77% barna á flótta yfir Miðjarðarhaf misþyrmt

Mynd með færslu
 Mynd: Rauði krossinn
Ríflega þremur af hverjum fjórum börnum og ungmennum sem freista þess að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið er misþyrmt á leiðinni. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða fólksflutningastofnunin upplýsa þetta í skýrslu um málefni barna á flótta og vergangi, sem birtist í dag. Þar kemur fram að börn og unglingar frá Afríku sunnan Sahara væru enn líklegri en önnur til að sæta misþyrmingum á ferðum sínum, og það megi að líkindum rekja til kynþáttahaturs.

Í rannsókn sinni leitaði starfsfólk stofnananna til 22.000 flótta- og förufólks. Þar af voru 11.000 börn og ungmenni. „Blákaldur veruleikinn er sá, að það er viðtekin venja að misnota, selja, misþyrma og mismuna börnum á leið yfir Miðjarðarhafið,“ segir í yfirlýsingu Afshan Khans, framkvæmdastjóra Evrópudeildar Barnahjálparinnar.

Í skýrslunni kemur fram að 77 af hverjum 100 börnum sem reynt hafa að komast yfir Miðjarðarhafið til Evrópu hafi orðið fyrir ofbeldi, misnotkun og meðferð sem flokkast geti sem mansal á þessum ferðum sínum. Hlutfallið sé síðan enn hærra í hópi þeirra sem komi frá Afríkulöndum sunnan Sahara, og kynþáttahatur sé líklegasta skýringin á því. Verst og hættulegast er ástandið á flóttaleiðinni í gegnum Líbíu, þar sem lögleysa er algjör og vígasveitir og glæpagengi bítast um völdin.

Ennfremur segir að unga fólkið sé rukkað um á bilinu 800 - 4.000 evrur (100.000 - 500.000 krónur) fyrir flutninginn til Evrópu; fé, sem það eigi ekki til, og það sé því í stórskuld við smyglarana þegar og ef það kemst á áfangastað. Engin grið séu gefin við innheimtu þeirrar skuldar, sem setji hið unga förufólk í enn nýjar hættur.

Ekki er lengra en vika síðan Sameinuðu þjóðirnar sökuðu Evrópusambandið um að loka augunum fyrir grimmilegum aðstæðum förufólks á valdi smyglara í Líbíu og hvatti til skjótra og beinskeyttra aðgerða til að hjálpa því. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV