„Í tannhjólum kerfis sem étur þau lifandi“

Enginn sá fyrir afleiðingar þess þegar fjölskylda var tilkynnt til Barnaverndarnefndar Reykjavíkur vegna gruns um að barn hafi verið hrist.

Full ástæða var til þess að taka málið til skoðunar, því eru foreldrarnir sammála, en málið tók verulega langan tíma í meðferð bæði lögreglu og barnaverndar. Svo langan að foreldrunum hafa verið dæmdar bætur vegna þessa. En af hverju?

Fjölskyldan sem hér er til umfjöllunar var svona samansett: Foreldrarnir tóku saman á menntaskólaárunum. Barnanna vegna getum við auðvitað ekki sagt hvað þau heita en þau eignuðust sitt fyrsta barn upp úr tvítugu, litla stúlku. Sex árum síðar voru þau bæði í háskólanámi og eignuðust annað barn haustið 2012, myndarlegan dreng. Að auki var fjölskyldan svo heppin að hafa fengið úthlutað íbúð á stúdentagörðunum og bjó því í öruggu húsnæði. Drengurinn þyngdist og stækkaði hratt, þegar hann var tæpra níu mánaða var hann orðinn rúm tíu kíló. Þá dundi ógæfan yfir. Hann varð veikur.

Datt í stofunni heima

Læknir barnsins, Geir Friðgeirsson, sérfræðingur í barnasjúkdómum, tók við honum í skoðun 27. maí árið 2013. „Þá er hann orðinn verulega veikur og ég set hann á meðferð, sýklalyfjameðferð. Í framhaldi af því þá virðist hann ekki svara á meðferðina og hann er settur á annað lyf, fær útbrot og í framhaldi af því kemur hann á bráðamóttöku Barnaspítalans. Þá er hann talsvert veikur og þá fær hann svokallað rósefalín, sem er sterkt sýklalyf sem er gefið í vöðva,“ segir hann.

Móðir drengsins, sem ekki kemur fram undir nafni, fór svo með hann í endurkomu. „Við áttum að mæta klukkan ellefu og svona upp úr kannski kortér yfir tíu þá fer ég að hafa mig til fyrir spítalann. Og þegar ég stend í eldhúshurðinni og sé að hann stendur við kaffiborð hjá pabba sínum, missir fæturna undir það og skellur á hnakkann. Bara eins og maður myndi detta á svelli, engin viðstaða. Lenti ekki fyrst á rassinum eða neitt, náttúrulega lítill og bar ekki fyrir sig hendurnar. Drengurinn grætur ofboðslega mikið en sofnar svo hjá mér,“ segir hún.

Hann gubbar svo og kúgast í bílnum á leiðinni á spítalann og er fölur og fár þegar þangað er komið. Móðirin lætur vita af því að hann hafi dottið á hnakkann og að hún telji að hann sé með heilahristing. Barnið er á endanum sett í sneiðmyndatöku og í ljós kemur töluverð heilablæðing vinstra megin í höfðinu. Þá vaknar grunur um að barnið hafi verið beitt ofbeldi, augnlæknir skoðar drenginn og sér blæðingar í augnbotnum. Við svo búið sendir læknir á vakt tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur. Þetta var 3. júní 2013.

Gripið til ráðstafana á spítalanum

„Hann var innst á ganginum en var síðan færður beint fyrir framan borðið þar sem hjúkrunarfræðingar og læknar og allir eru,“ segir móðirin. „Mig grunaði aldrei að það væri vegna þess að ég var talin hættuleg barninu, heldur hélt ég að barnið væri í hættulegum aðstæðum. Þangað til að okkur hjónum var tilkynnt að vaknað hefði grunur um að við hefðum hrist hann - eða að hann hefði verið hristur. Í kjölfarið var hann sendur í röntgenmyndatöku frá toppi til táar þar sem leitað var eftir einhverjum misfellum í beinum eða einhverjum ummerkjum um gamla áverka. Það var ekki, að sjálfsögðu. Ég hélt að við myndum hitta starfsmenn barnaverndar og hafði náttúrulega aldrei áhyggjur vegna þess að við sáum öll þegar barnið datt.“

Á fundi með Barnavernd var foreldrunum tilkynnt að drengurinn yrði tekinn úr þeirra umsjá og vistaður á vistheimili barna á meðan lögreglan rannsakaði málið.

