Ef skoðanakannanir ganga eftir gæti svo farið að yfir 30 nýir þingmenn setjist á Alþingi eftir þingkosningarnar í haust. 18 þingmenn sækjast ekki eftir endurkjöri og líklegt er að nýir þingmenn Pírata muni setja svip sinn á þingstörfin.
Það blasir við að talsverð endurnýjun verður í þingliðinu í kosningunum sem verða væntanlega í lok október, eftir tvo og hálfan mánuð. Hún verður óhjákvæmilega einfaldlega vegna þess að 18 þingmenn hafa þegar lýst því yfir að þeir ætli að hætta á þingi. Eftir því sem næst verður komist hafa ekki áður svo margir verið staðráðnir í því að hætta. Fyrir síðustu kosningar ákváðu 13 að hætta, 10 2009 og 6 2007.
7 hætta í Framsóknarflokki
Nú hafa hins vegar 18 ákveðið að hætta eða rúmlega 28 prósent þeirra 63 þingmanna sem sitja á þingi. 7 í Framsóknarflokki, 5 í Sjálfstæðisflokki, 1 í Vinstri grænum, 3 í Bjartri framtíð eða helmingur þingflokksins. 2 í Samfylkingunni og loks einn Pírati. Meðalaldur þessara þingmanna er um 50 ár en meðalaldurinn á þingi eftir síðustu kosningar var 48,1 ár. En það segir litla sögu um samsetningu hópsins sem er að hætta. Átta þeirra hafa aðeins setið á þingi í eitt kjörtímabil, 4 frá 2009 og 2 frá 2003. Lengstu þingreynsluna hafa þeir Einar K. Guðfinnsson, Ögmundur Jónasson og Kristján L. Möller. Meðalseta þeirra er 21 ár. Þá hafa Katrín Júlíusdóttir og Ragnheiður Ríkarðsdóttir setið á þingi frá 2003. Ástæðurnar fyrir því að þingmenn hætta er að sjálfsögðu margvíslegar.
Ástæðan hjá mér er sú að mér hefur boðist að taka þátt í bústörfum með foreldrum mínum. Það hefur alltaf verið draumur hjá mér. Hélt reyndar að það væri lengri í þetta. Foreldrar mínir eru tiltölulega ungir miðað við bændur sem eru tilbúnir að hætta. Þetta er meginástæðan fyrir því að ég mun hverfa af þessum vetvangi yfir á annan.
Haraldur Einarsson Framsóknarflokki. Hættir eftir eitt kjörtímabil.
Það er nú kannski fyrst og fremst til þess að vera meira heima hjá mér. Þetta er búin að vera mikil viðvera í Reykjavík. Ég bý á Akureyri og ef Alþingi væri staðsett þar þá væri ég kannski tilbúin að bjóða mig fram aftur.
Brynhildur Pétursdóttir, Bjartri framtíð. Hættir eftir eitt kjörtímabil.
Hræringar á fylgi flokkaanna
En þó að margir ætli ekki að gefa kost á sér til endurkjörs eru það niðurstöður kosninganna sem ráða því hverjir hinir 63 verða sem munu verma þingsætin næsta kjörtímabil. Úrslitin ráðast ekki fyrr en á kjördag. Hins vegar benda skoðanakannanir til þess að fram undan séu talsverðar breytingar í þingliðinu. Stjórnarflokkarnir síðasta kjörtímabil, Samfylking og Vinstri grænir kolféllu í síðustu kosningum. Fjöldi þingmanna hrapaði úr 34 samtals 16. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur fengu 19 þingmenn hvor. En nú sýna kannanir nokkuð aðra mynd af væntanlegu fylgi flokkanna. Samkvæmt síðustu könnun Gallup fengi Sjálfstæðisflokkur tæplega 27 prósent og héldi nokkurn veginn velli frá því í síðustu kosningum. Samkvæmt útreikningum Gallups fengi flokkurinn 18 þingmenn. Framsóknarflokkurinn fengi um 10 prósenta fylgi og aðeins 6 þingmenn. Myndi samkvæmt þessu tapa 13 þingsætum. Samfylkingin hefur verið á hraðri niðurleið í könnunum. Fengi 8 prósent og 5 þingmenn. Tapar nærri helmingi þingmanna eða 4 þingmönnum. Vinstri grænir eru hins vegar á uppleið. Fengju tæplega 17 prósenta fylgi og 11 þingmenn, bættu við sig 4 þingsætum. Það blæs hins vegar ekki byrlega fyrir Bjartri framtíð. Samkvæmt Gallup könnunni kæmist flokkurinn ekki á þing með rétt rúm 4 prósent. Er með 6 þingmenn. Fylgi Pírata hefur mælst upp í rjáfur en í Gallup könnunni var fylgi þeirra rúm 25 prósent. Þetta fylgi gæfi þeim 17 þingsæti. Nýr flokkur, Viðreisn, mælist með 9 prósenta fylgi sem gæfi 6 þingmenn. Gallup spáir því að helmingur þeirra verðu jöfnunarsæti. Þau eru alls 9 og erfitt er að spá því hvaða flokkar hreppa þau.
