Með fjögur börn í miðri hryðjuverkaárás

Sveinn Einar Zimsen og norsk eiginkona hans, Anita Stokka, hafa starfað fyrir Lúterska kristniboðssambandið í Noregi um árabil. Þau bjuggu á Fílabeinsströndinni um skeið en síðustu þrjú ár hefur fjölskyldan búið í Malí. Sveinn og Aníta eiga fjögur börn sem nú eru á aldrinum ellefu mánaða til sjö ára, tvo drengi og tvær stúlkur.

Í júní síðastliðnum kom móðir Sveins í heimsókn. Þau fóru til höfuðborgarinnar Bamako, en þegar var boðað til mikilla mótmæla þar, ákváðu þau að fara í vinsælan sundlaugagarð skammt utan við borgina og dvelja þar eina nótt.

Földu sig undir rúmi

„Við fórum þarna á þennan stað. Leigðum okkur herbergi eða svona kofa. Vorum búin að vera í eina nótt. Svo annan daginn vorum við þarna uppi við sundlaugina, sem lá svona aðeins uppi í fjalli. Svo þegar klukkan var kannski svona hálffjögur ákvað ég að fara með strákana niður í herbergi, þeir voru orðnir þreyttir. Ég ætlaði bara að láta þá leggja sig,“ segir Sveinn Einar.

Drengirnir voru þarna tveggja og fimm ára og dæturnar, hálfs árs og sjö ára urðu eftir hjá móður sinni og ömmu við sundlaugina.

„Bara um leið og ég kom inn í herbergið, þá heyrði ég að það er byrjað að skjóta, það byrjar skothríð fyrir utan. Ég skildi mjög fljótlega hvað var í gangi. Ég sagði við strákana bara: Undir rúm! Ég læsti hurðinni og svo fór ég sjálfur undir rúm. Ég reyndi að hringja í konuna mína sem var uppi á fjalli og hún svaraði og spurði mig hvað væri að gerast. Ég sagði: Þið verðið bara að hlaupa! Þá var hún lögð af stað – fjallið heldur áfram upp eftir sundlaugina uppeftir svona.“

Ólöf P. Alfreðsdóttir. (Mynd Kveikur/RÚV)

Byssuskot og eldur en ekki flugeldar

Ólöf P. Alfreðsdóttir, móðir Sveins Einars, var stödd í sundlaugargarðinum með tengdadóttur sinni og tveimur barnabarnanna þegar árásin átti sér stað. „Ég held fyrst að þetta sé bara flugeldasýning af því að ég vissi að það var afmæli þarna neðar í fjallinu,“ segir hún.

Hún áttaði sig þó fljótt á því að þetta voru ekki flugeldar. „En svo sá ég auðvitað enga flugelda og ég fattaði það fljótlega að það væri verið að skjóta á okkur, því fólk var skelkað og hljóp í allar áttir. Og ég hugsaði sem svo að ég gæti nú ekki synt til Anítu, því hún væri hinum megin við laugina, ég yrði bara að klöngrast upp kletta sem voru bak við mig. Klettarnir voru skarpir og ég skar mig á fótunum. Það voru þarna tveir hermenn með okkur. Annar sagði nú voða lítið og hann var ekki með byssu, náði ekki að ná í sína byssu,“ segir hún.

„Aníta náði símanum og var með símann með sér og hún gat sms-að til Sveins Einars sem var undir rúminu. Svo varð Aníta batteríslaus svo við vissum ekki meira af þeim. Auðvitað hugsaði ég mikið um Svein Einar og strákana þarna niðri. Ég hugsaði jafnvel: Fer ég í kistu heim eða fara þeir í kistu heim? Skothríðin út um allt og svo sá maður eldinn, þeir voru að kveikja í staðnum og reykurinn og allt þetta.“

Alltaf upplifað sig örugg

Fjölskyldan er ekki ókunn Malí og segir Sveinn þau hafi kynnst landinu í gegnum störf sín.

„Við höfum verið í Malí, sem er náttúrulega múslímskt land. Þar höfum við verið með bæði svona þróunarverkefni og hjálparstarf. Við viljum vera í þorpum fyrir fólkið sem býr þar. Við notum tímann til að kynnast þeim, vera með þeim og hjálpa þeim með það sem við getum,“ segir hann.