Hefði viljað tilkynna barnavernd

Stökkvum núna fram um þrjá mánuði og lítum í greinargerð ritaða af barnasálfræðingi um andlega líðan eldri systurinnar. Það er kominn september og hún er orðin sjö ára og sjö mánaða. Svona var henni lýst áður en málið hófst:

,,[Hún] hefur ávallt verið fyrirmyndarbarn, geðþekk stúlka með sterka sjálfsmynd … prúð, hlýðin og félagsþroskinn góður. Hún hefur verið vinamörg og gengið vel í skóla.""

En svona er lýsing sálfræðingsins í september:

„[Stúlkan] hefur sýnt aukna vanlíðan auk alvarlegra hegðunarbreytinga og er ljóst að inngrip barnaverndaryfirvalda sem hafa haft það að markmiði að vernda bróður hennar, hafa skaðað hana að verulegu leyti.

...Þegar barnaverndaryfirvöld eru ábyrg fyrir inngripum sem hafa þetta alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir stúlku eins og [nafn], telur undirrituð alvarlega brotalöm vera í meðferð og vinnslu barnaverndarmála hér á landi sem vert er að vekja athygli á og ekki síður betrumbæta.

Er það mat undirritaðrar að stúlkan þurfi á sérhæfðri áfallameðferð að halda og telur það hafið yfir allan vafa að ekkert annað geti valdið hegðunarbreytingum hennar og þessari miklu vanlíðan, en inngrip barnaverndaryfirvalda...

Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að tilkynna um aðstæður hennar til barnaverndaryfirvalda, en væru kringumstæður aðrar, hefði undirrituð ekki hikað við að gera slíkt.“

Sem sagt: þremur mánuðum eftir að Barnavernd Reykjavíkur fær tilkynningu frá Barnaspítalanum um grun um ofbeldi gagnvart níu mánaða gömlu barni, hefur eldri systir þess hlotið slíkan skaða af meðferð Barnaverndar á fjölskyldu hennar – að barnasálfræðingur myndi tilkynna það til barnaverndaryfirvalda, ef þau bæru ekki sjálf ábyrgð á því.

Tjáir sig ekki um málið

Hvernig gerðist þetta? Hvað fór úrskeiðis? Barnaverndarstofa er miðlæg yfirstofnun barnaverndarnefnda um allt land og sinnir bæði ráðgjöf og eftirliti með þeim.

„Það sem er kannski algengast í þessum málum og á við í þessu sérstaka tilviki er að það misheppnast að koma á fót jákvæðu samstarfi á milli barnaverndarinnar og foreldranna. Þetta áfall kallar á það að við umlykjum foreldra með hlýju og virðingu í allri okkar aðkomu. Ef við gerum það ekki, þá er voðinn vís. Í þessu máli er ljóst að eitthvað hefur þarna farið úrskeiðis,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sem hefur gert athugasemdir við meðferð þessa tiltekna máls.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, vill hins vegar ekki tjá sig um málið, nema almennt. „Þegar við fáum athugasemdir frá Barnaverndarstofu vegna vinnubragða Barnaverndar Reykjavíkur, þá tökum við það alltaf mjög alvarlega, rýnum það og lærum af því til þess að geta þá gert betur í framtíðinni. Hvað varðar hins vegar einstök efnisatriði eða feril þessa máls í heild sinni, að þá get ég ekki rakið það hér í þessu viðtali. Ég get hins vegar talað við þig almennt,“ segir hún.

(Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Settur á vistheimili

Hverfum þá aftur til júnímánaðar 2013. Búið var að ákveða að drengurinn yrði vistaður á vistheimili barna fyrst um sinn á meðan lögreglan rannsakaði málið. Það vildi svo heppilega til að það var lítið að gera á vistheimilinu og því gat móðirin fylgt drengnum sem var enn á brjósti. Annars hefði hann verið sendur þangað einn.

Móðirin segir það hins vegar hafa verið eins og að vera í fangelsi. „Þó mér hafi náttúrulega verið frjálst að fara þannig séð, að þá held ég að fæstir foreldrar myndu skilja 9 mánaða gamalt barn, sem er að jafna sig eftir heilablæðingu, eftir hjá ókunnugum. Þegar - þá sjaldan að við heyrðum í starfsmönnum Barnaverndar - þá var það bara til þess að tilkynna okkur um framlengingu á dvölinni. Ekki um neina framvindu málsins,“ segir hún.

