40 ár eru síðan liðsmenn bandarísks sértrúarsafnaðar, Peoples Temple, létu lífið í nýlendu safnaðarins Jonestown í Gvæjana. Yfirleitt er talað um atburðinn sem fjöldasjálfsmorð þar eð flestir þeirra sem létust drukku sjálfviljugir eitraðan djús, en þeir höfðu þá um árabil verið undir hæl leiðtoga safnaðarins, Jim Jones.
Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallaði um sögu Peoples Temple og atburðina í Jonestown í tveimur þáttum. Hlustið á fyrri þáttinn í spilaranum hér að ofan, og þann seinni er að finna hér að neðan.
Jim Jones fæddist 1931 í fátækum bæ í Indiana og byrjaði að predika ungur. Hann var þá innblásinn af kröftugum meþódista-predikurum og trúarlækningamönnum, en óvíst er hvort hann sjálfur var nokkurntímann trúaður á fullorðinsaldri.
Hann var að einnig sannfærður sósíalisti og virðist hafa litið á kristna trú sem leið til að telja fólk á band sósíalismans.
Í kirkju sinni Peoples Temple, sem hann stofnaði 1955, lagði hann áherslu á félagslegt réttlæti og að berjast gegn aðskilnaði kynþátta í Bandaríkjunum, enda voru fylgjendur hans í meirihluta þeldökkir.
Kirkjan flutti á sjöunda áratugnum til Kaliforníu og kom sér loks fyrir í San Francisco, þar sem fylgjendur voru nokkur þúsund talsins og Jones varð nokkuð fyrirferðarmikill í borgarpólitíkinni.
En meðfram því að Jones varð áhrifameiri vakti söfnuður hans meiri athygli utanaðkomandi. Ekki alltaf jákvæða. Pískrað var um að í söfnuðinum væru stundaðar harkalegar líkamlegar refsingar, söfnuðirinn rændi fátækt fólk fáum eigum sínum — og Jones væri óútreiknanlegur einræðisherra.
Eftir sérlega neikvæða blaðaumfjöllun 1977 gaf Jones skipun um að safnaðarmenn skyldu fylgja honum til nýlendu sem söfnuðurinn hafði verið að byggja upp undanfarin ár langt inni í frumskógi Gvæjana í Suður-Ameríku: Jonestown.
Um þúsund fylgjendur fóru með Jones inn í skóginn og hófust handa við að skapa nýtt samfélag í Jonestown. En efasemdir utanaðkomandi um söfnuðinn lifðu áfram.
Þegar bandarískur þingmaður kom í heimsókn í Jonestown í nóvember 1978 til að kanna aðbúnað þar var voðinn vís.
Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi.