækur hafa sótt í sig veðrið á síðustu árum og verða æ vinsælli. Streymisveitur eru ekki bara músík og bíó, Spotify og Netflix. Nú má hlaða niður heilu skáldsagnadoðröntunum í upplestri á þar til gerðum síðum og dvelja í fortíð, nútíð og framtíð með áður óþekktu fólki um leið og sýslað er við ýmislegt annað eða púlað í ræktinni. Nýjasta aðgengi að hljóðbókum á Íslandi er í gegnum sænska alþjóðafyrirtækið StoryTel.

Í þættinum Orð um bækur var laugardaginn 16. febrúar rætt við Stefán Hjörleifsson „landstjóra“ StoryTel á Íslandi um fyrirtækið og umsvif þess en einnig um áform StoryTel um að framleiða sínar eigin skáldsögur í samræmi við það sem lesendur sækjast helst eftir bæði hvað varðar form og innihald. Stefán var fyrst spurður hvort Íslendingar væru að verða háðir hljóðbókum.

StoryTell gefur út íslenskar hljóðbækur á grundvelli samnings við útgefendur og eru þannig hundruð bóka, nýrra jafnt sem eldri, aðgengilegar í gegnum áskrift að streymi með samþykki höfunda.