Svona er líf Róhingjanna

Þrjátíu kílómetrum frá lengstu sjávarströnd í heimi, við bæinn Cox‘s Bazar í Bangladess, standa flóttamannabúðir. Það er talið að engar flóttamannabúðir í sögunni hafi sprottið jafnhratt. Þangað er líka kominn heill þjóðflokkur, nánast. Þjóðflokkur sem hefur sætt ofsóknum heima hjá sér um áratuga skeið og nú eru stjórnvöld þar sökum um þjóðarmorð.

Við erum að tala um Róhingja frá Mjanmar.

Hafa sætt ofsóknum

Bangladess er nánast umlukið Indlandi til austur og vesturs, en á suðausturtánni liggja landamæri að Mjanmar. Landamæri á þessum slóðum hafa löngum verið óljós og núverandi landamæri eiga sér ekkert óskaplega langa sögu. Á landamærum Bangladess og Mjanmar er Rakín-hérað, þar sem Róhingjar eru þorri íbúanna. Áratugum saman hafa þeir sætt ofsóknum af hálfu ráðandi þjóðflokka en fyrir réttu ári sauð upp úr.

Í október 2016 voru Róhingjar sakaðir um að hafa ráðist á og drepið níu lögreglumenn og átök hófust. 25. ágúst síðastliðinn segja stjórnvöld að hryðjuverkamenn úr röðum Róhingja hafi gert árásir á lögreglustöðvar og herbækistöð – en sú frásögn er dregin í efa. Viðbrögð yfirvalda létu hins vegar ekki á sér standa. Herinn réðst á Róhingja, hundruð eða þúsundir voru myrt og þorp Róhingjanna brennd til grunna.

Stjórnvöld í Mjanmar gera allt til að koma í veg fyrir að fréttamenn komist til Rakín-héraðs og banna alþjóðastofnunum líka að vera þar á ferð, en fréttamenn SKY komust þangað fyrir nokkrum dögum. Í hálfgerðum fangabúðum mætti þeim fólk sem er skelfingu lostið af ótta við ofbeldi hersins.

„Þeir drepa mann,“ segir einn þeirra. „Yfirvöld hafa reynt að drepa alla Rohingja. Þau kæra sig ekki um að þeir séu í landinu.“

Lýsingar á framgangi mjanmarska hersins eru ótrúlegar. Vitni bera að fólki – börnum – hafi verið kastað lifandi á eld, karlar drepnir og konum nauðgað.

„Í þorpinu mínu, þegar karlarnir flúðu á brott, söfnuðu þeir öllum konunum á einn stað og nauðguðu sumum okkar. Þeir tóku til við að brenna húsin og fóru hús úr húsi og kveiktu í þeim; þeir eirðu engu,“ segir ein flóttakonan.

Eftir standa þorp sem brennd hafa verið til grunna.

Það er stutt yfir til Mjanmar og eru nær allir Róhingjar flúnir þaðan. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Brunnin þorp

Það eru ekki nema kílómetri eða tveir yfir til Mjanmar. Hægt er að sjá glitta í brunnin trén í þorpinu sem er hérna rétt hinum meginn Naf-árinnar. Þegar þjóðernishreinsanirnar hófust fyrir alvöru 25. og 26. ágúst síðastliðinn fór það ekki fram hjá neinum hér Bangladess-megin.

Það sást reykur, það heyrðist byssugelt og skömmu síðar skall á einskonar flóðbylgja flóttamanna, Róhingja sem voru að flýja. Mestmegnis sigla þeir í skjóli nætur og koma hér að landi á lítilli eyju í miðri ánni og halda svo áfram yfir á meginlandið.

Á örfáum dögum flykktust tugir þúsunda til Bangladess, á mánuði voru það orðin nokkur hundruð þúsund og nú í desember hafa tæplega sjö hundruð þúsund Róhingjar flúið til Bangladess síðan í ágúst.

„Við fórum í gegnum frumskóginn en þar voru hersveitir. Eina leiðin fyrir okkur að ferðast var í myrkrinu. Herinn skaut á okkur þegar við fórum í gegnum frumskóginn. Maðurinn er ennþá í Mjanmar og en foreldrar mínir eru hér. Bróðir minn var líka skotinn í Mjanmar,“ segir flóttakona.

„Það tók okkur mánuð að komast hingað því maðurinn minn var skotinn og særðist. Við hefðum annars alls ekki komið. Maðurinn minn er ennþá í Mjanmar.“

Prammarnir sem flóttamennirnir nota til að komast til Bangladess. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Koma flóttamanna veldur spennu

Heimasmíðaðir prammar sem eru dæmigerðir fyrir þá sem Róhingjarnir notuðu til þess að flýja. Núna, þegar við erum komin fram í desember, hefur fólksstraumurinn nánast þornað upp, vegna þess að það er eiginlega enginn eftir af Róhingjunum þarna hinum megin.

Móttökurnar í Bangladess hafa verið agaðar en erfitt er að segja að Róhingjarnir séu velkomnir. Því fer fjarri að almenningur á þessu svæði lifi við vellystingar eða sé aflögufær og því hefur koma flóttamanna vakið nokkra spennu, ekki síst í ljósi þess að alþjóðastofnanir og hjálparsamtök bjóða þeim aðstoð sem heimamenn sárvantar marga hverja líka.

Flóttamannabúðirnar sjálfar virðast við fyrstu sýn furðugóðar. Flóttamannabúðir eru oftar en ekki hrein ringulreið og hreinasta hörmung fyrir þá sem þar hafast við.

Þessar búðir eru eiginlega ótrúlega vel skipulagðar, ekki síst í ljósi þess að þær ná svo langt sem augað eygir í allar áttir. Hérna búa yfir 600.000 manns, hér í Balukali, og þessar búðir urðu til á þremur mánuðum. Í lok ágúst byrjaði fólk að hrúgast hér inn. Vandamálið er ekki lífið frá degi til dags, vandamálið er miklu frekar að það lítur ekkert út fyrir að þetta fólk sé að fara neitt. Og hjálparsamtökin og alþjóðastofnanirnar eru að verða uppiskroppa með fé.

Þótt skipulag búðanna sé gott eru þau auðvitað íbúar þeirra, flóttafólkið, sem þarfnast umhyggju.

Eitt af því sem vekur athygli er að í búðum þar sem mörg hundruð þúsund manns hafast við við mikil þrengsli er furðu rólegt. Hér er enginn skarkali eða ringulreið eins og búast mætti við.

Fullorðna fólkið er hljótt og börnin hlýðin – ekki einkenni fyrirmyndarsamfélags heldur brotins fólks sem hefur búið við ofbeldi svo lengi að það tekur einfaldlega örlögum sínum og virðist láta hverjum degi nægja sína þjáningu.

Hassina Beghum. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Flúði með börnin

Hassina Beghum er ein þeirra sem er nýkomin, flúði af ótta við nauðgun og pyntingar. Fólk hvarf úr þorpinu hennar og hún lagði af stað ásamt börnum sínum, í þriggja sólarhringa ferðalag.

„Ef þeir hætta að drepa okkur og pynta, og við höfum ekkert að óttast, vil ég fara til baka því þetta er heimalandið mitt. En ef senda á okkur frá Bangladess þarf að tryggja að við séum örugg, þurfum ekki að óttast dráp og pyntingar. Öðrum kosti er betra að vera hér, ef hægt er að tryggja okkur mat,“ segir hún.

Bústaðurinn hennar Hassinu og fjölskyldu hennar er dæmugerður fyrir híbýlin hérna, það er að segja bambusgrind og svo plastpokar eða strigaþak og svona búa í raun og veru allir í þessum búðum í gríðarlegu nábýli. Það er fínt fyrir Hassinu og fjölskyldu hennar, því þau eru þá nálægt hvert öðru, en þetta hefur líka verri hliðar eins og þessi opnu ræsi. Opið ræsi og mikið nábýli þýðir bara eitt: hætta á farsóttum, sérstaklega kóleru.

