16:05
Tengivagninn
Konukroppar, Venus: Búbblan, Jöklagrafreitur, vinningsljóð hinsegin daga
Tengivagninn

Í Tengivagninum er fjallað um það helsta sem er að gerast í menningu í sumar.

Næskomandi sunnudag mun Sundlaugin í Lundareykjadal breytast í leikhús, þegar verkið Konukroppar eftir sviðslistakonurnar Sigríði Ástu Olgeirsdóttur og Snædísi Lilju Ingadóttur verður frumflutt. Í lýsingu á viðburðinum segir að það sé „…óður til kvenlíkamans í öllu sínu veldi; fellingar, hrukkur, appelsínuhúð, gæsahúð, skvabb, mjúkar línur, beinaber svæði. Sambandið milli kropps og vatns er rannsakað í seyðandi verki sem liggur á mörkum dans- og sviðslistar.“ Halla Harðardóttir ræðir við listakonurnar í þættinum.

Kvenlíkaminn er líka viðfangsefnið í sýningunni Venus: Búbblan. Gróðurhúsinu á Lækjartorgi verður breytt í útópíska búbblu á laugardaginn kemur, þar sem náttúrulegar hreyfingar kvenlíkamans fjarri oki feðraveldisins eru kannaðar. Bjarni Daníel fékk að líta inn í búbbluna og ræddi við Önnu Guðrúnu Tómasdóttur, sem er annar af tveimur danshöfundum sem kemur að verkinu.

Ríki kvenna, ríki drottninga, birtist líka í vinningsljóðinu í ljóðasamkeppni Hinsegin daga sem við heyrum í þættinum. Ríki mitt nefnist ljóðið sem er eftir Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur. Tómas Ævar spjallar við Ragnheiði.

Undir lok þáttarins förum við út í Gróttu og heyrum um jöklagrafreit, líkræðu og minningarathöfn sem fer fram um helgina á viðburðinum Jöklar eru lífið. Melkorka Ólafsdóttir veltir fyrir sér list á tímum loftslagsbreytinga og ræðir við aðstandendur viðburðarins.

Aðgengilegt til: Rennur ekki út.
Lengd: 1 klst. 55 mín.
,