„Þegar upp kemur grunur um að barn hafi verið beitt ofbeldi af ástvini sínum að þá er það mikið álag á fjölskyldu. Þá er reynt að nálgast málið af eins miklu meðalhófi og okkur er kostur, án þess þó að það bitni á því öryggi sem við teljum að við verðum að tryggja því barni sem grunurinn beinist að, að hafi verið beitt ofbeldi.“

„Við vorum með lögfræðing með okkur, sem talaði máli okkar og reyndi nú að þrýsta eftir rannsókn. Ég hélt ég yrði þarna í nokkra daga, bara svona rétt á meðan við fengjum að kynnast starfsmönnum Barnaverndar, þau kynntust okkur og fengju að sjá hvernig dýnamíkin væri bara milli okkar þá kjarnafjölskyldunnar og stórfjölskyldunnar. En svo var ekki. Við vorum bara þarna, í geymslu. Og það gerðist ekkert,“ segir móðir drengsins.

Málið til rannsóknar hjá lögreglu

Eftir að lögfræðingurinn hafði þrýst mikið á þau kom í ljós að Barnavernd ætlaði bara að bíða eftir niðurstöðu lögreglu í málinu.

„Lögreglan hefur sínar rannsóknarskyldur út frá sakamálapartinum og slík rannsókn getur tekið heilt ár. Barnaverndin hins vegar þarf ekki og á ekki að hafa slíkan tíma. Hún hefur sínar sjálfstæðu rannsóknarskyldur. Þær miða að því að leiða í ljós foreldrafærnina. Styrkleika fjölskyldunnar og hugsanlega veikleika. Ef í ljós kemur að allt þetta er í góðu lagi og það virðist vera eðlileg og heilbrigð fjölskylda og engin saga er um neitt misjafnt að þá þarf barnaverndin ekki að aðskilja barn og foreldri mjög lengi,“ segir Bragi.

„Það er hægt að setja stuðningsaðila eða umsjónaraðila inn á heimilið. Það getur verið einhver nákominn, afi eða amma eða systkini foreldra. Aðskilnaður þarna í fleiri mánuði er að mínu viti illskiljanlegur ef að engin gögn við könnun málsins koma fram sem benda til þess að slíkt sé nauðsynlegt. Það er engin ástæða fyrir Barnavernd að bíða eftir því að lögreglan ljúki sinni sakamálarannsókn.“

Það er rétt að taka það fram að svo virðist sem þessi fjölskylda hafi ekki átt neina sögu neins staðar - ekki í réttarvörslukerfinu, heilbrigðiskerfinu, hjá Barnavernd eða félagsmálayfirvöldum. Það er hvergi neitt að finna sem bendir til þess að eitthvað hafi skort á uppeldishæfni foreldranna - sem er líklega ástæðan fyrir því að Barnavernd lét þau aldrei gangast undir slíkt mat.

Ekki hægt að fullyrða að barnið hafi verið hrist

  1. júní, þegar drengurinn hafði verið í vistun í viku sendi Geir Friðgeirsson, sérfræðingur í barnalækningum, frá sér greinargerð að ósk lögmanns foreldranna.

Í greinargerðinni segir meðal annars: „Mér finnst ekki rétt að fullyrða að hér sé um SBS að ræða því hann hefur ekki fengið blæðingu í heilavefnum og ekki heilabjúg. Þá hafa engar taugaskemmdir greinst. Blæðingarnar í augnbotnunum eru örugglega vegna mikillar áreynslu hans við hósta, uppköst og átök föður við að fá hann til að anda eins og að framan er lýst.“

Geir segir í samtali við Kveik að hann hafi talið foreldrana gera sitt besta. „Ég taldi þetta þannig að þau væru fyrst og fremst að gera það besta með mjög veikt barn,“ segir hann en í greinargerðinni segir hann að það sé ,,mjög röng ákvörðun að taka drenginn frá foreldrum sínum, sem hafi gert sitt besta í miklum veikindum hans...""

Geir Friðgeirsson, læknir barnsins. (Mynd Kveikur/RÚV)

Fékk að fara til ömmu og afa

Rekjum nú söguna aðeins áfram. Eftir að drengurinn hafði verið vistaður í hálfan mánuð á vistheimili barna og svo virtist sem ætti að halda honum þar, þar til lögreglurannsókn lyki, ákvað fjölskyldan að athuga hvort mögulegt væri að vista barnið á heimili föðurafa síns og ömmu, fyrst hann mátti ekki fara heim til foreldranna og vera þar undir eftirliti.