Þegar fólk hefur sætt illri meðferð áratugum saman, aldrei hlotið neina heilbrigðisþjónustu, hvað þá verið bólusett, er hættan ennþá meiri. Í flóttamannabúðunum er til að mynda mislingafaraldur, sem leggst ekki síst á börn.

Barnmargar fjölskyldur áberandi

UNICEF, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er meðal þeirra stofnana sem komið hafa á laggirnar litlum heilsugæslustöðvum þar sem reynt er að sinna veikum. Áberandi þar á meðal: ungar mæður og hvítvoðungar. Stórar og barnmargar fjölskyldur eru áberandi meðal Róhingja og fyrir vikið er það oft hlutverk mjög ungra barna að sinna yngri systkinum sínum.

Hassan Zahid er læknir á einni slíkri heilsugæslu.

Við höfum hér tjald þröngt setið mæðrum og börnum þeirra. Og þau eru öll meira og minna veik. Hvað er það sem helst hrjáir börnin?

„Algengast er iðrakveisa og svo bráðasýking í öndunarvegi. Þau lifa mjög þröngt hér, umhverfið skítugt og mengað. Svo að hreinlæti er mjög ábótavant og vatnsbúskapurinn slæmur. Svo að þau þjást af iðrakveisu og sýkingum í öndunarvegum. Þetta tvennt er algengast og svo eru aðrir sjúkdómar eins og vannæring sem láta á sér kræla,“ segir Zahid.

Þetta eru sjúkdómar sem við aðrar aðstæður væri auðvelt að meðhöndla en við þessar geta verið banvænir.

„Já, tvímælalaust, af því kringumstæðurnar eru afleitar. Þau fá meðferð en við þessar aðstæður vinda veikindin upp á sig og því er meðhöndlun mjög snúin,“ segir hann.

Hassan Zahid læknir. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Reyna að bjarga veikum

Á heilsugæslunni hittum við átján ára gamla móður með níu mánaða son sinn í fanginu. Hann er veikur og því er hún hér; hann er með háan hita.

Hvað hefur hún verið hér lengi og hvernig komst hún?

„Í þrjá mánuði,“ segir móðirin.

Hvernig var að fara frá Arakan, frá Búrma?

„Fjölskyldan mín slapp en nágrannaþorp okkar var brennt til grunna. Íbúar þar komu til okkar og sögðu okkur að flýja, sem við gerðum,“ segir hún.„Ættingjar mínir voru drepnir, foreldrar mínir. Ég veit ekki hvort við fáum að vera hér áfram eða send heim. Og ég veit ekki hvernig við eigum að draga fram lífið heldur.“

Nahid Sharmin Tenju er einnig læknir. Hún meðhöndlar ungar mæður og börn þeirra; og við spyrjun við þau séu að fást? Hvernig eru aðstæður þeirra?

„Þau eru með kvef og hita, niðurgang og iðrakveisu; sjúkdóma sem berast með vatninu. Öndunarfærasýkingar, mislinga og húðsjúkdóma,“ svarar hún.

Á meðan samtali okkar við Nahid stendur vekur eitt barnanna athygli Hassans læknis. Barnið er með mikinn sótthita. Það er meðvitundarlaust og þegar hann opnar augun er engin viðbrögð að sjá. Æsingalaust eru barn og móðir færð yfir í lítið rými sem markað er af með tjaldi.

Tilraunir til að koma barninu til meðvitundar bera engan árangur og skömmu síðar er kallaður til sjúkrabíll til að flytja barnið á sjúkrahús. Og læknirinn snýr sér að næsta barni, enda heilsugæslan í tjaldinu full og skari annarra, veikra barna sem bíður aðhlynningar.

Gamalgróinn rasismi

Þessi saga er ekki ný hjá Rohingjum þótt svo að alþjóðasamfélagið sé að heyra af þessu fyrst nú. Þessar þrengingar þeirra eru ekkert nýtt. Bina d‘Acosta hefur skoðað þessi mál en hún er sérfræðingur í málefnum Róhingja.

