21.500 Porsche Cayenne innkallaðir

29.07.2017 - 05:27
epa06114120 A Porsche Cayenne SUV on display in Dresden Porsche center, Germany, 28 July 2017. German Transport Minister Alexcander Dobrindt on 27 July said a forbidden system to shut off cleaning of diesel exhaust emissions has been found to have been
 Mynd: EPA
Þýsku Porsche-verksmiðjurnar hafa innkallað 21.500 Cayenne-jeppa með þriggja lítra dísilvél. Ætlunin er að uppfæra hugbúnað bílanna, eftir að upp komst að í honum leynist ólöglegt forrit, sem nýtist til að falsa niðurstöður útblástursprófana. Innköllunin, sem nær til allrar Evrópu, er gerð að kröfu þýska samgönguráðherrans, sem jafnframt lagði bann við nýskráningu bíla af þessari tegund þar til svindlbúnaðurinn hefur verið fjarlægður.

 Í borðtölvu Cayenne-jeppanna leynist hugbúnaður sem skynjar, þegar verið er að prófa útblástur bílsins. Hugbúnaðurinn bregst við með því að setja bílvélina í ákveðinn sparakstursham, sem hann er aldrei í þegar honum er ekið við venjulegar aðstæður.

Samkvæmt frétt þýska tímaritsins Der Spiegel upplýstu Porsche-verksmiðjurnar þýsku Samgöngustofuna um hugbúnaðinn að fyrra bragði. Áður en það gerðist hafði Spiegel þó fjallað um einmitt þennan hugbúnað, sem blaðamenn höfðu fengið veður af. Hann gætir þess að vélin vinni þannig, að útblásturinn sé alltaf innan lögbundinna marka - en einungis svo lengi sem bíllinn er á skoðunarstandinum. Um leið og tölvan skynjar minnstu brekku eða beygju skiptir hún hins vegar yfir í götuham og allar reglur um útblástur fara út í veður og vind. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV