Huldukonan í háloftunum

Hún keypti WOW air, segir að áætlunarflug hefjist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs og að hún eigi hlutabréf í Icelandair. En margt að því sem hún boðar gengur aldrei eftir. Er Michele Roosevelt Edwards alvöru?

Landareignin er ekkert smáræði, 1472 ekrur eða nærri  sex ferkílómetrar að stærð. Eftir að ekið er inn um járnhlið liggur leiðin fram hjá nokkrum glæsilegum villum áður en haldið er inn tignarlega heimreiðina. Setrið sjálft er með tuttugu og tveimur svefnherbergjum, þremur fullbúnum eldhúsum, bar- og billjardstofu í kjallaranum og vínkjallara auk móttökurýma, stofa og veislusala.

North Wales er heiti landareignarinnar sem Michele Roosevelt Edwards býr á. Sérstakt vefsetur kynnir eignina sem er þar auglýst til sölu. 

Og þetta er heimili Michele Ballarin. Eða Michele Lyn Golden. Eða Michele Roosevelt Edwards, eins og hún vill kalla sig núna. Kaupsýslukonunnar sem hefur stundað fraktflug í Afríku, átt vopnafyrirtæki í Bandaríkjunum en líka veitingastað, stundað fasteignaviðskipti og rekið eigin fjárfestingabanka, að eigin sögn.

Fyrri eiginmaður hennar hét Golden að eftirnafni. Nokkrum árum eftir að hann lést gekk hún í hjónaband með manni með eftirnafnið Ballarin. Nú segir hún Kveik að hún vilji notast við skírnarnafnið Edwards, til að heiðra föður sinn, sem sé nýlátinn. Afi hennar var Leon Roosevelt Edwards.

Í Sómalíu var hún þekkt sem Amira, bjargvætturinn sem miðlaði málum í erfiðum sjóræningjamálum. Samkvæmt skjölum sem Wikileaks komst yfir sendi þó utanríkisráðherra Sómalíu kollegu sinni, Hillary Clinton, bréf árið 2009, þar sem hann kvartaði yfir afskiptasemi þessarar konu og bað þess lengstra orða að fundin yrði leið til að koma henni í burtu því hún væri að setja allt í uppnám.

Konan sem keypti WOW

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW á Íslandi, kynnir Michele Roosevelt Edwards fyrir fréttamönnum á fundi í september 2019 þar sem greint var frá kaupum hennar á hluta eigna þrotabús WOW.

Íslendingar þekkja Michele, eins og við höfum ákveðið að sé skýrast að kalla hana, sem konuna sem keypti WOW og vildi endurreisa. Í september 2019, réttu hálfu ári eftir fall WOW, hélt hún blaðamannafund til að greina frá kaupunum og því að áætlunarflug hæfist á ný mánuði síðar, í október 2019. Leiðakerfið yrði svipað og áður en WOW brotlenti. Keflavík yrði miðstöð Evrópuflugs og Washington miðstöð Bandaríkjaflugs.

En síðan hefur lítið gerst. WOW hefur ekki enn hafið flugrekstur þótt Michele hafi ítrekað boðað tíðindi, greint frá mannaráðningum á Íslandi, Rússlandi og Ítalíu, rætt hugmyndir um að WOW verði jafnframt gert út frá Ítalíu og að hún taki jafnvel yfir rekstur ítalska flugfélagsins Alitalia. Ekkert hefur gengið eftir.

En þegar Kveikur hitti Michele á heimili hennar hélt hún fast í hugmyndir sínar um það sem hún kallar „sanngjörn fargjöld“, þar sem allt er innifalið. Að hennar viti er óþolandi fyrir ferðamenn að leita að flugfargjöldum þar sem vonlítið er að átta sig á endanlegum raunkostnaði, því borga þurfi aukalega fyrir að festa sér sæti, farangur, mat og þráðlaust net um borð, svo dæmi séu tekin. Hjá nýja WOW verði einungis eitt fargjald og það feli í sér sætið, matinn, netið, ótakmarkaðan farangur, jafnvel aðgang að betri stofu á flugvelli og fleira til. Þess utan muni enginn sitja í miðsætinu. Þar verði matarkarfa.

Áætlunarflug milli Íslands og Bandaríkjanna á fyrsta ársfjórðungi

USAerospace Partners er móðurfélag WOW og af vefsíðu félagsins að dæma er flugrekstur WOW umfangsmikill.

