25 ár eru um þessar mundir liðin frá gerð Þjóðarsáttarinnar svokölluðu, en þá sameinuðust vinnuveitendur, verkalýðsfélög og stjórnvöld um að ná tökum á verðbólgu og tryggja efnahagslegan stöðugleika.
Þegar þarna var komið sögu hafði verðbólgan mælst tvöfalt og allt að þrefalt meiri en hún hefur verið nú síðustu ár. Þjóðarsáttin byggði á gagnkvæmu trausti og voru kjarasamningar í kjölfarið gerði til langs tíma, eða allt upp í fjögur ár.
Langborð þurfti þann 2. febrúar árið 1990 þegar þjóðarsáttarsamningarnir var undirritaðir, svo margir voru þar til að skrifa undir fyrir hönd sinna skjólstæðinga. Þarna voru Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ, Haukur Halldórsson, formaður stéttarsambands bænda, Einar Oddur Kristjánsson, formaður Vinnuveitendasambands Íslands, Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, Ögmundur Jónasson, formaður BSRB og fleiri.
„Markmiðið sem við setjum okkur sameiginlega eru skynsamleg og okkur afskaplega mikilvæg. Og það sem meira er við ætlum í sameiningu að standa við þau,“ sagði Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands. „Meginárangurinn verður að komast niður á það að lifa hér við verðbólgu sem er svipuð því sem gerist í nágrannalöndunum. Að verðlagið hætti að hækka dag frá degi, gengið að falla frá mánuði til mánaðar, vextirnir upp og ofan og þannig að það verði hægt að skipuleggja og vinna markvisst í uppbyggingu í atvinnurekstrinum.“
„Við erum að taka áhættu með því að gera samninga af því tagi sem við gerum. En það er kannski líka til nokkuð mikils að vinna ef okkur tekst að ná þeim árangri að það stórlækki verðbólga, jafnframt því sem kaupmátturinn er traustur, þá er árangurinn mikils virði. Og við höfum undirritað það með þessum samningi að við ætlum okkar að vinna að því að sú lína sem er lögð með þessum samningi sé sú lína sem ráði. Að okkar félög fylgi hennar og aðrir geri það líka,“ sagði Ásmundur Stefánsson, forseti ASÍ, eftir undirritun samninganna.
„Við afstýrum lífskjarahruni sem blasir við í dag,“svaraði Guðmundur J. Guðmundsson, formaður Dagsbrúnar, aðspurður um ávinninginn af samningunum. „Ef einhver hópur fer að vaða upp í hækkunum fyrir ofan almennt verkafólk, þá er þetta búið. Menn þurfa að átta sig á því að það verður að byggjast á gagnkvæmu jafnræði á milli hópa. Það þýðir ekki að keyra áfram einhverjir sérhópar upp yfir aðra. Þá er þetta hrunið og það hrynur yfir þá hina sömu.“
Kjarasamningar lausir
Þjóðarsáttin hefur borist í tal nú þegar fjöldi kjarasamninga verða lausir í vetur. Tæplega 80 kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum renna út í lok febrúar en alls renna tæplega 160 samningar út á þessu ári.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði í fréttum í janúar að búið væri að leggja umræðuna um efnahagsmál í landinu til hliðar með kjarasamningum lækna. Láglaunafólk geti ekki samþykkt þjóðarsátt um að halda launum þeirra lágum.
Í nýlegri könnun meðal félagsmanna VR sem greint var frá í fréttum í lok janúar kemur fram að félagsmenn bera minna traust til atvinnurekenda og stjórnvalda en áður og innan við helmingur þeirra, eða 46% sagðist styðja hugmyndina um þjóðarsátt aðila vinnumarkaðarins þar sem áhersla yrði lögð á lækkun verðlags í stað launahækkana. Árið 2010 voru tveir þriðju hlynntir slíkri hugmynd og 63% árið 2013.
Þá hefur formaður Starfsgreinasambandsins sagt að ekki gangi að fólk gangi sér til húðar og nái samt ekki endum saman á dagvinnukaupi. Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands vill að lægstu laun hækki um 40 prósent innan þriggja ára. Farið er fram á að lægstu laun hækki úr 214 þúsund í 300 þúsund.