„Starfsmaðurinn, félagsráðgjafinn, sem sá um okkar mál fór þá út úr herberginu og hringdi í deildarstjórann sinn sem gaf grænt ljós á það fyrirkomulag. Það auðvitað var dásamlegt að komast þaðan út. En á móti kemur að stjórnvald má aldrei beita meiri þvingunarúrræðum en talin eru nauðsynleg. Þannig að ef það kom til greina af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur að vista barnið hjá ættingjum en ekki inni á vistheimili þá hefði það átt að bjóðast foreldrum.“

Einhverra hluta vegna voru kröfurnar þó hertar við þessa ráðstöfun, en síðustu vikuna á vistheimilinu hafði þeim verið heimilt að fara í eftirlitslausar gönguferðir og „að umgangast fjölskyldu sína á eigin vegum.“

Móðirin furðar sig á þessu. „Við það að hann var vistaður hjá afa og ömmu sinni að þá allt í einu máttum við ekki lengur vera ein með honum. Þannig að það þurfti alltaf annað hvort þeirra að vera með okkur eða þau að fá einhvern þriðja aðila til að passa,“ segir hún.

Að þremur vikum liðnum óskuðu þau svo eftir því að vista drenginn hjá móðurforeldrunum og var það leyfi veitt sömuleiðis. Þar bjó svo litla fjölskyldan, inni á móðurömmunni, eiginmanni hennar og ungri dóttur þeirra, mánuðum saman og annaðhvort amman eða stjúpafinn þurfti að vera með drengnum allan sólarhringinn, því foreldrarnir máttu ekki vera einir með honum.

Á þessu þriggja mánaða tímabili þar sem vistun hjá öfum og ömmum átti sér stað kom aldrei starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur. Aldrei var komið í heimsókn til að líta á drenginn, samkvæmt móðurinni, né til að athuga hvort hann væri einn með foreldrum sínum.

Þannig að þótt kröfurnar væru hertar, án þess að ástæða væri gefin upp fyrir því - þá var eftirlitið ekki neitt. Ekkert. Það var aldrei litið inn til þeirra og athugað hvernig börnin plumuðu sig í þessum aðstæðum.

Gerðu kröfu um að fá barnið

Þegar leið á haustið og ekkert gerðist, undirbjó lögmaður foreldranna kröfugerð þess efnis að þau fengju drenginn aftur í sína umsjá og gætu farið með hann heim til sín. Bæði eldri systirin og foreldrarnir höfðu, þegar þarna var komið, beðið mikinn skaða að mati sálfræðinga. Þá ákvað Barnavernd Reykjavíkur á meðferðarfundi í byrjun október að þau mættu fá drenginn til sín aftur.

„Það er mat starfsmanna að það þjóni hagsmunum hans best við núverandi aðstæður að fara aftur í umsjá foreldra sinna, þrátt fyrir að enn liggi ekki fyrir niðurstöður lögreglurannsóknar,“ sagði í ákvörðun barnaverndar. Enginn frekari rökstuðningur fylgir, annar en sá að fjölskyldunni líði greinilega illa.

Móðirin segist þá hafa óskað eftir rökstuðningi. „Lögmaður minn bað um rökstuðning fyrir því enda hafði málið efnislega ekki breyst. Ég man nú ekki nákvæmlega hvernig það er orðað en eitthvað á þá leið að börnin virðast dafna vel eða álíka. Sem er vissulega rétt. En það var engin leið fyrir starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur til þess að vita það, þar sem þau höfðu ekki hitt börnin,“ segir hún.

Í ljósi þess að ávallt á að beita „vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt“, þá er eðlilegt að spyrja - ef aðstæður höfðu breyst þannig að það þótti ekki nauðsynlegt lengur að aðskilja barn og foreldra og vista það utan heimilis, hvers vegna lét Barnavernd ekki vita af þeirri þróun málsins? Og hvert markmiðið væri?

Við því fæst ekki beint svar því Barnavernd Reykjavíkur veitir ekki upplýsingar um einstök mál. En staðreyndin er sú, að það hafði ekkert breyst í málinu, ekki hafði verið fylgst með börnunum síðustu mánuði og allt í einu máttu þau bara fara heim. En þessi óvissa er það sem lék fjölskylduna verst, þau vissu aldrei hvað þau þyrftu að gera til þess að fá drenginn til sín aftur.

„Það er vissulega leiðinlegt til þess að vita ef fólk hefur upplifað það þannig. Ég get raunverulega bara sagt það, án þess að fara í efnisatriði málsins. Við viljum að fólk hafi skilning á því sem við erum að gera. Ef um lögreglumál er að ræða þá höfum við ekki fulla stjórn á tímaás hjá lögreglu, það getur tekið langan tíma,“ segir Halldóra, hjá Barnaverndarnefnd Reykjavíkur.

Það fæst heldur ekki svar við því hvers vegna varð að bíða eftir lögreglunni. Því eins og forstjóri Barnaverndarstofu segir: Það er engin ástæða fyrir Barnavernd að bíða eftir því að lögreglan ljúki sinni sakamálarannsókn.

Beðið eftir lögreglu

En hvað þá með lögreglurannsóknina sem allir voru að bíða eftir? Foreldrarnir höfðu verið yfirheyrðir einu sinni og í afriti af yfirheyrslunum sem Kveikur hefur undir höndum sést að þar lýsa þau atburðum og þverneita að hafa unnið drengnum mein.

Í júlí hafði þýskur réttarmeinafræðingur, Regina Preuss, sem vann að hluta til á Íslandi, sent lögreglunni tölvupóst með bráðabirgðaniðurstöðum eftir að hafa skoðað þýðingu á læknagögnum. Hún segir þar að miðað við áverkana sé mjög líklegt að drengurinn hafi verið hristur og hún telji barnið í mikilli hættu. Svo leið og beið og það var komið fram í febrúar þegar réttarmeinafræðingurinn skilaði endanlegri skýrslu, sem var efnislega samhljóða bráðabirgðaniðurstöðunum frá því í júlí. Hún gaf ekkert út á mat Geirs Friðgeirssonar barnalæknis og stóð fast við sína túlkun á gögnunum. Barnið hefði líklega verið hrist og væri í mikilli hættu.

Átta mánuðum eftir að málið hófst og fjórum mánuðum eftir að fjölskyldan var flutt heim aftur.

„Ég fæ ekki skilið hvernig niðurstaðan var sú að hann hefði verið hristur. Hann uppfyllir ekki shaken baby þrennuna svokölluðu, hann var ekki með neina marbletti, það voru engin merki um gömul brot eða annað. Barnið var skoðað frá toppi til táar. Sendur í aðra taugarannsókn til þess að sjá hvort taugaskemmdir hefðu komið fram eftir á. En af því að jú, augnbotnablæðing og heilablæðing eru tvö atriði í þrennunni að þá, einhvern veginn, var hann bara hristur. Það var bara niðurstaða stjórnvalda, yfirvalda. Við neituðum staðfastlega. Enda mjög órökrétt að hrista barn á leiðinni í bókaðan tíma á barnaspítalanum,“ segir móðirin.

Þá getur fólk nú sagt á móti að það sé almennt ekkert rökrétt við það að hrista barn. Fólk missir stjórn á sér. Og er þá kannski ekki að hugsa um hvað er að fara að gerast eftir hálftíma.

„Vissulega. En þá á móti kemur að öll fjölskyldan var vakandi og á fótum. Heilablæðingin var augljóslega fersk. Einkenni heilahristings voru til staðar, þannig að hann var mjög nýlegur. Þannig að annaðhvort er annað okkar hjóna mjög siðblint og ofbeldishneigt og hitt - eða fyrrverandi hjóna - og hitt mjög meðvirkt. Og þegar ég spurði bæði lögreglu og barnaverndarstarfsmenn hvort það væri kenningin - hvort að ég - eina skiptið sem hann var einn þennan morgun var með mér, á göngum fjölbýlishúss, á leið á spítalann. Hvort það væri kenningin, að ég hefði bara hrist hann þar? Það fannst engum það líklegt. En einmitt þess vegna hefði ég svo gjarnan viljað einhvers konar rannsókn, geðmat, foreldrahæfnismat, eitthvað - af því að ef að börnin bjuggu við þær aðstæður að annað foreldrið var að hylma yfir ofbeldi gagnvart börnunum sínum af hálfu makans að þá auðvitað eru það mjög alvarlegar ásakanir og óviðunandi aðbúnaður fyrir börn,“ segir hún.

