Ábyrgðinni varpað á áhorfendur

Gott Fólk
 · 
Leikhúsgagnrýni
 · 
Leiklist
 · 
Valur Grettisson
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá

Ábyrgðinni varpað á áhorfendur

Gott Fólk
 · 
Leikhúsgagnrýni
 · 
Leiklist
 · 
Valur Grettisson
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu
09.01.2017 - 12:34.Vefritstjórn.Víðsjá
Gagnrýnandi Víðsjár, Guðrún Baldvinsdóttir, segir að óþægindatilfinning hafi sótt á hana á leiksýningunni Gott fólk, sem byggð er á samnefndri bók eftir Val Grettisson og er nú sýnd í Þjóðleikhúsinu. Verkið tekst á við spurningar um ofbeldi í samböndum fólks og vísar í raunverulegt ábyrgðarferlismál sem komst í hámæli árið 2013.

„Við [erum] neydd til þess að íhuga afstöðu okkar, ekki bara gagnvart þeim persónum sem standa á sviðinu og glíma við ofbeldi sem grasserar í samfélaginu – heldur einnig hvaða afstöðu við tökum sem áhorfendur, hver ábyrgð okkar er sem stöndum hjá,“ segir gagnrýnandi Víðsjár.

„Eftir stendur þó spurningin um hvort að listin hafi leyfi til þess að nýta líf raunverulegs fólks og setja það á svið án þeirra leyfis. Til þess að réttlæta þessa notkun er ekki nóg að segja að fyrirmyndirnar skipti ekki í raun ekki máli fyrir  framvindu sögunnar og að verkið sé skáldskapur.“


Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:

„Ástin er í eðli sínu ofbeldi.“ Þessu heldur Sölvi Kárason fram, en hann er aðalpersóna verksins Gott fólk sem nú er sýnt í Kassanum í Þjóðleikhúsinu. Verkið er skrifað upp úr samnefndri skáldsögu Vals Grettissonar sem kom út fyrir tæpum tveimur árum og leikstjóri er Una Þorleifsdóttir. Þessi hugmynd Sölva um ástina sem ofbeldi er meginstef sýningarinnar og verður aðalpersónunni að falli í fleiri en einum skilningi.

Í Góðu fólki er tekist á við spurningar um ofbeldi í samböndum fólks, hvar mörkin liggja, hvað ofbeldi sé og hvernig hægt sé að koma auga á það ofbeldi sem sést ekki með berum augum. Í verkinu fylgjumst við með þeim Sölva og Söru sem að eiga að baki stutt en mjög stormasamt ástarsamband. Nokkrum mánuðum eftir sambandsslitin bankar vinur þeirra beggja á dyr hjá Sölva og afhendir honum bréf, sem er upphafið á því sem er kallað ábyrgðarferli. Ábyrgðarferli er aðferð fyrir þolendur og gerendur hvers kyns ofbeldis til þess að komast að nokkurs konar sátt. Hugmyndin gengur út á að þar sem að réttarkerfið hafi ekki tækin til þess að takast á við slík mál af sanngirni gagnvart þolendum þá sé þetta leið til þess að skila skömminni á þann stað sem hún á heima, og finna sátt fyrir þá sem að málinu koma. 

Mynd: Þjóðleikhúsið/Hörður Sveinsson

Eins og kemur í ljós í verkinu eru þó ýmsir vankantar á þessari hugmynd. Um leið og þegnar samfélagsins ákveða að taka lögin í sínar hendur myndast upplausn, og erfitt verður að finna leið þar sem allir aðilar ganga glaðir frá sáttaborðinu. Hugmyndin að þessu ferli er ákveðin afleiðing af ástandi þar sem þegnar samfélagsins eru hættir að treysta dómsvaldinu. 