Yfir 30 nýir á þing?
Ef að þetta yrði niðurstaða kosninganna, sem er alls ekki víst því að ýmislegt getur gerst fram að kosningum, þá myndu 24 nýir þingmenn setjast á þing. Að auki þyrfti að fylla pláss þeirra sem eru að hætta og eru öruggir á þing samkvæmt könnun Gallups, Einar K. Guðfinnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ögmundur Jónasson og Ásmundur Einar Daðason. Þetta þýðir að von gæti verið á 30 nýjum þingmönnum. Að auki geta nýir frambjóðendur skotið upp kollinum í prófkjörum og vali á lista þannig að svo gæti farið að yfir 30 nýir þingmenn setjist á þing að loknum kosningum eða um helmingur þingheims.
Það er ekki óvenjulegt að nokkur fjöldi nýrra þingmanna setjist á þing. kosningum frá 1971 til 2003 var fjöldi þeirra að meðaltali um 19 eða um 30 prósent. 2007 voru þeir 24 og 27 í alþingiskosningunum 2009 og sömuleiðis 2013. Það stefnir að endurnýjunin á þingi verði enn meiri nú.
Píratar gætu sett svip sinn á þingstörfin
Eva Heiða Önnudóttir nýdoktor í stjórnmálafræði við HÍ segir að þessi mikla endurnýjun geti vissulega sett svip sinn á þingstörfin næsta kjörtímabil ekki síst vegna þess að ef fer sem horfir gæti um helmingur nýrra þingmanna verið þingmenn Pírata. Þeir séu frábrugðnir að því leyti að þeir hafi ekki þann bakgrunn sem aðrir nýir þingmenn hafi t.d. úr ungliðahreyfingum hefðbundnu flokkanna.
„Þannig að við gætum mögulega verið að fá mjög stóran hóp þingmanna sem hagar sér ekkert endilega í samræmi við það sem hefur verið áður. Fólk kom inn og þekkti leikreglurnar. Svona stór þingmannahópur Pírata gæti sett leikreglurnar í uppnám. Það þarf ekki endilega að vera neikvætt. Getur vel verið að það verði bara uppstokkun á þinginu,“ segir Eva Heiða.
Hún segir að vissulega geti farið svo að Píratar aðlagi sig fullkomlega að leikreglum Alþingis. En hvað veldur því að svo margir segjast vilja kjósa Pírata sem sumir segja að boði ekki heilsteypta stefnu? Hún segir ekki sanngjarnt að segja að þeir hafi ekki ákveðna stefnu. Þeir séu vissulega ekki með eins mótaða stefnuskrá og hinir hefðbundnu flokkar.
„Þeir standa hins vegar fyrir ákveðin grunngildi og þeir leggja áherslu á lýðræðisumbætur, umbætur á valdakerfinu. Hvort sem að fólk er sammála þeim eða ekki þá hefur þeim tekist að skapa sér sérstöðu þar. Það er meðal annars í krafti þess að þeir eru í stjórnarandstöðu,“ segir Eva Heiða.
Hún segir að þegar bakgrunnur þeirra sem kusu Pírata í síðustu kosningum var skoðaður kom í ljós að það voru kjósendur sem voru óánægðir og höfðu misst trúnna á hinu pólitíska kerfi. Ef fer sem horfir er ekki ólíklegt að Píratar standi frammi fyrir því að setjast í ríkisstjórn. Spurningin er hvort þeir geti starfað í ríkisstjórn.
„Ef maður horfir á sambærilega flokka í öðrum löndum. Píratar eru að mörgu leyti líkir Podemos flokknum á Spáni og Syriza flokknum í Grikklandi jafnvel þó að þessari flokkar séu meira til vinstri. Þeir hafa verið í ríkisstjórn og þeim hefur gengið ágætlega að stjórna,“ segir Eva Heiða.