Skráningar í grunn landlæknis um líffæragjöf tóku nokkurn kipp eftir að embættið hóf að kynna lagabreytingar um að allir teljist gjafar, nema annað sé tekið fram. Langflestir samþykkka, en undir árslok  fjölgaði í hópi þeirra sem heimila ekki líffæragjöf.

Frá og með nýliðnum áramótum teljast allir Íslendingar 18 ára og eldri líffæragjafar eftir andlát, nema annað hafi verið skráð sérstaklega. Líffærin eru þá send á Sahlgrenska sjúkrahúsið í Gautaborg í sameiginlegan líffærabanka.

Frá því að rafræn skráning hófst í grunn hjá embætti landlæknis í októberlok 2014, um afstöðu til líffæragjafar hafa nærri 44 þúsund manns skráð sig. Á þessum tíma þurfti að skrá sig sérstaklega sem líffæragjafa. Af þessum 44 þúsund voru nærri 41 þúsund reiðubúnir að gefa líffæri sín við andlát. Tæplega átján hundruð vildu gefa sum líffæri, en undanskilja önnur og 1.337 heimiluðu ekki líffæragjöf.

Í nóvember hóf embætti landlæknis að kynna ný lög um að allir teldust líffæragjafar nema annað væri tekið fram. Skráning inn í grunninn tók nokkurn kipp í framhaldinu. Í nóvember tóku 1.148 afstöðu og í desember hafði þeim fjölgað í tæplega fjórtán hundruð. Af þeim sögðust í nóvember 1.046 vilja gefa líffæri, en í desember voru þeir 824. 47 einstaklingar vildu í nóvember gefa sum líffæri og tíu fleiri skráðu slíkt í desember. Í nóvember lýstu 55 því yfir að þeir vildu ekki gefa líffæri að sér látnum, en í síðasta mánuði lýstu 512 slíku yfir. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er þó ekki tímabært að mæla áhrif lagabreytinganna enn þá. Enn sem komið er hafa rúmlega 16% fólks yfir 18 ára aldri tekið afstöðu.

Líffæragjöfin snýst aðeins um tiltekin líffæri. Þau eru hjarta, lungu, nýru, lifur, bris og hornhimna, en það er hornhimnan sem einna oftast er undanskilin hjá þeim sem vilja að öðru leyti gefa líffæri. Hornhimnan er gegnsær trefjahjúpur og er hún einungis fjarlægð, ekki augað.