En hvernig á þetta að ganga upp? Michele svarar því til að í Airbus-vélum eins og félagið ætli að byggja á sé þetta lítið mál. Hún segir teymið sitt hafa lagt mikla vinnu í að þróa nýjar leiðir sem önnur flugfélög geti ekki fylgt því þau séu of svifasein og þunglamaleg, þar vinni of margir hálaunaðir stjórnendur. Hún vill þó ekki útskýra rekstraráætlunina nánar, allt muni þetta byggjast á umfangi.

Michelle og samstarfsmenn hennar réðu hóp sérfræðinga í fyrravor til að vinna að þessari útfærslu. Flestir eru hættir og Kveikur ræddi við fjölda þeirra. Enginn skildi hvernig þessar hugmyndir áttu að ganga upp, tæknilega eða fjárhagslega. Og enn hefur ekkert fæðst. WOW er í dag bara það sem Michelle og félagar keyptu úr þrotabúinu: 160 flugvélasæti á vörubrettum og 500 barvagnar í gámum, auk fjólubláa vörumerkisins.

Þeir fyrrverandi starfsmenn nýja WOW sem Kveikur ræddi við eru sannfærðir um að WOW fari aldrei í loftið. Hugmyndin hafi líklega verið að reyna að búa til spennu í kringum endurreisnina og selja félagið með hagnaði en þekkinguna til þess hafi vantað og COVID-19 faraldurinn svo veitt þessum hugmyndum náðarhöggið þótt Michele tali enn um að hefja áætlunarflug á fyrsta ársfjórðungi þessa árs.

„Við hefjum flug frá Boston, New York, Dulles-alþjóðaflugvellinum í Washington og Miami á fyrsta ársfjórðungi 2021. Og innanlandsflug í Bandaríkjunum hefst á þriðja ársfjórðungi,“ segir hún harðákveðin þrátt fyrir að ástandið í nóvember, þegar viðtalið átti sér stað, hafi ekki verið efnilegt fyrir ferðaþjónustuna á heimsvísu og lítið sem ekkert hafi frést af bóluefnum.

Leiðarkerfi nýja WOW árið 2021, samkvæmt því sem Michele sagði í viðtali við Kveik.

Kveikur hafði samband við flugmálayfirvöld í Boston, Miami, Dallas og Washington-borg. Þar kannaðist enginn við WOW hið síðara. Ef til stendur að hefja flug á fyrsta ársfjórðungi ætti pappírsvinnan að vera klár. En í Washington sagði upplýsingafulltrúinn Kveik frá því að fundað hefði verið með WOW-teyminu í ágúst 2019. Síðan hefði ekkert frá því heyrst. Og ekki er að sjá að félagið hafi flugrekstrarleyfi heldur.

Í janúarlok óskaði Kveikur skriflega eftir skýringum á flugrekstrarleyfinu og fékk þau svör að USAerospace Partners, móðurfélag WOW „hefði aðgang“ að fyrirtækjum með nauðsynleg leyfi og einfalt yrði að ganga frá þeim málum þegar að því kæmi. Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW á Íslandi, sagðist í viðtali við Kveik ekki hafa haft af því veður að grunnur hefði verið lagður að áætlunarflugi til og frá Íslandi á næstunni.

Engu að síður sagði Michele í nóvember að hún hefði nýverið gengið frá samningi um leigu á tíu spánnýjum Airbus-þotum. Tvær þeirra væru á Miami þar sem verið væri að ganga frá innréttingum og merkingum. Þrátt fyrir að Michele héti því að senda ljósmyndir af vélunum um leið og þær væru tilbúnar, hafa engar myndir borist enn. Þegar óskað var eftir þeim í janúarlok voru svörin á þá leið, að þær yrðu birtar í tengslum við markaðsherferð þegar það væri tímabært.

Segist eiga í Icelandair

Ári eftir fréttamannafundinn, þar sem greint var frá kaupunum á hluta eigna WOW, komst Michele aftur í fréttirnar á Íslandi. Sjö milljarða króna boði hennar í hlutabréf í Icelandair var ekki svarað, að sögn talsmanns hennar, en forstjóri Icelandair sagði í viðtali við RÚV að í einu tilviki hefði áskrifanda ekki tekist að staðfesta fjármögnun og því hefði þeirri áskrift verið hafnað.

