Starfsmenn Landsvirkjunar í Paradísarskjölunum

Stóri gagnalekinn frá Mossack Fonseca í fyrra var kenndur við Panama - það var talað um Panamaskjölin. Nýr gagnaleki, sem inniheldur 13,4 milljónir skjala, er hins vegar kenndur við Paradís, hvorki meira né minna.

Í Paradísarskjölunum kennir ýmissa grasa. Þar er hægt að rekja tengsl Rússa við ráðherra í ríkisstjórn Donalds Trumps, leynileg viðskipti fjármálastjóra kanadíska forsætisráðherrans Justins Trudeaus, aflandstengsl Elísabetar Englandsdrottningar og yfir 120 stjórnmálamanna um allan heim.

Þessi nýju gögn, sem lekið var til Süddeutsche Zeitung og deilt með hátt í 400 blaðamönnum í gegnum Alþjóðleg samtök rannsóknarblaðamanna, ICIJ, koma annars vegar frá tveimur fyrirtækjum á Bermúda og í Singapúr sem þjónusta aflandsfélög - og hins vegar er um að ræða 19 fyrirtækjaskrár frá öðrum aflandssvæðum. Kveikur hefur þessi gögn undir höndum.

Ekki jafn vinsæl og Mossack Fonseca

Íslensku bankarnir virðast ekki hafa notað aflandsþjónusturnar tvær sem hér eru til umfjöllunar, Appleby og Asiaciti Trust, líkt og Mossack Fonseca sem fjallað var um í Panamaskjölunum. Þar af leiðandi er tiltölulega fáa Íslendinga að finna í skjölunum.

Þar eru þó örfá kunnugleg nöfn úr íslensku viðskiptalífi - á borð við Björgólf Thor Björgólfsson og Gísla Hjálmtýsson sem eiga félög á Bermúda - en Gísli rak fjárfestingarsjóð sem var að meirihluta í eigu lífeyrissjóða, sem tapaði verulegum fjárhæðum á útgerð við vesturströnd Afríku. Þarna er líka Róbert Guðfinnsson sem á félag á Möltu. Takmarkaðar upplýsingar er að finna í gögnunum um umfang og tilgang félaganna. Sjálfur segir Róbert að hann telji Möltu tæpast til aflandssvæða og augljóst að sá sem stundaði alþjóðaviðskipti á tímum gjaldeyrishafta hafi þurft að skrá félag erlendis.

Bæði Björgólfur og Gísli sögðu í svörum sínum við fyrirspurn Kveiks að þeir hefðu stundað viðskipti erlendis og tengst félögunum þess vegna.

Landsvirkjunarfólk áberandi

Það sem vekur helst athygli er nöfn þó nokkurra starfsmanna Landsvirkjunar. Landsvirkjun notaði aflandsþjónustu Appleby á Bermúda árið 2003 til að stofna tryggingafélagið Icelandic Power Insurance Ltd. eins og fjallað var um í fyrravor og að jafnaði hafa tveir starfsmenn setið í stjórn þess, án þess þó að fá sérstaklega greitt fyrir það. Það eru nöfn þeirra sem birtast í skjölunum.

Það var stofnað til að draga úr kostnaði við tryggingar á virkjunum og öðrum stóreignum fyrirtækisins og stjórnendur Landsvirkjunar sögðu í fyrra að Ríkisendurskoðun, Fjármálaeftirlitið og fjármálaráðuneytið hefðu haft allar upplýsingar um fyrirtækið frá upphafi.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, var spurður út í þetta í fréttum á síðasta ári.

En telurðu við hæfi að Landsvirkjun, sem er í opinberri eigu, eigi aflandsfélag?

„Eftir umræðu síðustu vikna tel ég eðlilegt að það sé skoðað. En það er hins vegar mikilvægt að hafa það í huga að það er ýmiss konar annars konar starfsemi í þessum löndum heldur en þessi aflandsfélög sem við þekkjum. En ég tel algjörlega eðlilegt að stjórn Landsvirkjunar taki það til skoðunar.“

Kemur til álita að breyta þessu fyrirkomulagi?

