Ríkislögreglustjóri hefur keypt 150 hríðskotabyssur sem verður dreift til lögregluembættanna. Þeim verður í sjálfs vald sett hvort byssunar verða geymdar á lögreglustöðvunum eða komið fyrir í lögreglubílum í þar til gerðum hirslum. Þetta kemur fram í Speglinum í kvöld.
Arnar Páll Hauksson skrifar
DV segir frá því að nú fari fram mesta breyting á vopnabúnaði lögreglunnar frá því að sérsveit ríkislögreglustjóra var stofnuð 1982. Allir lögreglubílar verði búnir MP5 hríðskotabyssum og Glock 17 hálfsjálfvirkum skammbyssum.
Embætti ríkislögreglustjóra hafi þess vegna fest kaup á 200 MP5 hríðskotabyssum. Jón Bjarmarz yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir að þetta sé ekki allskostar rétt. Það sé ekki rétt að verið sé að setja skotvopn í alla lögreglubíla og það sé ekki heldur rétt að fjárveiting á þessu ári sem ætluð var til búnaðar- og þjáfunareflingu lögreglu hafi verið notuð til að kaupa byssur.
450 byssur
Þó að íslenska lögreglan gangi ekki um girt vopnum er það ekki svo að hún hafi ekki aðgang að vopnum. Í skýrslu innarríkisráðuneytisins í tíð Ögmundar Jónassonar kemur fram að lögreglan og sérsveitin eigi alls 450 byssur og önnur vopn, 254 skammbyssur 60 hríðskotabyssur, 48 haglabyssur svo eitthvað sé nefnt.
Flestar er undir höndum sérsveitarinnar eða 202 byssur. Í vopnabúri sveitarinnar eru t.d 78 skammbyssur, 58 hríðskotabyssur og 30 riflar og haglabyssur. 176 skammbyssum dreifast svo á lögregluembættin.
Á Vestfjörðum eru t.d 10 skammbyssur, 19 á Akureyri og 9 á Eskifirði svo einhver embætti séu nefnd. Rökin fyrir að vopna lögregla úti á landi eru þau að þegar eitthvað bjátar á og ástæða er til að grípa til vopna tekur of langan tíma að kalla til sérsveitina.
150 hríðskotabyssur
Jón Bjartmarz segir að lögreglan hafi alla tíð haft vopn. Til hafi verið sjálfvirkar hríðskotabyssur sem séu nú úreltar og þess vegna hafi verið ákveðið að kaupa 150 hríðskotabyssur á síðasta ári. Hann bendir á að stærð skotanna í hríðskotabyssunum sé sú sama og í skammbyssunum en þær sé bæði öruggari og auðveldri í meðhöndlun.
Hann vill ekki upplýsa hvaðan þær voru keyptar. Í frétt norska blaðsins VG frá því í júní í fyrra kemur fram að Landhelgisgæslan hafi fengið 60 hríðskotabyssur frá Noregi. Ekki sé enn búið að greiða fyrir byssunar en líklegt að það verði ekki há upphæð. Þetta hafi verið byssur sem viðkomandi var hættur að nota. Jón segir að með kaupunum sé ekki verið að breyta reglum um vopnaburð lögreglunnar og ekki standi til að lögreglumenn gangi um vopnaðir.
En hvað verður gert við hríðskotabyssurnar 150? Til stendur að dreifa þeim til lögregluembættanna úti á landi og þar geta lögreglustjórar ákveðið hvort þær verða geymdar í bílunum eða á lögreglstöðvunum.
Verið að framfylgja skýrslu Ögmundar
Jón segir að með byssukaupunum sé ekki að verða nein eðlisbreyting á vopnaburði lögreglumanna. Í raun sé verið að framfylgja því sem kom fram í skýrslu Ögmundar Jónassonar þáverandi innanríkisráðherra frá 2012 til Alþingis en þar kom fram: „Grunnbúnaður lögreglu til þess að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir vegna vopnamála, hryðjuverka og annarra stórfelldra ofbeldisglæpa er mjög takmarkaður, búnaður sem til er þarfnast að mestu leyti endurnýjunar og viðbúnaðargetan er óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð og vegna öryggis ríkisins. Nokkur hluti af varnarbúnaði lögreglu er kominn til ára sinna og er úreldur, má sem dæmi nefna að skotvesti frá 1995 og 2005 eru komin fram yfir líftíma þeirra.“