74% landsmanna ætla að kjósa gegn Icesave-lögunum samkvæmt nýrri könnun Gallup. 19% prósent ætla að greiða atkvæði með lögunum.

Það er tæplega hægt að segja að úrslitin þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn verði tvísýn. Samkvæmt könnunum sem Gallup hefur gert frá áramótum  hefur andstaða við lögin aukist stöðugt. Meirihluti, 53%, voru með lögunum í fyrstu könnuninni sem gert var í byrjun janúar. Þá voru rétt rúm 40% á móti lögunum.

Andstaðan hefur aukist jafnt og þétt. Í byrjun febrúar  voru tæplega 70 af hundraði á móti lögunum og fjórðungur ætlaði að styðja þau.  Í könnun Gallup sem birt var í dag og gerði í lok febrúar hefur stuðningurinn fallið úr 15% í 19% og 8% ætla að skila auðu. Andstaðan við lögin mælist nú 74%.

Forseti Íslands synjaði lögunum staðfestingar 5. janúar og  á laugardaginn ganga landsmenn til kosninga um þau.

Kynningarefni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave er tilbúið, og verður borið í hús á morgun.

Lagastofnun Háskóla Íslands, sem var falið að undirbúa kynningarefnið, hefur frestað því fram á síðustu stund að láta prenta og dreifa bæklingunum, til að spara peninga ef hætt yrði við atkvæðagreiðsluna. Breski hagfræðingurinn John Kay telur núna líklegt að af atkvæðagreiðslunni verði. Hann sagði fyrir viku í breska viðskiptablaðinu Financial Times, að bretar og Hollendingar reyndu að ná samningum við Íslendinga til að ekkert yrði af atkvæðagreiðslunni. Hún gæti reynst afdrifarík á alþjóðavettvangi.

Bæklingurinn um þjóðaratkvæðagreiðsluna kominn á vefsíðuna thjodaratkvaedi.is. Þar segir um afleiðingarnar að segi meirihlutinn já, þurfi að greiða af Icesave-samningunum í samræmi við skilmála þeirra. Segi meirihlutinn nei, verði uppgjör Icesave-reikninganna óútkljáð.