Það hefur verið töluverður óróleiki í Malí undanfarin ár. Al-Kaída hefur náð þar fótfestu eftir borgarastríðið í Líbíu og bardagar og hryðjuverk verið nokkuð algeng, einkum í norðurhlutanum. Fyrir tæpum tveim árum réðist hópur vígamanna til að mynda inn á Radisson Blu hótelið í Bamako, tók 170 gísla og myrti tuttugu þeirra.

„Malí er náttúrulega risastórt land. Óróleikinn sem hefur verið, það hafa verið bæði hryðjuverkahópar og ýmis pólitísk vandamál, hefur að mestu leyti verið í norðri. Mjög langt frá því þar sem við höfum búið,“ segir Sveinn Einar. „Við höfum náttúrulega verið þarna með krakka. Og við höfum búið alveg í suðri. Okkur hefur alltaf fundist við örugg.“

Fjölskyldan hefur varið tíma í Malí áður, í hjálparstarfi og þróunarverkefnum. (Mynd úr einkasafni)

Náðu að svæfa yngstu stúlkuna

Garðurinn þar sem fjölskyldan dvaldist hefur einmitt verið álitinn mjög öruggur, því þar í grennd eru búðir friðargæsluliða og erlendra hersveita sem hafa aðstoðað malísk yfirvöld í baráttunni við íslamska hryðjuverkahópa. Hermenn venja líka komur sínar þangað á frídögum.

„Svo biðum við örugglega í klukkutíma, einn og hálfan tíma í felum,“ segir Ólöf. En hvernig tókst þeim að halda fimm mánaða barni og sjö ára rólegum allan þennan tíma? „Þetta var ótrúlegt, það var bara einhvern veginn ró yfir öllu. Það heyrðist aðeins í litlu stelpunni af því að hún var náttúrulega ekki búin að drekka neitt. Hún var með pela, svo við tókum á það ráð að Aníta myndi bara pissa í pelann og gáfum henni aðeins að drekka og við það róaðist hún og sofnaði.“

Ólöf segist hafa upplifað skotin geiga rétt við hlið sér. „En við sátum þarna bara í felum og við sáum skotin bara...manni finnst þau vera nálægt sér, það er kannski 2-300 metra frá okkur, það bara fjúmm, komu þau bara svona og laufblöðin flöksuðu til og frá, sum lentu í trjánum og það er svo mikil ferð á þessu að ég hugsaði að ef þetta færi í mann færi þetta bara gegnum mann,“ segir Ólöf.

Þú sást beinlínis skotin?

„Það var skotið sitt hvorum megin við okkur. Það var svo ótrúlegt að Aníta, jú, hún gat sent sms til Kristniboðssambandsins sem hún er að vinna hjá, eða þau og Sveinn Einar líka og ég trúi því bara að það hafi verið bænarandi eða bænarher í kringum okkur, því þeir voru fyrir neðan okkur, en þeir skutu sitt hvorum megin við okkur. Og að við skyldum ekki vera þarna eða þarna, að við skyldum vera hér. Þannig að þetta var bara ótrúlegt hvað við vorum vernduð þarna á fjallinu,“ segir hún.

Feðgin að skemmta sér í sundlaugagarðinum. (Mynd úr einkasafni)

Sagðist ekki vita hvað væri í gangi

Sveinn reyndi að gera lítið úr atvikinu á meðan þeir feðgar lágu undir rúmi. „Sko þegar þetta byrjaði og ég sagði: Drífið ykkur undir rúm! og við fórum undir rúm, þá eftir smástund spurði elsti strákurinn minn hvað þetta væri. Ég sagði nú svona: Ég veit ekki alveg hvað þetta er. Hann lagðist þá bara niður. Svo eftir smástund þá sagði hann: Pabbi, ég held ég viti hvað þetta er. Já, hvað heldurðu að þetta sé? Ég hugsa að þetta sé einhverjir þjófar og svo er löggan örugglega komin að taka þá, því mér heyrist þetta vera fólk að skjóta. Þá sagði ég: Já, ætli það sé ekki bara rétt hjá þér,“ segir hann.

