62 magakveisutilvik meðal skáta staðfest

11.08.2017 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd: Úlfljótsvatn
Þrjú af þeim 62 börnum sem veiktust af magakveisu í útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni í gærkvöld voru flutt á sjúkrahús þar sem þeim var gefin næring í æð. Þau voru svo flutt í fjöldahjálparstöð í Grunnskólanum í Hveragerði.

175 manns dvöldu í útilífsmiðstöðinni, að mestu leyti börn og ungmenni á aldrinum 10 til 25 ára. Þau eru erlendir gestir hér á landi. Að sögn Hermanns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Bandalags íslenskra skáta, hafa 62 tilvik um magakveisuna verið staðfest. Viðbragðsteymi Almannavarna fundar með sóttvarnalækni um stöðuna nú á eftir. „Við höfum verið í góðu samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Búið er að flytja alla sem voru í sumarbúðunum í fjöldahjálparstöð í Hveragerði. Þau sýktu fá rétta meðhöndlun. Hinir voru fluttir þangað í varúðarskyni,“ segir Hermann. Enginn skátanna er alvarlega veikur.

Fjöldahjálparstöðinni hefur verið skipt í tvö rými, annars vegar fyrir veika og hins vegar fyrir heilbrigða. Að sögn Hermanns er grunur um að fólkið hafi veikst af nóróveirusýkingu. „Við hittum heilbrigðiseftirlit á eftir. Það verður kannað hvort þetta sé matareitrum. Við útilokum ekki neitt,“ segir Hermann.

Sjúkraflutningarnir í gærkvöld og nótt voru mjög umfangsmiklir. Fyrst komu tvær litlar rútur og fluttu veika í fjöldahjálparstöðina. Seinna um nóttina kom svo strætó frá Reykjavík til að flytja fólk frá Úlfljótsvatni í fjöldahjálparstöðina.

Svæðið á Úlfljótsvatni hefur ekki við innsiglað af heilbrigðisyfirvöldum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bandalagi íslenskra skáta. Tjaldsvæði eru opin. „Skátarnir hafa hins vegar tekið þá ákvörðun að nýta ekki ákveðinn húsakost sem er í mestri notkun fyrr en búið er að hafa samráð við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það gerist í dag,“ segir í tilkynningunni.

Um 30 sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins í Árnessýlu og Hveragerði hafa verið að störfum í fjöldahjálparmiðstöðinni í Hveragerði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Dagný Hulda Erlendsdóttir

Tengdar fréttir