7 kílómetra göngu- og hjólastígur í Eyjafirði

04.09.2017 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Það var hátíðarbragur yfir fimmhundraðasta fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar á laugardaginn. Eitt mál var á dagskrá; göngu- og hjólastígur frá Akureyri að Hrafnagilshverfi. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og vegamálastjóri voru sérstakir gestir á fundinum.

Þessi hátíðarfundur sveitarstjórnar var haldinn undir berum himni. Þar var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum göngu- og hjólastíg sem lagður verður frá bæjarmörkum Akureyrar inn í Hrafnagilshverfi.

Nauðsynlegt er talið að ná hjólandi og gangandi umferð af þjóðveginum um Eyjafjörð. Það er mikil bílaumferð milli Akureyrar og Hrafnagilshverfis, en auk þess fara mjög margir þessa leið hjólandi og gangandi.

Stígurinn verður 7,2 kílómetra langur og er áætlaður kostnaður 160 milljónir króna. Fyrr í sumar var óskað tilboða í verkið, en áætluð verklok fyrsta áfanga eru 1. desember. Síðari áfangi verður boðinn út í vetur, en gert er ráð fyrir að stígurinn verði fullbúinn í sumarbyrjun 2018.

 

 

Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV