Hvað er að gerast í Bandaríkjunum?

Raunveruleikinn er stundum skrítnari en sápuóperurnar. House of Cards voru vinsælir þættir um nokkurra ára skeið, þekktir fyrir sögur af siðblindum, stórskrítnum og yfirlýsingaglöðum forseta og fylgisveinum hans.

Fáeinum árum síðar er óhætt að segja að forseti Bandaríkjanna í raunveruleikanum sé litríkari og umdeildari en nokkur skáldsagnavera. Talað er um að samfélagið sé klofið, gjá sé milli vinstra- og hægrafólks, ólíkra kynþátta og aldurshópa.

En er þetta í alvörunni svona dramatískt? Í dag er kosið til þings, tveimur árum eftir kjör Donalds Trumps. Kosningar verða bæði mælikvarði á vinsældir hans og vísbending um undirölduna í þjóðfélaginu. Merkilegt nokk eru það ekki endilega úrslit kosninganna sem eru mest spennandi, heldur hverjir mæta að kjósa.

Mjótt á mununum

„Þetta verður jafnara en margir halda. Samkeppnin er hörð. Samkvæmt könnunum er óvíst um 55 þingsæti. Vanalega eru þau um þrjátíu á þessum tíma,“ segir James Thurber, prófessor við American University.

Í sumum ríkjum hafa nú þegar fleiri kosið utan kjörstaða en kusu yfirhöfuð 2014,  þegar kosningaþátttaka var sú minnsta á landsvísu frá upphafi. Nú stefnir í að hún gæti orðið sú mesta í sögunni. „Í forsetakosningum er kjörsókn um 62%. Í kosningunum á miðju kjörtímabili er hún 39% ef miðað er við nokkur skipti aftur í tímann. Sumir telja að hún gæti farið upp í 50%,“ segir hann.

James Thurber, prófessor við American University. (Mynd Kveikur)

„Það verður klofin flokkastjórn hérna. Sami flokkur ræður ekki ríkjum í fulltrúadeildinni, öldungadeildinni og Hvíta húsinu. Það verður erfitt fyrir forsetann, eins og verið hefur, að koma málum í gegn og það gæti komið fram hvati fyrir Demókrata og Repúblikana að sameinast um viss málefni og koma þeim í gegn án aðkomu forsetans.“

Ekki ráðið jafn miklu í áratugi

Repúblíkanar ættu að vera kátir. Þeir ráða í Hvíta húsinu, báðum deildum þings, metfjöldi ríkisstjóra er í flokknum. Þeir hafa ekki ráðið jafnmiklu frá 1920, eða þar um bil. Óvenjulítið atvinnuleysi og skattalækkanir ættu að vera þeim í hag, enda segja kjósendur að efnahagsmál séu þeim ofarlega í huga.

„Og það þýðir störf, störf með sanngjörn laun sem hægt er að lifa af. Hluti landsmanna er í vinnu, enda hefur atvinnuleysi ekki verið lægra í næstum 15 ár, en fær ekki nægar tekjur til að lifa af, og það er vandamál,“ segir Thurber.

Sögulega séð hefur flokkur sitjandi forseta tapað að jafnaði 36 sætum í fulltrúadeildinni sé forsetinn óvinsæll – og það er Trump. Vinsældir hans hafa mælst mest 42%.

Í fulltrúadeildinni eru völdin í höndum nefndarformanna – en níu nefndarformenn úr röðum Repúblíkana ætla að láta af þingmennsku, flestir til að verja meiri tíma með fjölskyldunni, sem segir ákveðna sögu.

Skiptir máli hverjir mæta og kjósa

Þannig að stórsigur Demókrata er í höfn, eða hvað? Kannanir eru þeim margar hagstæðar og þeir hafa safnað í digra kosningasjóði. En þetta er ekki svona einfalt.

„Sé fólk spurt fyrir kosningar hvort það ætlar að kjósa hikar það ekki við að ljúga. En segjum að þetta standist. Demókratar eru í klípu því aðeins 37% kjósenda af rómönskum ættum segjast ætla að kjósa. Um 80% afrískættaðra ætla að kjósa, sem er gott. En af þúsaldarkynslóðinni, helmingi vinnuafls landsins, sem verður helmingur kjósenda árið 2020, ætla aðeins 26% að kjósa. Og sá hópur hallast að gildum Demókrataflokksins,“ segir Thurber.

