Nú virðist það vera fjarlægur draumur að hollensk hjón komist á Suðurpólinn á rafbíl úr endurunnu plasti. Ferðin hefur sóst seint vegna veðurs. Verkefnastjóri hjá Artic Trucks segir að bílinn hafi staðið sig vel og að hver kílómetri sé sigur.

Hollensku hjónin Edwin og Liesbeth ter Velde hafa nú ekið eftir ísbreiðunni á Suðurheimskautslandinu síðustu 13 daga. Ferðinni miðar frekar hægt. Suma daga er meðalhraðinn á klukkustund aðeins 0,4 kílómetrar. Suma daga komast þau ekki fet vegna veðurs og dvelja þá í tjaldi - í yfir 10 stiga frosti. Í gær náðu þau mesta meðalhraðanum þremur km á klukkustund. Þau hafa nú lagt að baki 250 kílómetra.  Ferðinni er heitið á Suðurskautið og þau fagna því ákaft þegar sólin skín. Ástæðan er ekki bara sú hve fallegt er þegar sólin lætur sjá sig heldur sú að þau aka um á frekar óvenjulegum bíl svo vægt sé tekið til orða. Hann vegur ekki nema 800 kíló, er úr plasti og sólarsellur á tveimur tengivögnum sem þau eru með í eftirdragi knýja bílinn áfram. Þetta er sem sagt plastrafbíll. 

Byrjuðu að safna plasti

Það var fyrir nokkrum árum sem hjónunum Edwin og Liesbeth ofbauð umbúðasóunin ekki síst á plasti og öll mengunin af völdum plasts. Þau einsettu sér að endurnýja allt rusl heimilisins og kasta engu. Upp úr því kviknaði hugmyndin að smíða bíl úr plasti og fara á suðurskautið án þess að menga. 

„Þetta byrjaði allt heima. Við hendum mörgu, til dæmis þegar við eldum. Umbúðirnar eru einskis virði og maður hendir þeim," sagði Edwin ter Velde í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur fréttamann þegar hann kom hingað til lands í mars á þessu ári til að prófa plastbílinn sinn sem ber nafnið Sólarfarinn eða Solar Voyager.

Þau söfnuðu plasti og unnu úr því sexhyrnda kubba sem raðað var saman til að byggja bílinn svona eins og þegar börn búa til bíla úr Lego-kubbum.

Markmiðið með ferðinni er að vekja athygli á umhverfis- og loftslagsmálum. Eiginlega að segja plastinu stríð á hendur sem ógnar nú umhverfinu og dýralífi víðs vegar í heimshöfunum. Leiðangurinn hófst reyndar 29. ágúst þegar þau sigldu frá Amsterdam á seglskipinu MSC Antonella. Öll ferðin frá upphafi til enda á að vera sjálfbær.

Áherslan á sjálfbærni

Þau eru tvö á ferð og reiða sig algjörlega á rafmagnið frá sólarsellunum. Ekki bara til að drífa bílinn áfram heldur einnig til að elda mat, færa þeim ljós og rafmagn fyrir tölvur og síma. Þau eru reyndar ekki algjörlega ein því í humátt á eftir þeim er velbúinn bíll frá Artic Trucks. Hann er til taks ef eitthvað kemur fyrir. Hins vegar eru þau á allan hátt sjálfbær. Það er einmitt sjálfbærni sem þau leggja ofuráherslu á og markmiðið er að opna augu fólks fyrir endurvinnslu og sjálfbærni. 

Fjarlægur draumur að komast á pólinn

Guðmundur Guðjónsson, verkefnastjóri Suðurpólsverkefna hjá Artic Trucks, segir að í raun gangi vel. Hins vegar hefur hraðinn ekki verið sá sem áætlaður var í upphafi eða um 100 kílómetrar á dag. Leiðin að pólnum er 1260 kílómetrar. Ólíklegt sé að þau nái því að komast þangað. Nú er líklegast að þau aki 500 kílómetrar í átt að pólnum og svo til baka.


„Enda var það fjarlægur draumur. Kannski ætti miklu frekar að horfa á það að vera þessum bíl þar sem er verið að nota nýjustu tækni í sólarrafhlöðum og  að bíllinn er hannaður frá grunni úr endurunnu plasti.  Hver kílómetri sem þau fara er sigur við þessar erfiðu aðstæður. Það hefur í raun allt gengið upp varðandi bílinn,“ segir Guðmundur.

Veðrið hefur hins vegar verið slæmt sem er skýringin á því að ferðinni hefur miðað hægar en gert var ráð fyrir. Mikill lausasnjór og vindur hefur gert þeim erfitt fyrir. Hann segir að vistin í bílnum sé bærileg.

„En við heyrum á þeim að þegar þau hafa verið lengi í bílum verða þau þreytt. Bíllinn hristist mikið og það gengur mikið á. Það eru stórir skafskaflar sem þau verða að fara yfir og þá veltur bíllinn á allar hliðar,“ segir Guðmundur.

Hann segir  hins vegar að bíllinn standi sig vel.

„Þau útbjuggu bílinn þannig að þau þurfa ekki á neinni utanaðkomandi aðstoð að halda. Þau nota sólarorku til að hita matinn og til að halda bílnum heitum. Svo að sjálfsögðu til að hlaða inn á rafhlöðurnar og það hefur allt gengið upp.“