„Á ég að pakka mér inn í bómull á meðan?“

05.09.2017 - 15:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskur maður sem dvaldi í Kanada í þrjá mánuði í sumar uppgötvaði í gær þegar hann ætlaði til læknis hér á Íslandi að lögheimili hans hefði verið skráð í Kanada að sér forspurðum. Starfsmaður heilsugæslunnar sagði Birgi Erni Breiðfjörð að hann væri ekki sjúkratryggður og þyrfti því að borga þjónustuna fullu verði. Hjá Þjóðskrá fékk hann þær upplýsingar að embætti sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu hefði sent tilkynningu um breytt lögheimili.

Birgir Örn var í Kanada í þrjá mánuði í sumar. Meðan á þeirri dvöl stóð áttu hann og barnsmóðir hans að mæta til fundar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til að ganga frá umgengnissamningi. Birgir fékk lögmann sem hann þekkir til að mæta fyrir sig og fékk honum umboð til að ganga frá samningnum. Umboðið var undirritað með dagsetningu og staðsetningu, í Kanada.

Það var svo ekki fyrr en í gær sem Birgir komst að því að skráningu hans í Þjóðskrá hefði verið breytt. Nú væri hann allt í einu skráður til heimilis í Kanada. Birgir segist hafa komist að þessu þegar hann ætlaði til læknis. Þá var Birgi tjáð að hann væri ekki sjúkratryggður og þyrfti því að greiða fyrir þjónustuna eins og útlendingur.

Birgir Örn athugaði hverju sætti og komst þá að því að hann væri skráður til heimilis í Kanada og væri orðinn réttlaus í kerfinu. Hann fékk þau svör hjá Þjóðskrá að tilkynning um breytta skráningu væri frá sýslumannsembættinu komin og var honum bent á að hafa samband við starfsmenn embættisins til að fá þessu breytt. Barnsmóðir Birgis og lögmaðurinn sem hann sendi í sinn stað höfðu samband við sýslumannsembættið, þar sem þau sátu bæði fundinn í sumar. Að sögn Birgis hafa þau litlar skýringar fengið enn sem komið er.

Leiðrétt 6. september: Birgir uppgötvaði breyttu lögheimilisskráninguna þegar hann ætlaði að panta tíma hjá lækni. Hann var ekki kominn til læknis eins og sagði í fyrstu gerð fréttarinnar.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Örn Breiðfjörð

Þar til þetta leysist virðist Birgir standa utan kerfisins og því ekki eiga rétt til læknisaðstoðar og annarrar þjónustu eins og almennt gildir um landsmenn. „Á ég að pakka mér inn í bómull á meðan?“

Við samanburð á tveimur þjóðskrám, annarri nýuppfærðri og hinni frá í sumar sést hvernig lögheimilisskráning Birgis breytist frá heimilisfangi á höfuðborgarsvæðinu til búsetu í Kanada.

Þegar óskað var eftir viðbrögðum Sýslumannsembættisins á höfuðborgarsvæðinu var bent á Þjóðskrá. Ekki fengust svör frá Þjóðskrá við vinnslu fréttarinnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV