Kenna stelpum og strákum á ólíkan hátt

Eitt af því sem mælist eiginlega alltaf í öllum könnunum og prófum á lestri barna er kynjamunur.

Stelpur mælast með betri lesskilning í öllum 72 þátttökulöndum PISA en strákarnir okkar eru óvenju illa staddir. Hvernig skyldi þetta þá virka í kynjaskiptu kerfi?

Í Hjallastefnuleikskólum eru deildirnar kynjaskiptar og þar læra börnin að lesa veturinn áður en þau byrja í skóla. Skólastjórinn í Barnaskólanum sem fær þau svo til sín í 1. bekk, segir að ekki sé merkjanlegur munur á kynjunum þegar þau hefja þar nám. En þeim er líka kennt á mismunandi hátt.

„Í stuttu máli sagt, að þá er kennslan þannig byggð upp að það er verið að koma til móts við ólíkar þarfir kynjanna. Öll bakvinnan inni í kennslustofunni, kennslufræðilega, er ólík,“ segir Hildur Sæbjörg Jónsdóttir, skólastýra Barnaskóla Hjallastefnunnar í Hafnarfirði.

„Þá er til dæmis verið að vinna stutt og snarpt með drengi, fljótt, örugglega og frekar farið aftur yfir efnið, á meðan vinnustundirnar eru jafnvel lengri hjá stúlkum en alltaf með sömu markmið í huga.“

Barnaskólinn kennir upp í 4. bekk og þegar niðurstöður lesskimana síðustu ára eru skoðaðar kemur í ljós að það hallar jafn oft á stúlkur og drengi. Það skal tekið fram að skólinn er lítill og hóparnir þar með fámennir - því vegur hver nemandi meira, en skólastýran er sannfærð um hverju beri að þakka árangurinn.

„Þannig að í raun og veru voru bara tveir árgangar sem voru með drengi í forystu og tveir árgangar sem voru með stúlkur í forystu. Þannig að á hvorugt kynið hallaði,“ segir Hildur. „Mitt mat er það að þessi kennslufræðilega, ólíka nálgun hafi gríðarlega mikið að segja í því að við erum ekki að sjá þennan afgerandi mun eins og við erum að sjá í PISA og öðrum stöðum þar sem verulega hallar á drengi.“

Þessi umfjöllun er hluti af umfjöllun Kveiks um læsi á Íslandi.