Þannig að þar sem stuðningurinn er mestur við Demókratar eru minnstar líkur á að fólk kjósi. Þessu er öfugt farið hjá Repúblíkönum: 93% 65 ára og eldri ætla að kjósa, og stuðningur þeirra við Repúblíkana er yfirgnæfandi. Sama gildir um hvíta karla, sem eru flestir Repúblíkanar: 85% þeirra ætla að kjósa.

Kjósendur skiptast í skýra hópa

Ef það væru til dæmis bara konur sem mættu, fengju Demókratar afgerandi meirihluta í fulltrúadeildinni. Þetta snerist algjörlega við ef einungis karlar mættu að kjósa – Repúblíkanar fengju afgerandi meirihluta.

Ef einungis hvítt menntafólk með háskólagráðu mætti á kjörstað, fengju Demókratar líka meirihluta. En ef einungis hvítir, ómenntaðir mættu væri útkoman þveröfug.

Og ef hvítir kjósendur fengju ekki að vera með, en allir aðrir kynþættir? Þá myndu Repúblikanar eiginlega þurrkast út.

Þetta sýnir hversu þverklofin þessi þjóð er. Eða það má í það minnsta lesa og heyra ansi oft þessi dægrin. Vissulega er munur á ólíkum samfélagshópum, en þessi mynd er líka flóknari en halda mætti.

Konur og karlar með svipaðar áherslur

„Eitt það mest áberandi í mörgum þjóðfélagshópanna er hversu lítill munur er þar sem maður hefði haldið að munurinn væri mikil. Sem dæmi er körlum og konum annt um sömu málefni, að mestu. Í september lögðum við fram langan spurningalista um það sem helst ræður úrslitum um atkvæði fólks og karlar og konur svöruðu nokkurn veginn á sama hátt,“ segir Baxter Oliphant, lýðfræðisérfræðingur hjá Pew Research Center.

„Við sjáum klofning meðal annars hjá ólíkum þjóðfélagshópum sem raðast inn í flokkana með nýjum hætti. Þessi þróun var hafin löngu áður en Trump varð forseti en hann hefur hraðað henni dálítið. Klofningur eftir kynjum hefur til dæmis farið vaxandi. Konur hafa alltaf hallast frekar að Demókrötum í gögnum okkar síðan fyrir 2000 en undanfarin 3-4 ár hefur orðið sú breyting að konur flokka sig enn frekar sem Demókrata meðan karlar gera það ekki.“

Baxter Oliphant, lýðfræðisérfræðingur hjá Pew Research Center. (Mynd Kveikur)

Konurnar gætu ráðið úrslitum

Helmingur frambjóðenda Demókrata til fulltrúadeildarinnar í ár eru konur, reyndar bara 23% hjá Repúblikönum. En konur eru ósáttari en karlar við frammistöðu Donalds Trump í embætti og hefur heldur sigið á ógæfuhliðina fyrir Trump undanfarið.

Fyrr á þessu ári sögðust einungis 5% kvenna á aldrinum 18-34 ára sáttar við Trump. Konur hafa meiri áhuga en karlar á að mæta á kjörstað, samkvæmt könnunum, og sögulega séð hafa þær verið duglegri við það.

Konur eru sem sagt frekar Demókratar. En það er ekki nýtt – það þarf ekki að fara lengra en tólf ár aftur í tímann, til kosninga á miðju seinna kjörtímabili George W. Bush, til að sjá sömu stöðu. Og sá samanburður á raunar við um fleira.  

„Við höfum gögn frá kosningunum 2006, á miðju seinna kjörtímabili George W. Bush. Þá gekk ekki vel í Írak og svo framvegis. Um tveir þriðju Demókrata sögðust þá kjósa gegn forsetanum. Um það bil sama hlutfall kjósenda Demókrata segjast í dag kjósa gegn Trump. Ég held að það komi ekki alltaf fram en við höfum verið í þessum sporum áður. Við höfum séð millikosningar svipaðar þessum áður,“ segir Oliphant.

Tvístrar fjölskyldum

Það sem er hins vegar frekar nýtt er tilfinningahitinn. Fólk sem var ekki pólitískt er nú gegnsósa af henni. Sögur af vinslitum og fjölskylduerjum eru óteljandi. Phyllis Hansen, sem er hæstánægð með Trump, og John sonur hennar, sem er ekki jafnkátur, eru um margt dæmigerð.

„Þegar hann segist ætla að gera eitthvað kemur hann því í framkvæmd. Obama gerði ekkert fyrir þetta land. Hann gerði ekki neitt,“ segir Hansen.

Þau mæðginin geta nánast ekki talað saman, sannarlega ekki um pólitík.

