„Það góða við fyrsta áfallið var að þá lærði maður að takast á við áföll,“ segir Skúli Guðbjarnarson veitingamaður í Álftaneskaffi á Álftanesi. Það má eiginlega segja að röð áfalla hafi leitt hann þangað sem hann er í dag. Hann lenti í bílslysi og slasaðist illa. Þegar hann var búinn að jafna sig eftir það þá var hann að fara að opna fiskeldisstöð í Fljótum þegar kviknaði í henni.

Hann ætlaði að ráðast í endurbyggingu á stöðinni en í millitíðinni sagaði hann næstum af sér aðra höndina í keðjusagarslysi. Höndin greri ótrúlega vel og hann vann um tíma sem framkvæmdastjóri fiskeldisstöðvar í Noregi en ætlaði svo í fiskeldi á Álftanesi.

„Þetta var svona exelæfing. Svo strandaði ég á því að ég sá fram á sjóðstreymisvanda. Þá datt mér í hug að tengja við þetta kaffihús, enda hafði verið kaffihúsarekstur á þessum stað. Ég sá að það gekk upp en svo fór ég að spá í að fiskeldinu væri kannski ofaukið, enda hefði ég trúlega aldrei fengið leifi til þess,“ segir Skúli.

Kaffihúsið á Álftanesi nýtur mikilla vinsælda, ekki síst ferðamanna og hefur skorað mjög hátt á ferðavefnum Tripadvisor. „Ferðamenn vilja góðan mat á góðu verði og nóg af honum. Auðvitað erum við ekki að gera besta matinn á höfuðborgarsvæðinu, skárra væri það nú, en þetta er eitthvað sem höfðar til ferðamanna. Við leggjum okkur líka fram. Að elda mat er eins og að elska, þú vilt að öðrum líki það sem þú ert að gera,“ segir Skúli.