10 ár eru síðan eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál í íslenskri réttarsögu hófst þegar Kaupþing tilkynnti um kaup Al-thani á hlut í bankanum. Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, segir það hafa komið á óvart hve ósvífin brotin voru.
Þann 22. september 2008 kom tilkynning frá Kaupþingi um að einn af valdamestu mönnum furstadæmisins Katar, Sheikh Mohammed bin Khalifa Al-Thani, hefði keypt ríflega fimm prósenta hlut í Kaupþingi fyrir tuttugu og fimm milljarða króna.
Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, sagði þetta til marks um traust til bankans. „Ég held þetta styrki bankann. Það er ljóst að það er óraunhæft fyrir okkur að sækja mikið meira fjármagn til íslenskra fjárfesta, bankinn er orðinn það stór og ef við ætlum að halda áfram að vaxa á alþjóðlegum markaði þá verðum við að ná í alþjóðlega fjárfesta.“
Þetta reyndust sýndarviðskipti. Kaupin voru þaulskipulögð viðskiptaflétta; Kaupþing hafði lánað á laun fyrir kaupunum til að gefa til kynna betri stöðu bankans en raunin var.
Gríðarlega umfangsmikið mál
„Al-Thani málið kemur tiltölulega snemma upp. Við byrjum því strax árið 2009 það er númer 12 í röðinni ef ég man rétt. Það var svona nokkuð ljóst snemma í hvað stefndi. Eins og þegar það var tekist á um það fyrir dómi þá var sú atburðarás sem blasti við mönnum tiltölulega snemma varð sú sem reyndin varð þannig að þetta var sérstakt mál og miklir hagsmunir og það þurfti að leita mjög víða, það þurfti að yfirheyra menn erlendis og fá upplýsingar,“ segir Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari. Hann starfaði sem sérstakur saksóknari þegar málið kom upp.
Björn segir þetta vissulega hafa verið gríðarstórt mál. „Jú þetta tók sinn tíma og með alls kyns flækjum og fléttum en þetta tók langan tíma já. Eins og með mörg þessara mála þá kom það mér á óvart hversu alvarleg og stór og skipulögð brotin voru.“
Málið hafi reynst öllum erfitt
Málið var rannsakað í þrjú ár og ákærði sérstakur saksóknari fjóra fyrrverandi stjórnendur og hluthafa Kaupþings, Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, Sigurð Einarsson stjórnarformann bankans, Ólaf Ólafsson einn aðaleiganda Kaupþings og Magnús Guðmundsson forstjóra Kaupþings í Lúxemborg.
„Það var mikil athygli á málinu, mikil fjölmiðlaumfjöllun sem að jú gerði það að verkum að þetta tók á. Ég held það taki nú á alla sem koma að svona stóru máli fyrir dómi, dómara verjendur og sækjendur og að sjálfsögðu ákærðu líka, sjálfsagt erfiðast fyrir þá.“ segir Björn.
Það var svo árið 2015 sem Hæstiréttur sakfelldi alla ákærðu í málinu. Þeir hlutu þunga dóma: Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsisdóm, Sigurður fjögurra ára og Ólafur og Magnús voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi hvor.
Brotamenn hafi sýnt eindæma ófyrirleitni
Björn segir margt hafa komið sér á óvart við málið en eitt standi þó upp úr. „Ja bara hvað þetta var ósvífið brot. Það mundu nú margir eftir þessu þegar þetta var tilkynnt á sínum tíma og þetta var mjög ósvífið brot já. Hæstiréttur kvað nú upp um það að þetta hefði verið mjög einbeittur brotavilji og sagði jafnframt að þarna hefðu brotamenn sýnt eindæma ófyrirleitni. Dómurinn var mjög harðorður og ég get bara tekið undir þau orð. “
Hann hafi í raun ekki grunað að ástandið væri eins slæmt og raun bar vitni. „Líklega það hvað það bárust margar kærur vegna hrunmálanna og þegar við fórum að rannsaka þau hversu mörg og alvarleg brot komu í ljós. Við áttum hreinlega ekki von á því að þetta hefði verið svona slæmt ef svo má segja, það kom kannski mest á óvart.“
Erfiðara að fremja álíka brot í dag
Björn segir að aldrei sé hægt að koma alveg í veg fyrir að menn brjóti lög. „Nei það er nú aldrei hægt að tryggja það að menn brjóta af sér áfram en það er búið að styrkja regluverkið og það er búið að styrkja eftirlitsstofnanirnar. Þannig það er ólíklegra að svona brot eigi sér stað aftur og ef þau eiga sér stað þá tel ég nú líklegt að þau komist upp og að það verði sakfellt fyrir þau eins og þetta mál.“
Jón Þór Sturluson, framkvæmdastjóri Fjármálaeftirlitsins, tekur undir þetta. Það sem hefur fyrst og fremst breyst er skýrara bann við lögum um fjármálafyrirtæki um að veita lán sem er eingöngu með veði í hlutabréfum og eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins hafa aukist mikið.
„Það er miklu meiri vinna í því að fylgjast með því bæði með reglubundnum skilum á gögnum sem eru yfirfarin og rýnd af Fjármálaeftirlitinu. Það er líka miklu meira lagt í að fara á staðinn og sannreyna upplýsingar. Það eru líka miklu meiri samskipti milli fjármálaeftirlits og endurskoðanda en voru á þeim tíma. Sérstaklega fyrir kerfislæga mikilvæga banka að það sé ekki einhver misskilningur á milli þessara aðila um það hver fjárhagsstaðan er. Svo er eftirlitið miklu framsýnna, sérstaklega er miklu betur verið að skoða hvert bankarnir eru að fara varðandi sínar viðskiptaáætlanir, það er miklu betra fylgst með hvernig stjórnarháttum er háttað innan fjármálafyrirtækisins og ekki síst hvernig fylgst er með uppbyggingu áhættu innan fyrirtækisins.“
Aðilar á fjármálamarkaði hugsi sig nú tvisvar um
Jón Þór segir mikið hafi komið á óvart við hrunmálin. „Þessi umfangsmikla markaðsmisnotkun og umboðssvik sem dæmt hefur verið fyrir í mörgum málum kom svolítið aftan að mönnum. Að það hafi verið kerfisbundin blekkingarleikur í gangi alveg fram á síðustu stund þá var það sjónarmið stjórnvalda að vandamál bankakerfisins væri fyrst og fremst varðandi laust fé og að vandræði á heimsvísu væru að valda íslenska bankakerfinu sérstökum erfiðleikum.“
Sakfellingardómur Hæstaréttar í Al-Thani málinu var harðorður, sagði ákærða hafa sýnt mjög einbeittan brotavilja og sagði jafnframt að þeir hefðu sýnt eindæma ófyrirleitni.
Jón Þór telur hann hafa mikilvægan fælingarmátt. „Það er bara afskaplega gagnlegt að það vinni saman að það sé mótvægi við þá hættulegu hvata sem eru sífellt til staðar í svona kerfi, það er alltaf hvati til að leita í aukna áhættu vegna hagnaðarvonarinnar sem því fylgir og að það sé afleiðingar óhóflegar áhættutöku er gríðarlega mikilvægt.“