Aðeins fundust tæplega þrjátíu milljónir króna upp í fjörtíu og tveggja milljarða kröfur í Icarus Invest, eitt eignarhaldsfélaga Nóatúnsfjölskyldunnar, sem nú er gjaldþrota.
Lánardrottnar þurfa að sjá á bak 99,99 % krafna sinna í Icarus Invest, sem er eitt eignarhaldsfélaga Nóatúnsfjölskyldunnar og nú er gjaldþrota. Kröfurnar voru 42 milljarðar króna en aðeins fundust tæpar þrjátíu milljónir í búinu.
Eftir að börn Jóns Júlíussonar seldu Nóatún fyrir tíu árum var fjölskyldan umsvifamikil í viðskiptalífinu. Fyrirtæki þeirra hét lengst af Saxhóll, en hefur nú fengið hið vinalega nafn Heiðarsól. Það á síðan, samkvæmt hlutafélagaskrá, fimm fyrirtæki að fullu og hluti í öðrum fimm. Þar á meðal 7,5 % í Byr, þar sem einn úr systkinahópnum, Jón Þorsteinn Jónsson, var eitt sinn stjórnarformaður. Vegna Byrs-mála var hann fyrir nokkru úrskurðaður í farbann.
Nóatúnsfjölskyldan var lengi í samstarfi við þá Gunnar Þorláksson og Gylfa Ómar Héðinsson í Byggingafélagi Gunnars og Gylfa. Þeirra samstarfsvettvangur var aðallega félagið Saxbygg. Það félag stóð í fasteignaviðskiptum víða um lönd, til að mynda í Þýskalandi og Bretlandi í samvinnu við Byr, en átti auk þess helminginn í Smáralind á móti Glitni. Það tapaði hins vegar gríðarlegum fjárhæðum árið 2008 og erlendu eignirnar voru færðar undir félög í útlöndum. Saxbygg var svo tekið til gjaldþrotaskipta í fyrra. Skiptastjórinn saknaði hins vegar peninga vegna sölu erlendu eignanna og reyndar eignanna sjálfra, sem virðast hafa farið á flakk á milli félaga í útlöndum. Vandræði hans eru skiljanleg því félög í eigu þessa fólks skipta að minnsta kosti tugum og nafnabreytingar flækja málin. Skiptastjórinn höfðaði mál á hendur Nóatúnsfjölskyldunni og eigendum Byggingafélags Gunnars og Gylfa í byrjun febrúar.
Eitt fyrirtækja Nóatúnsfjölskyldunnar og þeirra Gunnars og Gylfa, hét Saxbygg Invest og hélt aðallega utan um eignarhluti í Glitni og Landsbankanum. Það fékk seinna nafnið Icarus Invest, en fataðist svo flugið og hefur verið úrskurðað gjaldþrota. Aðeins náðust tæplega þrjátíu milljónir í búið,-innan við 0,1%, af 42 milljarða kröfum. Skellur lánadrottna vegna hins Icarusar er því stór.