„Það sem kom á óvart er hversu gífurlega mörg mál þetta eru,“ segir Steinunn Kristjánsdóttir, prófessor í fornleifafræði hjá Háskóla Íslands og Þjóðminjasafninu en hún rannsakar nú aftökur hér á landi. Um 240 manns voru teknir af lífi hér á landi á um 200 ára tímabili, frá lokum 16. aldar, fyrir hin ýmsu siðferðisbrot.

Konum var drekkt fyrir dulsmál og fyrir að drepa kornung börn sín, skyldmenni sem eignuðust börn saman voru hálshöggvin og þá var fólk hálshöggvið fyrir morð, hengt fyrir þjófnað og brennt fyrir galdra.

Aftökur og líkamlegar refsingar

„Þegar fólk var tekið af lífi, þá missti það réttinn til greftrunar í kirkjugarði og það var yfirleitt bara dysjað á aftökustað eða lagt í gjótu ef það var þannig landslag – eins og ég held að hafi verið gert á Þingvöllum. Þeir sem voru hengdir voru látnir hanga þar til líkin duttu niður. Þeir sem voru hálshöggnir; þá var hausinn settur á stöng niður,“ segir Steinunn. Hún segir að þetta hafi líklega haft mikil áhrif á samfélagið enda mjög sýnilegt og átt að vera öðrum til varnaðar. Þá eru ótaldar allar líkamlegu refsingarnar; hendur voru hoggnar af, eyru skorin af, útlimir brotnir og fólk sett í gapastokk.

Lægstu stéttirnar beittar órétti

Það var metoo-hreyfingin sem hrinti Steinunni af stað, enda hafði Steinunn tekið eftir því að oft voru fátækar vinnukonur, sem höfðu lítinn eða enga rétt í samfélaginu, líflátnar. Konur sem voru beittar órétti, látnar sinna öllum störfum á heimilinu, þar með talið að halda rúmi húsbóndans heitu, og teknar af lífi fyrir að fela og drepa börn sem komu undir. 

Heimilislausir stærsti hópurinn

„Það sem kom kannski mest á óvart er að stærsti flokkurinn, þegar kemur að aftökum á þessu tímabili, eru heimilislausir, flokkaðir sem þjófar,“ segir Steinunn. Þá segir hún líta út fyrir að það hafi verið ákveðin hreinsun í gangi í samfélaginu en flestar hengingar voru í kringum árið 1700 sem er um það leyti sem að verið var að skrá fyrsta manntalið á Íslandi. Það eigi eftir að skoða hvort fólkið sem var tekið af lífi á þessum tíma sé hluti af manntalinu eða hvort það hafi verið hreinsað út.

Rætt var við Steinunni í Sögum af landi og má hlýða á viðtalið við hana í spilaranum hér að ofan.