„Nei, þessi þrautaganga er ekki nýtilkomin. Þetta er afar gamalt samfélag og landamærin eru tiltölulega ný, komu eftir að yfirráðum Breta lauk í nýlendunum. En áður voru forn konungsríki á þessum slóðum svo að Suður-Asía, Suðaustur-Asía hafa verið tengd í aldir,“ segir d‘Acosta.

En núverandi áþján Rohingja hefst seint á síðustu öld, er ekki svo?

„Jú, og það sem gerðist var að á þriðja og fjórða tug síðustu aldar, þar sem nú er Mjanmar, urðu miklar ofsóknir á hendur Indverjum; indverskum múslimum og hindúum. Og þá heyrum við fyrst þessa orðanotkun um litaraft haft um fólk dökkt yfirlitum. Bamar-fólkið stóð fyrir þessum ofsóknum og margt af því býr nú í Yangoon svo að mikil spenna var á milli þjóðernishópa vegna verkalýðsdeilna og aðstæðna í efnahagsmálum Burma,“ segir hún.

„Og frá árinu 1942 höfum við markvissa útilokunarstefnu gagnvart Rohingjum og 1962 rændi herinn völdum og eftir valdaránið var þrengt æ meira að Rohingjum. En hafa ber í huga að í Mjanmar eru átta kynþættir og 135 þjóðernishópar innan þessara átta kynþátta. En ætíð hefur verið litið á Róhingjana sem utanaðkomandi. Því þeir voru of nærri landmærunum við Kittagong. Svo að orðræðan í Mjanmar í dag snýst um að þeir séu frá Bangladess og hér því ólöglega. Og eftir að lög voru sett um ríkisborgarrétt árið 1982 er enn frekar þrengt að Róhingjum sem skilgreindum hópi og þeir verða við það landlausir hinumegin landamæranna.“

Þetta hljómar eins og gamaldags kynþáttamisrétti.

„Þú segir það. Já, það er vissulega spenna á milli kynþáttanna og í raun kynþáttamisrétti. Svo að á ýmsan hátt er þetta gamaldags rasismi og djúpstæðir fordómar,“ segir d‘Acosta.

(Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Fá að leika sér

Börn eru sex af tíu flóttamönnum í búðunum í Bangladess. Hvert sem litið er, eru lítil börn og veikbyggð. Það er varla hægt að ímynda sér áhrif ofsókna og þjóðernishreinsana á litlar sálir. UNICEF rekur svokölluð örugg svæði þar sem börnum er gefinn kostur á að vera börn; leika sér og gleyma hörmungunum sem þau hafa upplifað.

Krakkarnir gera það sem aðrir krakkar gera: sippa, leika sér í fótbolta….. og teikna. Með því að teikna vinna þau úr lífsreynslunni og myndirnar þeirra gefa líka skýra mynd af því hvernig upplifun þeirra hefur verið. Monjur Ali er ungur listateiknari. Einbeittur dregur hann nákvæmar línur af lífinu í kringum sig, eins og myndabókin hans ber með sér.

„Þessi mynd er af Tulatuli, þar sem ráðist var á fólk. Þeir kveiktu í, tré og hús brunnu og fólk særðist. Margir voru inni í húsunum þegar kveikt var í þeim; þess vegna er fólk í húsunum,“ segir hann.

Það er að sjá að fólk sé í eldunum.

„Já, margt fólk var reyndar inni í húsunum þegar kveikt var í þeim. Svo að það er í eldinum. Hann sýndi líka fólk sem var brennt og sært.“

Þarna er líka mynd af byssum; af hverju teiknar hann byssur?