„Hún sagði mér að hún ætlaði að kjósa hann og ég bara trúði því ekki. Ég var svo undrandi, hneykslaður og fullur viðbjóðs. Hvernig get ég talað við fjölskyldu og vini um stjórnmál þegar þau hafa þveröfugar skoðanir? Að vekja þessa spurningu hefur þaggað niður í samtalinu. Við höfum ekki rætt þetta síðan þá,“ segir sonur hennar, Simpson.

Appelsínugulur einræðisherra

Margrétar Ágústsdóttur kannast við þessa togstreitu. Hún er bandarískur ríkisborgari en hefur afgerandi skoðanir eins og Íslendinga er siður.

„Síðastliðin tvö ár eru eiginlega búin að vera martröð. Þetta er búinn að vera mjög erfiður tími fyrir okkur sem erum ekki alltof spennt fyrir Trump. Í fyrsta lagi er ég búin að vera mjög hissa. Ég er búin að vera reið. Og ég er búin að upplifa, nánast svona sorg. Núna er þetta komið á þann stað… við erum búin að upplifa þetta í tvö ár, það er komin þreyta í það að vera reið og sorgmædd,“ segir hún um upplifunina að búa í Bandaríkjum Trump.

„Núna getum við kosið og það er ákveðinn léttir og það er framundan, við getum kosið, við getum gert eitthvað í málinu, við getum breytt því sem þarf að breyta. Við héldum öll að Hillary væri með þetta og bara, þetta var bara allt fínt og gott mál. Og svo sitjum við allt í einu uppi með þetta. Appelsínugulan einræðisherra.“

Segir Trump vilja vel

Tæpan klukkutíma í burtu, í Manassas í Virginíu, hittum við á Ernu Hákonardóttur Pomrenke, sem sér þetta allt öðrum augum.

„Hlutirnir hafa breyst alveg rosalega mikið hjá okkur hér í Manassas. Skólarnir hafa alltaf verið mjög góðir, þeir eru mikið á niðurleið,“ segir Erna. „Þeir fóru strax að missa herbergi út af því að það var svo mikið af „latinos“ sem byrjuðu að flytja inn í bæinn og herbergi eftir herbergi voru tekin í ESL, eða English as Second Language. Þetta skeði allt of fljótt. Hefði þetta komið aðeins hægar þá hefði kannski verið hægt að vinna betur úr þessu.“

Nú tveimur árum eftir embættistöku Trump segir Erna hann vera að framkvæma af góðum hug. „Hann er náttúrulega rosalega dónalegur og ókurteis og getur verið ófyrirleitinn og allt það en ég held að hann vilji vel samt. Til dæmis í sambandi við innflytjendur, ég meina, hann er að reyna að gera eitthvað við þessu. Maður er alltaf að vona að það sé eitthvað gert til að sporna við þessu flóði af fólki,“ segir hún aðspurð um forsetann. „Ef þú ert aðeins kannski svona meira hægra megin heldur en vinstra megin, að þá er kannski fólk svona kannski ekki alveg eins vinsæll. Þetta er bara orðið svo, finnst mér, „liberal“ allt orðið.“

Og hvernig finnst henni það koma fram? „Náttúrulega í fréttum, já „media“, fréttum og blöðum og svoleiðis,“ svarar hún.

Góður í sjónvarpinu

Yfir í Maryland horfir Andri Haraldsson ískalt á atburðarásina og finnst hún ekkert flókin.  

„Meðalameríkaninn býr rosalega langt frá Washington og hefur aldrei komið til Washington. Kjósendur hafa lengi haft lítið traust á stjórnmálamönnum. Allt í einu gerist það að einhver kemur fram á sjónarvölinn sem er enginn stjórnmálamaður. Heldur er bara, í raun og veru, mjög fyndinn karl. Ef þú tekur hann úr stjórnmálaumhverfinu er mjög fyndið að sjá hvernig Trump hagar sér,“ segir hann.

„Og hefur mikla reynslu af sjónvarpsframkomu. Og fær fullt af fólki til að hugsa: af hverju ekki að reyna þetta. Reagan virkaði, hann var sjónvarpskarl líka.“

Flokkarnir meira og minna eins og áður

Fólk vill breytingar – það má reyndar segja að það sé fasti í bandarískum stjórnmálum. Nýi frambjóðandinn, sá sem kom utan frá, fær oftar en ekki brautargengi í kosningum. Og eru þó eru þetta allt saman fulltrúar gömlu flokkanna, Demókrata og Repúblíkana. Nú er hins vegar talað um að flokkarnir séu að breytast.