Þessu hafnar Michele alfarið í viðtali við Kveik og segist ekki hafa viljað fara inn í félagið með látum og lögsóknum. Hún telji að stjórnendur Icelandair hafi óttast að hún gæti krafist breytinga á stjórnendahópnum.

„En ég er þess fullviss að stjórnarhættir Icelandair séu með þeim hætti að það gefast fleiri tækifæri á næstunni til að kaupa hluti í félaginu á hagstæðum kjörum.“

Michele segir að staða Icelandair hafi í haust verið verri en staða WOW þegar það félag fór á hausinn. Icelandair hefði átt að stórgræða á því að meginkeppinauturinn hyrfi yfir nótt en það hafi ekki gerst. Þvert á móti hafi félagið í tvígang þurft að leita á náðir ríkisins . Og að óbreyttu geti rekstur félagsins ekki gengið upp nema stórfelldar breytingar verði gerðar á stjórn þess, sem hún eigi erfitt með að sjá fyrir sér.

En á hún hluti í Icelandair í dag?

„Það eru aðilar sem eiga hluti sem við tengjumst, ætli það sé ekki besta svarið“.

Þegar gengið er á hana um nánari skýringar segir hún að aðrir haldi á hlutunum fyrir sína hönd en að hún sé raunverulegur eigandi.

Og hún hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig snúa þurfi rekstri Icelandair við til að bjarga félaginu. Það sé hins vegar ekki henni í hag að útlista þær aðgerðir að sinni, heldur verði stjórnendur Icelandair að finna út úr því sjálfir.

„Ég ætla að skapa nægilega samkeppni til þess að þeir verði að finna sér leið.“

Tuttugu stærstu hluthafar Icelandair eru skráðir opinberlega.

Markmiðið sé að sameina nýja WOW og Icelandair, svo úr yrði WOW-Icelandair, íslenskur vængur alþjóðlegs flugrisa. Tuttugu stærstu hluthafar Icelandair eiga samtals 44,5% í félaginu. Þeir eru skráðir opinberlega og Michele Roosevelt Edwards er ekki þeirra á meðal. Tuttugasti hluthafinn á listanum er með tæplega prósents hlut, svo ef einhver á hlut í Icelandair, fyrir hönd Michelle, er sá hlutur undir prósenti. Páll Ágúst, lögmaður WOW, segist ekki hafa haft milligöngu um nein hlutabréfakaup í Icelandair fyrir hönd Michele.

Kristin gildi og ógreiddir reikningar

Michele á sveitasetri sínu í Virginíu í nóvember 2020, þegar Kveikur kom í heimsókn.

Þegar Michele er ekki á ferðalagi segist hún fara til kirkju alla sunnudaga og leika þar á orgelið. Hún sé alin upp í trúaðri fjölskyldu; kirkjan og trúin skipti hana miklu máli. Fyrirtæki hennar séu rekin með trúna og biblíuna að leiðarljósi. Gullna reglan sé viðmið hennar: að vera sanngjörn, eiga ekki í illdeilum, taka ekki það sem tilheyrir öðrum.

Þessi kristilegu kærleiksgildi fóru fram hjá þeim fyrrverandi starfsmönnum nýja WOW sem Kveikur ræddi við. Þeir telja þvert á móti að þeir hafi verið dregnir á asnaeyrunum, logið að þeim og að ekki hafi verið staðið við gerða samninga. Laun hafi dregist eða einfaldlega aldrei verið greidd.

Michele kannast ekki við neitt slíkt. Að vísu hafi verið samið um kaup á bókunarkerfi en WOW hafi aldrei fengið það sem um var samið. Um miðjan janúar komst Héraðsdómur Reykjavíkur að annarri niðurstöðu. WOW LLC, móðurfélag WOW á Íslandi, var dæmt til að greiða ríflega 40 milljóna króna reikning auk dráttarvaxta, enda gat lögmaður WOW ekki sýnt frá á neina galla á hugbúnaðinum.

Og Michele vísar spurningum um starfsemina á Íslandi frá sér, segir aðra stýra þeirri starfsemi þótt hún sé einn eigandi og stjórnandi WOW. Hún semji hvorki um kaup né kjör á Íslandi heldur stýri sínum rekstri í Bandaríkjunum. Kveikur beindi því spurningunni til Páls Ágústs Ólafssonar lögmanns WOW á Íslandi.

