Alþýðusambandið telur nauðsynlegt að óhagnaðardrifin húsnæðisfélög byggi 6000 íbúðir á næstu tíu árum sem kosti 60 til 70 milljarða króna. Jafnframt verði reistar 1800 leiguíbúðir í almenna húsnæðiskerfinu á næstu 3 árum.

1800 íbúðir

Það ríkir almenn ánægja með tillögur í húsnæðismálum sem kynntar voru í vikunni. Ljóst er að þær eiga eftir að skipta máli í lausn yfirstandandi kjaradeilna. Samkvæmt þeim á að efla almenna húsnæðiskerfið þar sem miðað er við ákveðnar tekjur, komið verði á fót óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum þar sem ekki er sett þak á tekjur og loks á að efla leigumarkaðinn. Það á þó eftir að semja og setja tölur á blað um hve miklu verði varið í að byggja  íbúðir á næstu árum. Frá 2020 til 23 er stefnt að því að byggja 300 íbúðir á ári eða alls 900. ASÍ vill að byggðar verði tvöfalt fleiri, 1800 í búðir eða 600 á ári. Fjárveitingar verði auknar sem því nemur vegna stofnframlaga sveitarfélaga og ríkisins í almenna húsnæðiskerfið. Og það á líka hækka tekjuviðmiðið um einn tekjufimmtung í almenna kerfinu. 

6 þúsund íbúðir

En athyglin beinist líka að óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum þar sem ekkert tekjumark er sett og þekkjast ekki hér en eru og hafa verið um langan tíma  algeng annars staðar á Norðurlöndunum. Alþýðusambandið telur að reisa verði 600 íbúðir í þessu kerfi árlega næstu 10 ár sem þýðir 6000 íbúðir. Til þess þurfi 6 til 7 milljarða á ári eða alls 60 til 70 milljarða króna. Um 10 þúsund íbúðir eru í pípunum á næstu þremur árum en ekki víst að þær svari þörf þeirra tekjulægstu. Minni íbúðir eru í byggingu á dýrum svæðunum og þær stóru frekar á lægri verðsvæðum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sem sat í átakshópunum um húsnæðismál, segir að vandinn sé margþættur. Nauðsynlegt sé að lækka fjármagnskostnað og auka aðgang þeirra tekjulægstu að almenna húsnæðiskerfinu og koma á fót óhagnaðardrifnum húsnæðisfélögum. ASÍ og BSRB hafa þegar stofnað félagið Blæ í því augnamiði.

„Ef okkur á að takast að leysa húsnæðisvandann, ekki bara bráðavandann heldur til framtíðar þá þurfa magntölurnar á bak við þessar hugmyndir að vera með þeim hætti að við náum að leysa eða koma með raunverulega lausn á vandanum, bæði í bráð og til framtíðar,“ segir Ragnar Þór

Hægt að byrja strax að loknum samningum

Ragnar Þór segir nauðsynlegt að hlutirnir gerist hratt. Ef samið verði um húsnæðismálin í tengslum við kjarasamninga sé hægt að byrja strax að þeim loknum. Fyrsti íbúðir á vegum húsnæðisfélagsins Bjargs í eigu ASÍ og BSRB verða afhentar í júlí. Í tillögum er gert ráð fyrir að í báðum kerfum verði hagstæð lán í boði. Ragnar bendir á að með því að koma vöxtum niður í 2,6 eða 2,8% sé hægt að lækka leigu um 20 þúsund á mánuði fyrir 90 fermetra íbúð, úr 173 þúsund á mánuði í 155 þúsund. Hann bendir á að til séu yfir 200 milljarðar í Íbúðalánasjóði.

„Það myndi gjörbreyta stöðu okkar í þeirri viðleitni að ná niður bæði húsnæðiskostnaði og húsaleigu,“ segir Ragnar Þór.

Nánar er rætt við Ragnar Þór í Speglinum.