Móðirin segir að læknar og réttarmeinafræðingur virðist hafa leitað að einhverju atviki sem gæti útskýrt bæði heilablæðingu og augnbotnablæðingu frekar en að líta á þetta sem tvo aðskilda áverka. „Ég sá hann detta. Við sáum hann öll detta. Ef einhver hefði haft áhuga á því að vita það, þá sá systir hans hann líka detta. Ef lögregla hefði viljað vita það eða barnaverndarstarfsmenn,“ segir hún.

Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Barnaverndar Reykjavíkur (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Halldóra segir að það gerist að talað sé við börn þegar mál eru könnuð. „Vissulega getum við talað við börn við könnun mála og gerum það mjög oft. En aftur og aftur kemur þú inn að einstökum efnisþáttum í þessu máli sem ég er búin að segja að ég get ekki svarað,“ segir hún í viðtali við Kveik.

En almennt ef þarna er einhver sem getur varpað ljósi á málavöxtu, hvort að barnavernd nýti sér það þá til að fá frekari upplýsingar um stöðu fjölskyldunnar? „Já. En við höfum nú verið upptekin af því þegar mál eru í lögreglurannsókn að það eru ákveðnir þættir sem eru á ábyrgð lögreglunnar og aðrir þættir sem við höfum talið að væri á okkar ábyrgð og upptekin af því líka að það sé ekki tvöföld rannsókn í gangi. Þetta er gríðarlegt álag á fjölskyldu.“

Hefði það kannski verið ráð, hvort sem væri þá fyrir lögreglu eða Barnavernd, með einhverjum hætti - það þarf ekki að vera formleg yfirheyrsla – en að spyrja hana hvað gerðist? „Þetta er náttúrulega mjög góð spurning, en ég get ekki svarað henni í tengslum við þetta tiltekna mál og þessar tilteknu aðstæður sem barnaverndarstarfsmaðurinn stóð frammi fyrir þá. En almennt þá myndi ég svara þessari spurningu þannig að mér finnst það liggja í augum uppi. Ef barn er vitni að hugsanlega einhverju atviki eða atburði sem varpa ljósi á mál sem er jafn alvarlegt og raun ber vitni að þá er Barnahúsið rétti vettvangurinn til að laða fram frjálsa frásögn barns af því sem það hefur orðið vitni að. Það getur oft skipt sköpum um rannsókn mála af þessum toga. Að sjálfsögðu eigum við að nýta okkur það í rannsókn málanna.“

En það var sem sagt ekki gert. Hins vegar voru foreldrarnir aftur teknir til yfirheyrslu eftir að skýrsla réttarmeinafræðingsins barst – og sögðu nákvæmlega það sama og fyrr og gagnrýna niðurstöður réttarmeinafræðingsins harðlega.

Réttarmeinafræðingurinn má ekki tjá sig

Kveikur hafði samband við Reginu Preuss, téðan réttarmeinafræðing og tók hún erindinu vel, en hún fékk því miður ekki leyfi lögreglu til að tjá sig um málið.

Lögreglan lokaði málinu formlega 13. maí 2014 með tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur um að rannsókninni hefði verið hætt. Ekki væru forsendur fyrir því að halda henni áfram gegn eindreginni neitun foreldranna um að vera valdir að áverkum drengsins, hvað sem liði niðurstöðu réttarmeinafræðings. Barnavernd Reykjavíkur lokaði svo málinu hjá sér í ágústbyrjun 2014, fjórtán mánuðum eftir að tilkynningin barst frá Barnaspítalanum.

Það er kannski kaldhæðni örlaganna að sá eini í fjölskyldunni sem kom heill út úr þessu var litli drengurinn, meintur brotaþoli. Hann var eldhress. Hin þrjú voru með áfallastreituröskun og niðurbrotin andlega, ekki síst eldri systir hans.

Í janúar 2015 sendu foreldrarnir kvörtun yfir málsmeðferðinni til Barnaverndarstofu. Í svari Barnaverndarstofu, sem er í formi athugasemda við málsmeðferðina, kemur ýmislegt fram. Ekki er gerð athugasemd við að barnið hafi verið vistað utan heimilis um leið og tilkynning um grun um ofbeldi barst frá Landspítalanum. Það sé sjálfsagt við slíkar aðstæður.

