Fjörutíu og þriggja gráðu heitt vatn flæddi út úr stafni Vaðalheiðarganga í gær þegar starfsmenn voru að bora fyrir sprengiefni. Þetta er mun heitara vatn en venjulega og gerir starfsmönnum erfitt um vik að sinna vinnu sinni.

Heitt vatnið streymir fram í sjó og hefur gufa sést stíga upp af því í flæðarmálinu. Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf., segir að þetta tefji fyrir vinnu við göngin næstu daga. Síðustu vikur hafi vatnið í göngunum verið um 28° að meðaltali.  
„Það er óþægilegt að vinna í þessu, mikil gufa og hiti sem kemur út.“ 
Boraðar verða fleiri holur til að hleypa vatninu út. „Núna þurfum við að fylgjast betur með vatnshitanum og bíða eftir að vatnið minnki,“ segir Valgeir.

Vaðlaheiðargöng eru veggöng sem verið er að gera undir Vaðlaheiði við Eyjafjörð. Göngin eru um 7,17 km í bergi milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals og heildarlengd vegskála er 320m, samtals 7,5 km. Með göngunum styttist vegalengd milli Akureyrar og Húsavíkur um 16 km.

Valgeir segir vinnu við göngin að öðru leyti hafa gengið vel. „Við höfum verið að fara allt upp í 96 metra á viku og erum komnir mun lengra við gerðum áætlanir um.“