„Það er þá ákvörðun stjórnar. Þetta er mál sem stjórnin mun ræða.“

Síðan er liðið eitt og hálft ár. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun var málið vissulega rætt í stjórninni og skoðað hvort betra væri að haga tryggingamálunum með öðrum hætti. Niðurstaðan var sú að engu skyldi breytt að sinni.

Til stóð að Orkuveita Reykjavíkur stofnaði dótturfélag á aflandssvæðinu Guernsey til að halda utan um tryggingar fyrirtækisins. Hætt var við það árið 2016 eftir háværa gagnrýni í kjölfar birtingar Panamaskjalanna.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, segir að hugmyndin hafi gengið út á að spara tugmilljónir á hverju ári. „Orkuveitan á umtalsverðar eignir, um 300 milljarða. Sumar eignir í þessu safni eru svo stórar að íslensk tryggingafélög geta ekki tryggt þær. Þau félög sem eiga svona mikið eignasafn hafa mörg farið þá leið að stofna eigið félag og það er þá erlendis, þar sem skattareglur í lögum eru öðruvísi. Í staðinn fyrir það að greiða þetta til tryggingafélaga erlendis. Okkur reiknaðist til að það væru þá svona 50 milljónir á ári sem við gætum sparað með þessum hætti,“ segir hann.

Stjórnin samþykkti stofnun svona félags í febrúar 2015, en það eru eigendurnir, Reykjavíkurborg, Akraneskaupstaður og Borgarbyggð, sem ráða.

Bjarni segir eigendur geta horft á aðra þætti en rekstur. „Við sem stýrum Orkuveitunni erum náttúrulega alltaf að horfa til reksturs. Hvernig getum við hagrætt og sparað í rekstri og auðvitað á þann hátt að það sé allt bæði löglegt og siðlegt. Ákveðnar ákvarðanir verða að fara til eigenda. Ef þeir vilja horfa til einhverra annarra þátta, þá er það alfarið þeirra mál og við eigum engan rétt á skýringu á því.“

Af hverju ekki að gera þetta bara í gegnum íslenskt félag?

„Það er vegna þess að íslensk lög leyfa það ekki að fé sem safnast upp í félögum af þessum toga, á Íslandi, að það sé ekki skattlagt. Rekstrarhagnaður af þessu félagi, hann yrði skattlagður að fullu á hverju ári. Þá er hagkvæmnin að mestu ef ekki öllu leyti farin úr þessari aðferð.“

Þannig að þetta snýst um skattalegt hagræði?

„Sko, það er engum til ógagns. Ríkið fær meira í skatttekjur þegar til lengri tíma er litið heldur en ella, Orkuveitan safnar fé og eigendur Orkuveitunnar sem eru sveitarfélögin og síðan að lokum almenningur, í rauninni kemur þetta öllum betur heldur en það fyrirkomulag sem við höfum í dag.“

Engin leynd lengur

Það eru þó síst fyrirtæki af þessum toga sem athygli fjölmiðla beinist helst að nú. Erlendir fjölmiðlar hafa frá því á sunnudagskvöld birt þó nokkuð af upplýsingum úr Paradísarskjölunum og munu halda því áfram næstu daga við litla hrifningu þeirra sem töldu sig geta falið eignir sínar í aflandsfélögum í friði. Má þar til að mynda nefna poppstjörnurnar Madonnu og Bono og akstursíþróttamanninn Lewis Hamilton.

Sem fyrr snýst þetta ekki endilega um lögbrot - skattsvik – heldur það sem heitir skattasniðganga. Að komast hjá því að greiða skatt í heimalandinu.

Endurteknir lekar af þessu tagi sýna að þeir tímar eru liðnir að hægt sé að reikna með því að svona hlutir fari leynt. Í rauninni eru ekki til nein leyndarmál lengur - poppstjörnur, viðskiptamógúlar, íþróttamenn, stjórnmálamenn, kóngar og drottningar, ég og þú – enginn er undanskilinn. Við fjöllum nánar um það í næsta þætti Kveiks.