Hins vegar segir þar:

  • Ekki var aflað gagna frá heilsugæslu varðandi t.a.m. ungbarnavernd drengsins né líðan móður... Þá virðist ekki hafa verið rætt við ættingja né aflað gagna frá skóla og dagvistunaraðilum stúlkunnar.
  • Ekki virðist hafa verið rætt við lækna og heilbrigðisstarfsfólk varðandi afstöðu þeirra til álitsgerðar Geirs Friðgeirssonar, barnalæknis.
  • Þá kröfu verði að gera til barnaverndarnefnda að unnt sé að sjá af gögnum málsins hvaða rök eru fyrir breyttum vistunarstað barns og hvenær þær upplýsingar liggja fyrir.
  • Ekkert samkomulag var gert við foreldrana um umgengni við barnið á meðan það var í vistun utan heimilis.
  • Má í raun halda því fram að í þessu tiltekna máli hafi of mikil áhersla verið lögð á refsivörsluþátt málsins á kostnað mikilvægra barnaverndarsjónarmiða.

Bragi, forstjóri Barnaverndarstofu, segir kjarnann í athugasemdum stofnunarinnar þann að Barnaverndin hafi ekki rækt sitt sjálfstæða hlutverk. „Hún eiginlega lét bara lögreglu ráða atburðarásinni og því sem gerðist í málinu. Þannig að hún tók ekki sjálfstæða afstöðu til þess hvað væri barninu fyrir bestu,“ segir hann.

Afleiðingar og áhrif þessa inngrips Barnaverndaryfirvalda eru langvinn. Hjónin skildu síðastliðið haust og eru enn að vinna úr þessum atburðum.

Móðirin segir málið hafa haft margvíslegar afleiðingar fyrir fjölskylduna. „Hvorugt okkar hefur lokið því námi sem við vorum í. Flosnuðum bæði upp úr skóla. Tekjutap, nefndu það. Ég held að það sé ekki einu sinni hægt að lýsa því, áhrifunum sem þetta hefur haft. Og hefur ennþá. Ég er ekki sama manneskjan og ég var,“ segir hún.

Nú gæti einhver sagt: Já en bíddu við, þetta fór allt á besta veg. Drengurinn náði sér tiltölulega fljótt og hann er heilbrigður. Lögreglurannsóknin var felld niður og þið gátuð snúið aftur til fyrra lífs. Hvað er málið?

„Ég hugsa þetta oft sjálf. Bara hvað er að þér? Þú átt tvö falleg börn og þau eru hraust, sniðug og skemmtileg. Hættu þessu væli. Ég held að nema fólk hafi upplifað handahófskennda valdbeitingu yfirvalds, þá getur það ekki gert sér í hugarlund þau áhrif sem það hefur á einstakling og fjölskyldu. Það, að eitthvert óskilgreint vald taki sér það bessaleyfi að taka af þér börnin, án þess að gefa þér nokkra vísbendingu um hvenær þú færð þau aftur. Maður getur ekki lifað við þetta. Það getur það held ég enginn. Að vita ekki hvað gerist næst og hvort að börnin þín séu þín,“ segir hún.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. (Mynd Stefán Aðalsteinn Drengsson/RÚV)

Reynsluleysi skýringin

Bragi segist í reynd skrifa málið á reynsluleysi. Jafnvel þó að starfsmaðurinn hafi lengi starfað að barnaverndarmálum. „Já, hann getur verið reyndur í barnavernd, en þessi mál eru kannski ekki mjög algeng, sem betur fer,“ segir hann.

Eftir að Barnaverndarstofa hafði skilað athugasemdum sínum við málsmeðferðina, sendu foreldrarnir kvörtun til Reykjavíkurborgar og óskuðu eftir viðurkenningu á bótaskyldu vegna mikilla annmarka á málsmeðferðinni. Borgarlögmaður hafnaði bótaskyldu á þeim forsendum að þótt annmarkar hefðu vissulega verið á málsmeðferðinni, þá væru þetta ekki alvarleg frávik og að Barnavernd Reykjavíkur hefði ekki sýnt af sér saknæma háttsemi.

Þá skutu þau málinu til ríkislögmanns og í september síðastliðnum voru þeim úrskurðaðar bætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar lögreglu og Barnaverndarstofu, væntanlega vegna þess að hún samþykkti allar beiðnir Barnaverndar Reykjavíkur um vistun utan heimilis. Upphæðin er svo sem ekki há: ein milljón króna auk lögfræðikostnaðar.