Sölvi, leikinn af Stefáni Halli Stefánssyni, er durtur og kúgari sem nýtir vald sitt til þess að traðka á fólkinu í kringum sig. Hann beitir aldrei líkamlegu ofbeldi en andlega ofbeldið sem hann notar verður til þess að hann heldur aðstandendum sínum í stöðugu limbói.  Stefán Hallur er óhugnanlega sannfærandi í hlutverki sínu sem ofbeldismaður - og lítil samúð er með persónu hans. Líkamsbeiting Stefáns Halls er úthugsuð niður í hvert smáatriði, kækir og hreyfingar verða að fullmótaðri manneskju á sviðinu. Það þarf ekki nema nokkrar senur til þess að átta sig á þeirri ofbeldistaktík sem persóna hans notar. 

Vigdís Hrefna Pálsdóttir er í hlutverki fyrrverandi kærustunnar Söru og nær vel að birta áhorfendum persónu sem hefur gengið í gegnum erfiða tíma. Í upphafi er Vigdís Hrefna í  aðeins öðru tempói en Stefán Hallur en smám saman myndast heildarmynd af sambandi þeirra og þau ná réttu tempói sín á milli, í hreyfingum og leik.

Baltasar Breki Samper er sannfærandi í hlutverki Grímars , en hann verður helsti talsmaður „góða fólksins“ í verkinu. Grímar trúir statt og stöðugt á sannfæringu sína þar til að hann kemst að því að sú heimsmynd gengur ekki lengur upp. Snorri Engilbertsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir og Birgitta Birgisdóttir standa sig einnig vel í hlutverkum sínum og skapa persónur sem dragast inn í stríð þeirra Sölva og Söru.

Mynd: Þjóðleikhúsið/Hörður Sveinsson

Samhæfing leikaranna er fantagóð og ljóst er að mikil vinna hefur verið lögð í hreyfingar persónanna. Mismunandi fjarlægðir milli leikaranna sýnir óeðlilegt valdamyndur fólksins og birtist þannig ofbeldið í sinni skýrustu mynd, án þess að líkamleg átök þurfi nokkru sinni að eiga sér stað. Úr verður stöðug spenna sem heldur áhorfendum allan tímann á einhvern óþægilegan hátt. 

Hugmyndin um „góða fólkið“ er áhugaverð í verkinu og er sýnt fram á hversu hættulegt það getur verið þegar hópur fólks álítur sig vera yfir aðra hafna í samfélaginu, sökum greindar eða stjórnmálaskoðana. Á endanum neyðumst við nefnilega öll til þess að takast á við erfið siðferðisleg málefni sem er ekki hægt að útskýra með svart/hvítri heimsmynd. Verkið neyðir áhorfendur til þess að taka afstöðu með eða á móti því sem á sér stað á sviðinu og það kemur fljótt í ljós að það er í raun ómögulegt.  

Mynd: Þjóðleikhúsið/Hörður Sveinsson

Leikverkið tekur einnig á málefnum sem skipta þjóðfélagið miklu máli. Jafnrétti og kúgun kvenna eru tekin til umfjöllunar en út frá nýju sjónarhorni – sjónarhorni gerandans. Ofbeldið er svo rótgróið innan kerfa samfélagsins og það verður ógerningur að uppræta það. Réttarkerfið hefur engin svör, og mögulega viljum við ekki að yfirvaldið blandi sér í mál sem liggja á eins gráu svæði og það mál sem fjallað er um í verkinu. Kúgarinn og forréttindamaðurinn Sölvi brotnar þó niður og grátbiður kerfið um að taka á málinu. Hann segir það vera rétt sinn að dómsvaldið dæmi hann. Innst inni veit hann þó, að kerfið mun alltaf dæma honum sjálfum í hag. Leikgerð þeirra Símonar Birgissonar og Vals Grettissonar er vel unnin upp úr skáldsögunni, að því leyti að áherslum bókarinnar er vel komið til skila. Aftur á móti eru margar senur sem verða óþarfar á sviðinu, og virðist sem það hafi verið gert með það í huga að koma sem mestu af bókinni til skila. Ofbeldissenur milli Sölva og Söru eru of margar, þar sem leikararnir þurfa ekki jafn mörg atriði og sögupersónur bókarinnar þurfa til að koma tilfinningunum á framfæri. Því hefði sýningin vel mátt vera að minnsta kosti 40 mínútum styttri – en hún er um tveir og hálfur tími.

