Sextíu ár eru síðan síðutogarinn Júlí frá Hafnarfirði fórst með 30 manna áhöfn í miklu ísingarveðri á Nýfundnalandsmiðum. Aðrir íslenskir togarar voru hætt komnir á sömu miðum. Sorgartónlist var leikin í útvarpinu þann 17. febrúar 1959 þegar ljóst var að áhöfnin var öll.

Í spilaranum hér að ofan má hlusta á Jón Múla Árnason útvarpsþul lesa nöfn skipverjanna 30 sem fórust. Í Morgunblaðinu kom fram að 39 börn hafi verið föðurlaus eftir slysið. Þetta var þá eitt mannskæðasta sjóslys sem hafði orðið á öldinni. Aðeins í Þormóðsslysinu og í Halaveðrinu létust fleiri.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir á vefsíðu sinni fyrir tíu árum frá slysinu og segir heimskautaloftmassi hafi ætt yfir á þessum slóðum í djúpri lægð og að ísing hafi hlaðist hratt á skipin í frostköldum sjónum. Hann vísar í frásagnir af togaranum Þorkeli Mána á sömu slóðum og Júlí var og að Þorkell Máni hafi yfirísast mjög fljótt, áhöfnin hafi hamast við að berja klaka af skipinu og að skipið hafi næstum farið á hliðina.