„Við vorum þarna undir í níu tíma. Ég var náttúrulega að reyna að láta þá vera rólega yfir þessu, þannig að þeir væru ekki með læti. Ég tók til dæmis poppkornspoka sem ég fann og hellti honum á gólfið svona. Þeim fannst það fyndið og skemmtilegt og voru að tína þetta upp í sig og borða þetta. Ég reyndi að hafa ofan af fyrir þeim.“

Fengu skjól hjá hermönnum

Ólöf segir að þær stöllur hafi haldið áfram upp fjallið. „Þegar við vorum búnar að labba þarna aðeins, þá kom spænskur hermaður á móti okkur. Hann var með vatn og gat gefið okkur að drekka og þarna voru fleiri hvítir og þarna voru menn með stór laufblöð sem þeir löbbuðu bara svona á, því þeir voru allir sárfættir,“ segir hún.

Allir bara á sundfötunum?

„Já, allir bara á sundfötunum. Hann hringdi þá, spænski hermaðurinn í einhvern og þá kom maður úr næsta þorpi með poka og þar voru skór, nýjir skór. Og hann sagði: Ég ætla að fylgja börnum og konum niður fjallið. Svo bara byrjum við að labba af stað og hann tók þessa sjö ára á herðarnar á sér og hann hélt á henni alla leiðina,“ segir hún.

„Við löbbuðum í einn og hálfan tíma. Svo kveikir hann á vasaljósi og þá er skotið á okkur. Við hendum okkur öll í jörðina. Og þegar við komum í þorpið að þá erum við náttúrlega bara á bikiníinu og þorpsbúar horfa á okkur. Í þeirra augum er þetta eins og að vera nakinn, því að vera í engum fötum...maður yfirleitt hlífir öllu, helst hárinu og öllu.“

Á þessum tímapunkti tóku aðrir hermenn á móti þeim og komu þeim inn í brynvarinn bíl. Þar var þeim sagt að bíða eftir norskum hermönnum sem myndu sækja þær. „Það var svo gott að heyra norskuna þegar þeir komu og sögðu að þeir ætluðu að fara með okkur í norsku herbúðirnar,“ segir hún.

Fjölskyldan var stödd í Bamako þegar árásin átti sér stað. (Mynd Kveikur/RÚV)

Bað á meðan hann faldi sig

Geturðu lýst tilfinningunni þegar þú liggur undir rúmi, þú veist að konan þín, dætur þínar tvær og móðir þín eru þarna einhvers staðar úti á vettvangi? Og þú getur ekkert farið af því að þú ert með önnur tvö börn undir rúmi og það er skothríð í kringum þig.

„Ég er náttúrulega trúaður maður. Það sem ég gerði var að biðja. Og ég er alveg viss um það að við vorum með einhverja englavernd þarna yfir okkur. Við vorum náttúrulega í miðjum skothríðunum og öllu. Ég var náttúrulega rosa hræddur um stelpurnar, konuna mína og stelpurnar – og mömmu. Ég var mikið að hugsa um þær þegar ég heyrði að skothríðin fór svona upp eftir fjallinu. Ég vissi að þær væru komnar eitthvað aðeins í burtu og þær voru með manni sem kunni til verka. Ég var líka mjög hræddur um okkur þar sem við lágum þarna undir. Það var verið að skjóta fyrir utan og það hrundi úr þakinu hjá okkur,“ segir Sveinn Einar.

„Skot hæfðu kofann og að minnsta kosti einu sinni kom skot í gegnum þakið. Þetta er náttúrulega svona stráþök, bara. Ég var samt ótrúlega rólegur. Ég var hræddur, en samt ekki í neinu paniki. Kannski af því að ég var að tala mikið við strákana, það var mikið að gera. Ég er alveg viss um að það var einhver vernd yfir okkur. Þetta var alveg eins og að vera í miðju stríði, inni í einhverri kúlu.“

Fimm skotnir til bana

Vígamennirnir höfðu keyrt inn um hlið garðsins á jeppa, hrópandi allahu akhbar og hafið skothríð. En þar sem margir hermenn á frívakt voru staddir í garðinum og höfðu vopn sín meðferðis, var þegar tekið á móti og það sló þá greinilega út af laginu. Fyrir vikið tókst flestum gestanna að flýja á hlaupum. Fimm voru þó skotnir til bana, þar á meðal kínverskur ungur maður sem hafði verið með þeim við laugina og náði ekki að forða sér á hlaupum.