Móðirin segir það þó ákveðna viðurkenningu. „Ég sé þetta þannig að ríkislögmaður og Barnaverndarstofa séu með þessu að viðurkenna að kerfið á ekki að virka svona. Það á ekki að geta gerst að foreldrar lendi í tannhjólum kerfis sem étur þau lifandi og spýtir þeim út úr sér mölbrotnum. Það á ekki að vera þannig. Og þó að ábyrgðin hvíli...Barnavernd Reykjavíkur ber ábyrgð á athöfnum sínum, að þá er þessi staðfesting ómetanleg. Á því að svona á ekki að geta gerst,“ segir hún.

Hvaða lærdóm á að draga?

Það er öllum ljóst sem vilja sjá að útkoman er sannarlega ekki eins og við viljum að kerfið vinni. Börn og foreldrar eiga ekki að vera miklu verr stödd eftir afskipti Barnaverndar. En það deilir enginn um að það var fullkomlega eðlilegt að barnaverndaryfirvöld væru kölluð til í upphafi. Hvað hefði mátt gera betur?

„Það er bara svo margt undarlegt. Og þá helst það hversu handahófskenndar aðgerðirnar eru. Úr því að vera í vistun yfir í að vera undir stanslausu eftirliti yfir í eftirlitslausar gönguferðir yfir í að vera hjá foreldrum annars okkar og ekki mega vera neitt eftirlitslaus með hann yfir í það að fara heim. Þetta spannar allan skalann,“ segir móðirin.

Halldóra segir að Barnaverndarnefndarstarfsmenn gætu reynt að vera skýrari. „Það er það sem að við getum þá reynt að vera skýrari við fólk og lögmann þeirra og guð má vita hvern, að sé ástæðan fyrir því að málið færist á næsta level og næsta level. Við vonuðumst til að löggan væri komin lengra. Þarna er ákveðinn ágreiningur eða við ekki alveg sammála Barnaverndarstofu um það sem þeir segja, en við bara lútum niðurstöðunni,“ segir hún.

Móðirin segir að Barnavernd hafi auðvitað átti að skoða málið, auðvitað væri eðlilegt að vista þau á Vistheimili barna til að byrja með. „Enda setti enginn neitt út á það. Það hefði ekki þurft að valda okkur öllum þessum skaða af því að efnislega var málið alltaf það sama, líka þegar við vorum komin heim. Ef við máttum fara í eftirlitslausa göngutúra, af hverju máttum við ekki vera heima hjá okkur og fá kvöldheimsóknir á hverju kvöldi? Hefði það verið verra? Hefðum við ekki mátt viðhalda okkar rútínu, okkar lífi og fengið fólk í kaffi af og til?“

En hverju erum við bættari núna - hvaða lærdómur hefur verið dreginn af þessu máli? Svo vitnað sé aftur í barnasálfræðinginn sem eldra barnið gekk til: hún telur alvarlega brotalöm vera í meðferð og vinnslu barnaverndarmála hér á landi sem vert er að vekja athygli á og ekki síður betrumbæta.

Kvartanir foreldranna vöktu athygli á henni – en hvað hefur verið betrumbætt?

„Fyrir það fyrsta þá er það góð regla að horfast í augu við mistökin sem hafa verið gerð. Þau hafa í þessu máli verið kortlögð. Á hinn bóginn þá álít ég að við þurfum að gera miklu, miklu meira en þetta. Ef það er eitthvað eitt sem við eigum að bæta, þá er það það að treysta samhæfingu og samstarf heilbrigðiskerfisins, réttarvörslukerfisins og barnaverndarkerfisins í þessum málum. Og leggja á ráðin um það að meta það hvað er hagfelldast fyrir barn og fjölskyldu,“ segir Bragi, forstjóri Barnaverndarstofu.

Halldóra, framkvæmdastjóri Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, segir að tekið sé við öllum athugasemdum Barnaverndarstofu. „Ekki bara hvað varðar þetta einstaka mál, ef þær gagnast almennt inn í vinnubrögð okkar til framtíðar, þá að sjálfsögðu tökum við tillit til þeirra í málum af svipuðu tagi sem koma næst. Barnaverndarstarf er síður en svo hafið yfir gagnrýni og uppbyggileg gagnrýni hlýtur bara alltaf að hjálpa okkur í því starfi sem við erum að fást við,“ segir Halldóra.

Kveikur ræddi við föður barnanna og hann styður það að um málið sé fjallað, en treysti sér ekki í viðtal.