Inn fyrir landamæri Jemens

Sameinuðu þjóðirnar telja þetta skelfilegasta ástand samtímans. Fimm þúsund börn hafa látið lífið og fjögur hundruð þúsund til viðbótar eru alvarlega vannærð.

Við erum að tala um Jemen þar sem þjóðin öll er reyndar algjörlega háð neyðarhjálp, sem ekki berst nema í litlum mæli vegna hafnarbanns og einangrunar landsins.

Íbúar Jemens hafa áður verið nokkurs konar gíslar í átökum stórvelda. Að þessu sinni berjast tvær meginfylkingar um landið með stuðningi Írans annars vegar og Sádí Araba og bandamanna þeirra hins vegar.

Sádi Arabar hafa sett landið í slíka herkví að erfitt er að koma hjálpargögnum til landsins og fréttum og upplýsingum frá landinu.

Engu að síður tókst fréttaritara RÚV, Jóni Björgvinssyni, með aðstoð Sameinuðu þjóðanna að ná til Jemens og koma þaðan einu fréttamyndunum sem borist hafa frá landinu á síðustu vikum. Frásögn hans er birt í Kveik í kvöld.