Elaine Kamarck, sérfræðingur í þróun stjórnmálaflokka hjá Brookings. (Mynd Kveikur)

„Það er skýrara Demókratamegin að flokkurinn er sá sami. Bernie-byltingin kom með orkuinnspýtingu í flokkinn en hún breytti ekki stofni hans á þingi. Við höfum rannsakað þingmenn og þá sem sigra í forkosningunum og Bernie-fólkið stendur sig ekki eins vel og hinir. Þar sem þetta fólk hefur unnið dramatíska sigra kemur það í stað annarra frjálslyndra. Þetta breytir sem sagt ekki samsetningu þingflokksins,“ segir Elaine Kamarck, sérfræðingur í þróun stjórnmálaflokka hjá Brookings.

„Það er erfiðara að segja til um það Repúblikanamegin en meira að segja þar, þegar við skoðuðum hvernig fólk bauð sig fram í forkosningunum, kom í ljós áhugavert atriði: Aðeins helmingur frambjóðenda Repúblikana í forkosningunum nefndu Donald Trump á vefsíðum sínum. 50%. Það bendir ekki til þess að flokkurinn sé undir stjórn Donalds Trump að öllu leyti. Og eins og sést hefur í lykilmálum áður fyrr, til dæmis þegar afnema átti Obamacare, hefur Repúblikanaflokkurinn ekki stutt forsetann. Það er því erfitt að segja að hve miklu leyti Trump hefur tekið flokkinn yfir en ég held að það sé dálítið orðum aukið.“

Pöpulistar í Demókrataflokknum?

Sem þýðir ekki að ekkert breytist. Það má í raun segja að flokkarnir séu að skiptast á ákveðnum málaflokkum. Í rannsóknum Kamarck hafa Demókratar verið opnari fyrir alþjóðaviðskiptum en Repúblíkanar. Og þeim Repúblíkönum fjölgar sem flokkast sem einangrunarsinnar.

„Ég vil taka fram að flestir Repúblikanar eru enn hlynntir alþjóðavæðingu en þó er skýr aukning á einangrunarstefnu. Til lengri tíma litið held ég þess vegna að þessi Trump-tími sé eins konar síðustu andköf kynslóðar sem taldi sig eiga að stjórna öllu en sem gerir það ekki. Og að yngri kynslóðin sé fjölbreyttari, hafi meiri áhuga á fjölbreytni og nokkuð opin fyrir alþjóðavæðingu,“ segir Kamarck.

„Áhrif hans á sálarlíf þjóðarinnar virðast kannski ýkt en ég er ekki viss um að til lengri tíma litið verði þetta meira en furðuleg skekkja í sögunni.“

Ekki þar fyrir að breytingar geta enn orðið. Margir viðmælendur Kveiks sögðust hafa af því áhyggjur að ástandið gæti versnað áður en það batnaði, til að mynda ef pöpulisti meðal Demókrata kæmist í valdsstöðu. Einn sem hefur áhuga á því er Michael Avenatti, lögmaður klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels, sem vill gjarnan komast í pólitískt embætti.

„Ég tel að flokkurinn okkar, Demókrataflokkurinn, þurfi að berjast af hörku gegn hörku. Þegar þeir leggjast lágt segi ég að við ættum að berja fastar,“ sagði Avenatti á fjöldafundi með stuðningsmönnum.

Michael Avenatti lögmaður.

Breytingar framundan

Er einhver niðurstaða af þessu? Kosningaþáttakan segir okkur í það minnsta eitthvað um hvert stefnir. Og hvort sem breyting verður á þingi núna eða ekki, blasa breytingar við:

Fjórir af hverjum tíu öldungardeildarþingmönnum komnir á eftirlaunaaldur. Meðalaldurinn er nærri 62 ár, og hefur líkast til aldrei verið hærri. Af öllum þeim sem sitja í báðum þingdeildum eru 80% hvítir, og 80% karlkyns.

Sannarlega ekki þverskurður þjóðarinnar. Og það verður að teljast líklegt – eiginlega óhjákvæmilegt - að á því verði breyting á næstunni.

Áhrif Donalds Trumps virðast meiri en þau eru, klofningurinn í samfélaginu er ekki jafnmikill og stundum er látið. Það blasa við kynslóðaskipti og unga kynslóðin er bæði öðru vísi samsett og hugsar öðruvísi en sú eldri. Það ætti ekki að koma neinum á óvart, þannig hefur það víst alltaf verið.