Leikmynd Evu Signýjar Berger er einföld – svartur upphækkaður flötur sem persóna Stefáns Halls kemst ekki út af, á meðan hinar persónurnar gátu stigið af honum að vild. Á  allan vegginn fyrir aftan leikarana er varpað video-skotum sem gegna því hlutverki að staðsetja senurnar í íslenskum veruleika. Náskot af hlutum eins og glösum, kaffibollum og bókum hafa þó fyrst og fremst þau áhrif að athygli áhorfandans beinist frá því sem á sér stað á sviðinu og að þessum videomyndum. Einstaka skot hafa tilgang, þar má helst nefna atburðarrás sem á sér stað í miðri búsáhaldabyltingunni. Að öðru leyti skemma video-skotin einungis fyrir annars flottri og einfaldri sviðmynd.

Mynd: Þjóðleikhúsið/Hörður Sveinsson

En það er þessi óþægindatilfinning sem ásækir mann á sýningunni Gott fólk sem líklega þarf að skoða nánar. Í framhaldi erum við neydd til þess að íhuga afstöðu okkar, ekki bara gagnvart þeim persónum sem standa á sviðinu og glíma við ofbeldi sem grasserar í samfélaginu – heldur einnig hvaða afstöðu við tökum sem áhorfendur, hver ábyrgð okkar er sem stöndum hjá.

Sterk tengsl við raunveruleikann virðast í upphafi hafa lítinn annan tilgang en að vekja upp forvitni hjá áhorfendum. Efni verksins vísar í mál sem átti sér stað á dómstólum götunnar, með hjálp fjölmiðla og kommentakerfa, en með þátttöku svo miklu fleiri sem drukku í sig slúður um fólk sem almenningur þekkti líklega ekki. Bók Vals Grettissonar hagnaðist að miklu leyti á líklegri forvitni lesendanna á persónulegu lífi annars fólks og má segja að veruleiki þess fólks hafi verið notaður til þess að selja fyrstu bók höfundar.

Það var því í raun heldur áhugavert þegar kom í ljós að skáldsagan ætti að fá framhaldsslíf á sviði, þar sem að hún er ekki nema í meðallagi góð og nýtir sér gægjuþörf lesendanna. Aðstandendur sýningarinnar hafa að miklu leyti náð að slíta sig frá upphaflegu fyrirmyndum verksins. Þeir nýta sér tilfinningar almennings og áhorfenda til þess að varpa ljósi á hversu illa svona mál geta farið, hversu erfitt það er að takast á við það ofbeldi sem er allt í kringum okkur og hvernig eigi að skilgreina það ofbeldi sem aldrei er sjáanlegt. 

Eftir stendur þó spurningin um hvort að listin hafi leyfi til þess að nýta líf raunverulegs fólks og setja það á svið án þeirra leyfis. Til þess að réttlæta þessa notkun er ekki nóg að segja að fyrirmyndirnar skipti ekki í raun ekki máli fyrir  framvindu sögunnar og að verkið sé skáldskapur. Áhorfendur eru meðvitaðir um tengslin við veruleikann og þá vitneskju er ekki hægt að stroka út svo einfaldlega. Leikhópurinn, undir stjórn Unu Þorleifsdóttur, nær þó að bjarga sér að einhverju leyti með því að fjalla um hlut almennings í málum sem þessum, þar sem þjóðfélagið fer á flug til þess að komast að því hvaða fólk eigi hlut að máli. Í  stað þess að hunsa þá staðreynd að hér sé á ferð harmleikur raunverulegs fólks fer fókusinn á þann veruleika sem við búum öll við. Ábyrgðinni er því varpað á áhorfendurna, sem sitja eftir með óþægindatilfinningu sem er erfitt er að losna við. 

Tengdar fréttir

Leiklist

Gott fólk á gráu svæði

Jafnréttismál

Eldfimt ábyrgðarferli