„Ég teiknaði mynd af byssunum sem herinn lét fólkið í Rakín fá. Fólkið notaði byssurnar til að elta okkur uppi og hræða,“ segir Ali. „Þegar ég kom til Bangladess sá ég hrísgrjónaekrur úti um allt svo ég teiknaði mynd af því.“

„Best væri að fara heim til Búrma. Þá verð ég glaður. En þegar ég kem hingað að teikna er gaman og þá er ég glaður.“

Fjármagn á þrotum

Þótt það sé kraftaverki næst hvernig tekist hefur að koma upp búðum fyrir hundruð þúsunda flóttamanna á svo skömmum tíma blasir við bráðavandi, því hjálparstarfið er ekki fjármagnað.

Staðan er auðvitað frekar alvarleg því það er skortur á fjármagni. Það er stórt gap á milli þess fjármagns sem hefur safnast og þörfin er mikil. Við erum að tala um kannski þriðjungur af því sem vantar hefur raunverulega verið fjármagnaður og þetta er ekki bara UNICEF þetta eru fleiri, þetta eru aðrar stofnanir hér.

Þetta eru ekki verkefni sem snúast um neitt annað en bara lífsnauðsynlega þjónustu. Eins og þessi heilbrigðisþjónusta og áfallahjálp er í raun og veru ekkert annað en lífsnauðsynleg þjónusta. Þannig að við erum að tala um að aðeins hún er fjármögnuð að hluta til. Það er ekkert svigrúm til að fara í neitt annað, nein verkefni sem gætu tryggt mögulega framtíð svo við erum ennþá á því stigi að við erum að tala um að lifa af. Við erum ekki komin lengra. Við erum ekki komin í hvað er næst, hvað er framtíðin.

Svo eins og stendur lifa þessi börn vonandi af daginn í dag með hjálp UNICEF og fleiri stofnana en hvað framtíðin ber í skauti sér vitum við ekki. Og þar skiptir máli hvernig alþjóðasamfélagið styður verið þau verkefni sem er verið að vinna hér og hvernig alþjóðasamfélagið ýtir á að það finnist varanleg lausn fyrir þetta fólk og þessi börn. Svo að þau eigi sér einhverja framtíð.

(Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Börn látin vinna

Í svona umhverfi verða börn hratt fullorðin, þurfa að bjarga sér við erfiðar aðstæður.

„Barnaþrælkun eykst. Og barnaþrælkun á svæðum þar sem... Misnotkun á vinnu barna... Svo að börnin vinna hvort eð er í búðunum, mjög lítil börn eru í vinnu. Eldri systkini gæta þeirra yngri. Og svo standa börn fyrir heimilunum. Börn annast um fatlaða foreldra sína. Og börn sjá um annað foreldrið þegar hitt hefur látist. Svo að álagið er mikið,“ segir d‘Acosta.

„Í ofanálag er börnunum þrælkað út á harðfiskmarkaðinum og við aðra matvælaframleiðslu.“

„Svo að það er stórt og mikið vandamál hér. Að auki sjáum við að börn eru seld mansali. Allskonar mansali. Sem vinnudýr og svo í kynferðislegu augnamiði. Þetta er mikill vandi. Og jaðrar nú við neyðarástand og við verðum að taka á því.“

Stelur börnum og selur

Sænska sjónvarpið hafði upp á barnræningja, manni sem stelur börnum í búðunum og selur fyrir 150 dollara til Miðausturlanda.

„Ég finn ekki nokkurn skapaðan hlut þegar ég ræni börnunum. Þetta eru bara viðskipti til að lifa af,“ sagði hann.

Við spyrjum d‘Acosta, sérfærðinginn í málefnum Róhingja út í þetta. Þetta eru aðstæður þar sem foreldrar neyðast til að selja börnin þrælasölum til þess að bjarga öðrum í fjölskyldunni.

„Já, ég tek undir það. Þetta er ekki sagt að öllu jöfnu. Við ættum ekki að alhæfa um þetta því ástæður fjölskyldna til að vinna þrælasölunum eru mismunandi og stundum eru börnin numin á brott eða þeim stolið. Einkum ef þau eru viðskila eða ein sín liðs, börnin á munaðarleysingjahælunum. Svo að við megum ekki líta fram hjá því. En á landamærum Taílands og Mjanmar, af reynslunni af starfi mínu með fjölskyldum Rohingja þá hef ég hitt foreldra sem sögðu mér að þau hefðu ekki átt annars úrkosta þrátt fyrir að þau vissu að barnið dæi eftir að það var sent til djúpsjávarveiða,“ segir d‘Acosta.

