Kjarnorkukafbátar í auknum mæli við Ísland

Kjarnorkukafbátar í auknum mæli við Ísland

Fleiri rússneskir kjarnorkuárásarkafbátar eru á ferð umhverfis Ísland nú en voru í kalda stríðinu. Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld. Innan Atlantshafsbandalagsins er lögð áhersla á að efla kafbátaeftirlit og tryggja yfirráð NATO yfir hafsvæðinu umhverfis Ísland, hið svokallaða GIUK-hlið, frá Grænlandi til Íslands og yfir að Bretlandseyjum.

Skýrsla rannsóknarstofnunarinnar Center for a New American Security. (Mynd Kveikur/RÚV)

Gallinn er að hvorki innviðirnir né kunnáttan eru lengur til staðar. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu rannsóknarstofnunarinnar Center for a New American Security, sem stóð fyrir sérfræðingaæfingu í Washington í vor. Þar voru æfð viðbrögð við þremur atburðarásum:

Ein snerist um að Rússar trufluðu sjóheræfingar NATO á Norður-Atlantshafi, meðal annars samskipti. Önnur gekk út á viðbrögð NATO við harðari bardögum í Úkraínu og að þangað yrðu sendar hersveitir og vopn, en Rússar reyndu að trufla þá flutninga.

En það er þriðja atburðarásin sem er áhugaverð fyrir Íslendinga – þótt hún kunni að hljóma fjarstæðukennd í meira lagi. Æfð voru viðbrögð við því að Rússar skiptu sér af þingkosningum á Íslandi, með álíka hætti og þeir eru sakaðir um að hafa gert til dæmis í Bandaríkjunum. Tilgangur þessa væri að koma til valda forsætisráðherra sem væri Rússlandi hliðhollur. Hún – en í æfingunni er þessi kandídat kona – lofaði því að stöðva loftrýmiseftirlit við Ísland og að stöðva alla flutninga hersveita og vopna um landið. Og áfram hélt æfingin, því á meðan NATO átti að bregðast við þessum óvæntu tíðindum yrði skyndilega rof á mikilvægum sæstreng milli Íslands og Kanada.

Ályktanirnar sem dregnar voru af þessum hluta æfingarinnar væru þær, að þótt þrýst væri á NATO-ríkið að verja meira til varnarmála, yrði framlag Íslands aldrei metið út frá þeim mælikvarða, heldur legu landsins, slíkt væri hernaðarlegt mikilvægi Íslands. Þótt Íslendingar settu ekki krónu í herbúnað eða hersveitir sýndi æfingin með afgerandi hætti fram á að engin leið væri að verja hagsmuni Atlantshafsbandalagsins án þess að Ísland væri inni í þeirri mynd.