Stór hópur var einnig tekinn í gíslingu – en sá samanstóð að mestu af malískum borgurum og var sleppt ómeiddum að lokum. Sveinn fékk á endanum sms um að Aníta, dætur þeirra og móðir hans væru allar heilar á húfi og að hermenn kæmu að sækja þá feðga þegar hættan væri liðin hjá.

Sveinn segist hafa séð vasaljós nálgast. „Það var náttúrulega orðið dimmt – ég svaraði þeim ekki, en þeir komu inn samt. Þeir sögðu: Ef það er einhver hérna inni, gefðu þig til kynna! Svo ég ræskti mig aðeins. Og þá sáu þeir að þetta var ég, eða sáu að það voru krakkar þarna. Eða þeir sögðu það: Það eru krakkar hérna, það verður að fara rólega í þetta,“ segir hann. „Svo vorum við keyrðir í þeirra herbúðir, þar sem að ég hitti konuna mína og fjölskylduna alla.“

Mynd: RÚV

Fjölskyldan var á Íslandi í sumar. (Mynd Kveikur/RÚV)

Tóku óvænt auka dag

Ólöf segir það í raun hafa verið tilviljun að þau hafi ekki verið á bílastæðinu þar sem árásarmennirnir hófu skothríðina.

„Vegna þess að við ætluðum að vera bara eina nótt á sundstaðnum, en ákváðum að vera tvær nætur, því við ætluðum að fara í siglingu daginn eftir. Og ef við hefðum farið eftir eina nótt, eða farið þegar við ætluðum að fara, þá hefðum við bara verið að bera í bílinn, farangurinn, þegar hryðjuverkamennirnir komu. Það hefði akkúrat passað að við hefðum bara farið í fangið á þeim. Þá hefðum við náttúrulega verið öll skotin, því bíllinn var sprengdur upp og brotnar rúður og allt saman,“ segir hún.

„Maður er aldrei óhultur neins staðar. Það á að nýta lífið og nota það vel, meðan maður lifir því. Það er einhvern veginn dýrmætara lífið eftir svona reynslu. Maður vill svona láta gott af sér leiða í lífinu.“

Aftur til Afríku

Sveinn Einar segist hafa upplifað það besta og verast þennan dag.

„Við hittum kannski eitthvað af því versta sem mannkynið hefur upp á að bjóða, en á sama degi mættum við fullt af fólki sem var, sem kannski sýndi okkur það besta sem mannkynið hefur upp á að bjóða. Þau tóku utan um okkur og krakkana og hjálpuðu okkur á alveg ótrúlegan hátt,“ segir hann.

Þrátt fyrir þessa erfiðu lífsreynslu fer því fjarri að fjölskyldan hafi fengið nóg af Afríku. Þau fara þó ekki aftur til Malí, heldur til Abijan á Fílabeinsströndinni. Það er enginn uggur í þeim og börnin hlakka til, enda hafa þau búið þar áður og eiga vini frá fyrri tíð.

„Svona eins og ég hugsa það, þá er þetta svo sem ekki öðruvísi en einhver hryðjuverk sem gerast í London eða París. Maður er óheppinn, maður er á vitlausum stað. Ég þekki Afríku og hef búið þar í nokkur ár og mér líður vel þar. Við erum með vinnu sem okkur líkar vel við og krökkunum líður vel. Þetta er okkar heimili, krakkarnir eru náttúrulega aldir upp í Afríku, allir,“ segir hann.

„Ef að til dæmis einhver á heima í London, þá er þessi persóna ekki alltaf spurð eftir eitthvert hryðjuverk hvort hún þori að vera í London. Kannski er það þannig að við þekkjum London, við þekkjum París þannig að við náum að hugsa að þetta sé eitthvað sem ekki gerist fyrir okkur. Það er jafn ólíklegt að þetta gerist fyrir okkur í Afríku.“