„En þau þurftu að vernda hina fjölskyldumeðlimina. Sömuleiðis, hérna megin landamæranna, þá hef ég rætt við ungar stúlkur sem vinna á hóruhúsum fyrir utan. Svo að það er margt sem við þurfum að huga að. Skuggahliðar þessara hreyfinga. Og svo vernd barnanna og vernd fjölskyldnanna. Við verðum því að hugsa um þetta heildstætt. Og æ frekar eftir því sem umræðan fer fram í fjölmiðlum. Og vonandi að ráðamenn og starfsfólk skilji hve flókinn vandinn og hve fjölþættar lausnirnar þurfa að vera.“

Flóttakonurnar hafa mjög margar orðið fyrir grófu kynferðisofbeldi. Mjanmarski herinn er sakaður um að hafa beitt því í herferð sinni gegn Róhingjum og lífið í flóttamannabúðunum er heldur ekkert sældarlíf.

„Hver einasta kona og stúlka sem ég ræddi við sagði frá því að hafa annaðhvort mátt þola eða séð kynferðislegt ofbeldi. Aðferðirnir við kynferðisofbeldið sem eftirlifendur sögðu frá snerust um nauðganir, fjöldanauðganir hermanna, þröngvaða nekt og niðurlægingu á almannafæri og kynlífsþrælkun í varðhaldi hermanna,“ segir d‘Acosta.

(Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Þjóðernissinnaðir búddamunkar

Í Mjanmar er Búddatrú ráðandi og það eru ekki síst búddískir harðlínuþjóðernissinnar sem hafa áhrif á framgöngu stjórnvalda. Á Vesturlöndum er ímynd búddamunka sú, að þar fari víðsýnir og friðsælir mannvinir. En í Mjanmar er sá munkur vandfundinn.

„Ég segi það satt; engar nauðganir fara fram í Rakhine á vegum hersins því andlit og svipmót múslímskra kvenna eru ekki þekkileg í augum hermannanna. Af því þær eru ljótar sem hjásvæfur. Í reynd yfirgaf fólkið hús sín og flúði land,” sagði Sujana Viva Raza, stuðningsmaður Ma Ba Tha búddistanna, við SKY-fréttastofuna.

Ma Ba Tha heitir hópur þjóðernissinnaðra búddamunka – Samtök um vernd þjóðernis og trúar. Forsvarsmenn samtakanna telja íslam helstu ógnina – en múslímar eru 2,3% landsmanna. Í Mjanmar er bannað að tala um Róhingja – orðið er bannað.

Fyrir réttri viku ákvað mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna að leggja fram ályktun þar sem þjóðernishreinsanir í Mjanmar eru fordæmdar.

„Hve mikið þarf fólk að þola áður en þjáning þess er viðurkennd og réttindi þess sem fólks viðurkennd af ríkisstjórn þess og heimsins?” spurði Zeid Ra'ad Al Hussein, forseti Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna, við það tækifæri.

Líklegt má telja að Indland og Kína beiti sér gegn þeirri ályktun og öðrum tilraunum til að refsa stjórnvöldum í Mjanmar. Að hluta er borið við ótta við íslamska öfgamenn en bæði Indland og Kína hafa fjárfest í umfangsmiklum verkefnum, meðal annars risahöfnum, olíu- og gasvinnslu, í Rakín-héraði. Viðmælendur Kveiks í Bangladess velktust ekki í vafa um að þeir hagsmunir vægju mun þyngra en örlög Róhingjanna.

„Við fordæmum árásirnar og styðjum Mjanmar í viðleitninni til að halda uppi friði og stöðugleika í Rakhine héraði,” sagði Ma Zhaoxu, fastafulltrúi Kína hjá Sameinuðu þjóðunum.