Vill ekki leyfa OR að stofna aflandsfélag

Sigurður Björn Blöndal formaður Borgarráðs segir að það feli í sér siðferðilegt tap að heimila Orkuveitunni að kaupa tryggingar í gegnum aflandsfélag eins og fyrirtækið óskar eftir.

Vill ekki leyfa OR að stofna aflandsfélag

Orkuveitan segir það spara 50 milljónir á ári og telur að tekjur ríkissjóðs muni aukast til lengri tíma.

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur sagði í gær í fréttaskýringarþættinum Kveiki þar sem fjallað var um Paradísarskjölin svokölluðu að fyrirtækið vilji stofna dótturfélag á Guernsey til að halda utan um tryggingar fyrirtækisins. Eigendurnir, Reykjavíkurborg, Akranes og Borgarbyggð höfðu árið 2015 ákveðið að heimila stofnun dótturfélags þar en snéru við ákvörðun sinni árið 2016 eftir háværa gagnrýni í kjölfar birtingar Panamaskjalanna.

Bjarni benti á að sumar eignir í 300 milljarða eignasafni Orkuveitunnar væru það stórar að íslensk tryggingafélög gætu ekki tryggt þær.

„Orkuveitan á umtalsverðar eignir, um 300 milljarða. Sumar eignir í þessu safni eru svo stórar að íslensk tryggingafélög geta ekki tryggt þær. Þau félög sem eiga svona mikið eignasafn hafa mörg farið þá leið að stofna eigið félag og það er þá erlendis, þar sem skattareglur í lögum eru öðruvísi. Í staðinn fyrir það að greiða þetta til tryggingafélaga erlendis. Okkur reiknaðist til að það væru þá svona 50 milljónir á ári sem við gætum sparað með þessum hætti,“ sagði Bjarni í þættinum.

Siðferðilegu rökin vega þyngra

Þá myndi þetta ekki skaða ríkissjóð því til lengri tíma myndu skattekjur ríkissjóðs aukast og rekstur Orkuveitunnar batna. Björn Blöndal formaður borgarráðs segir 50 milljónir í þessu samhengi ekki há upphæð í samhengi við rekstur Orkuveitunnar. Siðferðilegu rökin vegi þyngra.

„Okkar siðferðisvitund segir að það sé óeðlilegt að opinbert fyrirtæki fari fram með fordæmi um að fara í gegnum svona gjörninga einhverja þegar okkur finnst orka tvímælis að almenningur eða fjármálafyrirtæki séu að því þessu og siðferðislegi ávinningurinn eða það siðferðislega tap sem verði af því sé einfaldlega, að það verði ekki sýnt fram á að það sé þess virði að gera þetta“ segir Björn.

En er það siðferðislegt tap ef ríkið fær meira í skatttekjur til lengri tíma litið og Orkuveitan og eigendur hennar safna fé og reka fyrirtækið betur?

„Ja það er bara mjög góð spurning. Það má velta fyrir sér hvort það væri hagkvæmara að ríkissjóður geymdi meira fé í einhverjum skattaskjólum eða hin opinberu fyrirtæki og þá vaknar aftur á móti spurningin, er það gott? Er það þjóðhagslegur ávinningur í því? Ég hef ekki alveg svarið“ segir Björn.