Kynlífstæki hökkuð og tekin yfir

Sérfræðingar Syndis sem Kveikur ræddi við um tölvuöryggismál hafa kannað mörg mismunandi tæki sem eru hluti af hinu svokallaða „internet of things“, eða internetið alls staðar.

„Við athuguðum öryggi kynlífsleikfanga eins og lítilla titrara sem má stjórna með appi. Og komumst að því að tenging þeirra við síma var ekki mjög traust, leikfangið sjálft var ekki tryggt,“ segir Charlie Eriksen, öryggissérfræðingur hjá Syndis.

Charlie Eriksen, öryggissérfræðingur hjá Syndis. (Mynd Kveikur/RÚV)

„Samskipti þess við netþjóninn og aðra notendur voru að mörgu leyti tæp. Og það miðlaði mjög viðkvæmum upplýsingum til fyrirtækisins sem framleiddi það.“

Gögnin innihéldu meðal annars upplýsingar um fullnægingar notenda titrarans. „Og þeir höfðu þau gögn og ef þau yrðu aðgengileg væri það meiriháttar klúður.“