„Fólk er í áfalli“ segir fararstjóri

Inferno Rússíbaninn í Terra Mitica. MYND: Wikimedia Commons.


  • Prenta
  • Senda frétt

Átján ára íslenskur piltur lést í slysi í skemmtigarðinum Terra Mítica í Benidorm á Spáni í gær. Pilturinn var á ferð ásamt foreldrum sínum og vini þegar slysið varð. Hann féll úr rússíbana sem kallast Inferno. Vagnar rússíbanans ná allt að 96 kílómetra hraða og er hann 25 metra hár.

Slysið er í rannsókn hjá lögreglunni í Alicante.  Utanríkisráðuneytið fékk tilkynningu frá spænskum yfirvöldum í gærkvöld um að íslenskur piltur hefði látist í slysinu. 

Fréttastofa ræddi við Kristínu Tryggvadóttur, sem er fararstjóri á Benidorm, í morgun. Hún segir að fólk sé í áfalli vegna slyssins. Að sögn Kristínar eruTerra Mítica stór og mikill skemmtigarður sem var opnaður fyrir fjórtán árum og að almennt hafi verið talið að öryggisatriði væru í lagi. 

Hún segir að nú sé háannatími og í garðinn komi hundruð manns á hverjum degi. Langar biðraðir séu eftir hverju tæki. Kristín átti ekki von á því að garðinum sjálfum yrði lokað en að umræddum rússíbana yrði lokað á meðan rannsókn málsins stæði yfir. 

Í yfirlýsingu sem birtist á vef Terra Mítica kemur fram að reglulega sé farið yfir öll tæki í garðinum og að fyrirtækið hafi afhent yfirvöldum öll gögn um tækið. Þar segir einnig að orsakir slyssins séu ókunnar og  að hugur starfsfólks sé hjá fjölskyldu hins látna.

Breskir fjölmiðlar fjölluðu talsvert um slysið í gærkvöld eftir að rangar upplýsingar bárust um þjóðerni piltsins. Á vef Mirror er rætt við ferðakonu frá Glasgow sem segir að um leið og slysið varð hafi starfsfólk garðsins stöðvað ferðina. „Þetta virtist samt allt taka heila eilífð,“ hefur Mirror eftir konunni.

Hún segir það hafa komið sér á óvart að Terra Mítica skyldi ekki hafa verið lokað. Dóttir konunnar hafði verið í þessum sama rússíbana aðeins fimm mínútum áður en slysið varð. Á vef Mirror kemur fram að rússíbaninn Inferno hafi verið vígður fyrir sjö árum eða 2007.

Ertu með athugasemd vegna fréttarinnar? Sendu á frettir@ruv.is

Tilkynna um bilaða upptöku