Eina leið Íslendinga til að stemma stigu við ebólufaraldrinum er að berjast við hann í Afríku. Þetta segir Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir. Ríkisstjórnin ver allt að sextán sinnum hærri fjárhæð til varnarsamstarfsins í NATÓ heldur en til baráttunnar gegn ebólu.
Nærri 4.500 manns hafa látist úr ebólu í Vestur-Afríku, og spítulum á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti er lýst sem víti á jörð. Embættismenn Sameinuðu þjóðanna sögðu í dag dag að þjóðir heims hefðu brugðist of seint og illa við faraldrinum, sem hefði því náð forskoti í kapphlaupinu.
Verður ekki að faraldri hér
„Áhyggjur okkar hér á vesturlöndum hafa núna fyrst og fremst snúið að okkur sjálfum,“ segir Sigurður. Aðspurður hvort sjúkdómurinn berist hingað svarar Sigurður játandi. „Hann berst með flugfarþegum, mögulega hjálparstarfsmönnum, eins og reyndin hefur sýnt, en hann mun hinsvegar aldrei breiðast út og verða að faraldri. Til þess eru okkar innviðir og heilbrigðisþjónusta bara allt of góð. Leiðin til þess að stemma stigu við faraldri ebólu er að ráðast á hann þar sem hann er, í Vestur Afríku. Og þar getum við, meðal annars Íslendingar, lagt miklu meira fram en við höfum gert.“
Starfsmenn líberíska Rauða krossins búa sig undir að flytja sjúkling á sjúkrahús. Mynd: EPA.
23 milljónir úr ríkissjóði
Í fjárlagafrumvarpinu 2015 er lagt til að framlög til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar verði rúmar 11 milljónir. Við þær bætast 12 milljónir sem utanríkisráðherra ákvað á dögunum að veita til Sameinuðu þjóðanna til að berjast gegn Ebólu - samtals rúmlega 23 milljónir króna.
Til samanburðar má nefna að framlög Íslands til NATO eru áætluð rúmar 272 milljónir á næsta ári. Við þær bætist aukafjárveiting sem forsætisráðherra tilkynnti um í síðasta mánuði, og sagði að gæti farið yfir hundrað milljónir króna. Framlag Íslands til NATO gæti því numið 370 milljónum á næsta ári, sem eru sextánföld framlög til alþjóðaheilbrigðismála og baráttunnar gegn ebólu.
„Ég held að meginþunginn í íslenskri utanríkisstefnu núna ætti að vera þróunarsamvinna,“ segir Sigurður. „Þar getum við lagt mest af mörkum sem ríkt land, og þar mun okkar pund vega þyngst. Mun, mun meira held ég heldur en í hernaðarsamstarfi, með virðingu fyrir því, og í samstarfi við vel stæðar alþjóðastofnanir.“
Ræða samnorrænt átak
Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hyggjast samstarfsráðherrar Norðurlandanna ræða ebólufaraldurinn á fundi sínum eftir tvær vikur.
Ranghermt var í fyrri útgáfu fréttarinnar að utanríkisráðherra hygðist ræða möguleika á samnorrænu átaki gegn ebólu á fundi þróunarmálaráðherra Norðurlandanna á næstunni.