919 bjargað af Miðjarðarhafi

14.07.2017 - 04:13
epaselect epa06076452 Migrants ride a boat after they were rescued by Libyan coastguard in the Mediterranean off the Libyan coast, in Guarabouli, east Tripoli, Libya, 08 July 2017. According to local reports, Libyan coastguards with the help of fishermen
Flótta- og farandfólk í yfirfullri fleytu undan Líbíuströnd. Mynd úr safni.  Mynd: EPA
Sjóliðar á þýska birgðaskipinu Rhein björguðu í gær 919 flóttamönnum og farandfólki á sunnanverðu Miðjarðarhafi, þar sem skipið tekur þátt í björgunaraðgerðum á vegum Evrópusambandsins. Fólkið var á reki á mörgum og misjafnlega haffærum fleytum um 50 kílómetra frá Líbíuströndum. Sjö gúmmíbátar og tveir björgunarprammar voru notaðir við björgunaraðgerðirnar, sem stóðu fram á kvöld.

Að auki var fólk sem bjargað hafði verið um borð í skip tveggja frjálsra félagasamtaka flutt um borð í Rhein, sem síðan var stefnt til hafnar í bænum Corigliano Calabro í Kalabríu á Suðaustur-Ítalíu. Búist er við að skipið leggist þar að bryggju í dag, föstudag. Í frétt Der Spiegel af björguninni segir að þýskir sjóliðar hafi bjargað yfir 20.000 manns af Miðjarðarhafinu síðan í björgunaraðgerðin Sophia hófst þar í maí 2015. Yfir 85.000 manns hafa farið sjóleiðina frá Líbíu til Ítalíu það sem af er þessu ári. Hátt í 2.000 manns hafa drukknað á þessari sömu leið á sama tíma, svo vitað sé.