1,5 milljarða bakreikningur vegna jarðganga

01.09.2017 - 18:01
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kostnaður við Norðfjarðargöng og göng við Bakka verður að líkindum tæplega 1,5 milljarðar umfram þær fjárveitingar sem þegar hafa verið samþykktar. Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn fréttastofu.

Í Norðfjarðargöngum er langstærsti hluti þessa kostnaðar vegna verðbóta til verktaka. Framkvæmdir við Norðfjarðargöng teygja sig yfir árabilið 2013-2017 og í langtímasamningum við verktaka eru ákvæði um bætur vegna verðbreytinga á verktímanum. Alls eru verðbæturnar 760 milljónir og eru til viðbótar við upphaflega fjárveitingaáætlun. Þá féll til kostnaður vegna aukinna öryggiskrafna en á framkvæmdatímanum var meðal annars ákveðið að hafa fjögur neyðarrými í göngunum. Gert var ráð fyrir óvissukostnaði en út af standa tæplega 240 milljónir vegna öryggiskrafna.

Í jarðgöngunum á Bakka við Húsavík eru verðbætur 150 milljónir og kostnaður við vatnsvarnir jókst töluvert eða um 240 milljónir. Heilklæða þurfti göngin þar sem lekar voru útbreiddir í lofti og veggjum ganganna. Þá jókst kostnaður við vega- og hafnargerð utan ganga um 80 milljónir króna.

Heildarkostnaður við Norðfjarðargöng verður því ekki 13,3 milljarðar heldur 14,3 og heildarkostnaður við göngin við Bakka verður ekki 3100 milljónir heldur 3570 milljónir. Þessi kostnaður er ekki inn í fjárveitingum til framkvæmdanna segir í svari Vegagerðarinnar.

Uppfært 2.9.2017: Vegagerðin hefur óskað eftir að áréttað sé að alltaf hafi verið vitað að greiða þyrfti verðbætur vegna framkvæmdanna þannig að slíkur kostnaður á ekki að koma á óvart. 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV