Guðjón Skarphéðinsson, einn sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmáli, segist lengi hafa verið gramur yfir því að vera sakfelldur fyrir að ráða Geirfinni bana. En það verði að virða það við Hæstarétt að hafa tekið málið upp að nýju þrátt fyrir að margir hafi barist gegn því.

Guðjón Skarphéðinsson var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að hafa banað Geirfinni Einarssyni. Hann sat í fangelsi í fjögur og hálft ár. Hann var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í Hæstarétti í dag þegar hann var sýknaður. 

„Þessi dómsorð sem komu klukkan tvö, ég fagna þeim. Ég álít að þau hefðu átt að koma löngu löngu fyrr, 1980. Það sem var dæmt eftir 1980 gat í rauninni alls ekki haldið og staðið til lengri tíma. Það var eiginlega alveg útilokað,“ segir Guðjón. 

Myndirðu segja að þú berir kala til einhvers, sért gramur eða ósáttur?

„Ég var það á sínum tíma. Ekki síst af því að ég dró aldrei mína játningu til baka. Af því að ég áleit allan tíma að þetta væri engin játning, það gætu allir séð sem væru læsir, hún hefði engan upphaft né endi. Á sínum tíma var ég gramur yfir því hvernig fór. Það ber að meta það við Hæstarétt að hann skuli hafa dæmt eins og hann dæmdi í dag. Hitt er svo annað mál að þetta er búið að taka ansi langan tíma. Þrjátíu og átta ár er ansi langur tími af mannsævi. Það er meðal annars vegna þess að Hæstiréttur og löggjafarvaldið eða lögfræðingarnir hafa spyrnt á móti þeirri niðurstöðu sem kom í dag. Þeir hafa ekki viljað fá þessa niðurstöðu. Þeir gátu ekki hugsað sér það margir hverjir og lögðust gegn því með ýmsum ráðum og brugðu fæti fyrir,“ segir Guðjón.

Myndirðu segja að þú sért sáttur við þessi málalok?

„Já, miðað við sem hefur gerst í mínu lífi síðan 1980 og 1981 þegar ég fór frá Íslandi. Og allt sem hefur gerst í mínu lífi síðan, þá segi ég já,“ segir Guðjón.