„Ég get náttúrlega ekki svarað fyrir það hvað gerist utan íslenskra landsteina. Það eru aðrir sem þurfa að svara fyrir það. En laun hafa verið gerð upp hér á landi og greidd til þeirra aðila sem hafa verið ráðnir til vinnu hér á Íslandi.“ Reyndar fóru greiðslur til nokkurra erlendra starfsmanna og verktaka í gegnum Pál Ágúst og Ísland samkvæmt gögnum sem Kveikjur hefur séð. Í sumum tilvikum í gegnum lögmannsstofu Páls Ágústs og félög sem ekki voru sýnilega tengd WOW, heldur Páli Ágústi. „Það er nú bara einfaldlega þannig að í rekstri þá er eggjum dreift í mismunandi körfur,“ segir hann aðspurður um þessa fléttu. Ekkert sé óeðlilegt við það.

Þeir fyrrverandi starfsmenn sem Kveikur ræddi við segjast ekki hafa fengið greitt í samræmi við það sem rætt hafi verið um, greiðslur hafi dregist eða jafnvel aldrei borist. Enginn þessara fyrrverandi starfsmanna vildi veita viðtal því þeir vildu ekki láta tengja sig opinberlega við WOW. Töldu að það yrði þeim ekki til framdráttar.

Þegar Michele er spurð um ásakanir þeirra um ósannsögli og minnt á erlenda fjölmiðlaumfjöllun um fyrri verkefni hennar, þar sem svipaðar ásakanir hafa komið fram, svarar hún litlu en segir vandræðalegt að setja málið fram með þeim hætti. WOW sé hennar eign, byggt á hennar fjármunum og hún ráði því í hvaða átt hún stefni með sinn rekstur.

En hverjir eiga WOW?

Airbus-þota WOW ekur í átt að flugbrautarenda. Boeing 737 MAX þota Icelandair fylgir í kjölfarið.

Þegar Michele kynnti kaupin á eignum þrotabús WOW í september 2019 var hún spurð um fleiri hluthafa. „Við viljum ekki tala um hverjir það eru á þessu stigi. Ég held að það skýrist að fullu þegar fram líða stundir,“ sagði hún í viðtali við RÚV.

Í viðtalinu í nóvember hafði það lítið breyst. Aðrir fjárfestar kæmu ekki að WOW en innan tíðar yrði greint frá tengingu við stórt félag á markaði. Ekkert varð af þeirri tengingu samkvæmt heimildum Kveiks en Páll Ágúst, lögmaður WOW, segir erlenda fjárfesta komna að félaginu, sem hann hafi þó ekki heimild til að greina frekar frá.

Á fréttamannafundinum í september 2019 sagði Michele WOW að fullu fjármagnað og að 85 milljónir dollara, 11 milljarðar króna, væru til reiðu vegna viðskiptanna. Í nóvember 2020 sagðist hún í viðtali við Kveik hafa lagt 7,5 milljónir dollara af eigin fé í verkefnið, rétt tæpan milljarð króna.

Höfuðstöðvarnar verða ekki á Íslandi

Páll Ágúst Ólafsson, lögmaður WOW á Íslandi, getur ekki svarað því hvenær WOW hefur áætlunarflug.

Þrátt fyrir yfirlýsingar Michele um farþegaflug á fyrsta ársfjórðungi 2021 og tíu Airbus-vélar í viðtalinu í nóvember, ber ekkert á neinu. Þegar Páll Ágúst er spurður hversu nærri WOW sé því að fara í loftið er svarið loðið en afgerandi:

„Það er mjög góð spurning. Og ég vildi óska þess að ég ætti eitthvert konkret, einfalt svar við þeirri spurningu. En það eru einfaldlega svo mörg flækjustig í því að þeirri spurningu verður ekki svarað með einföldum hætti.“

Enginn þeirra starfsmanna sem ráðinn var í upphafi ársins 2020 er lengur við störf, að sögn Páls vegna ástandsins í heiminum í dag en líka vegna breyttra áherslna þeirra sem standa að baki rekstrinum hvað varðar Ísland og íslenska aðkomu. Því þótt Michele hafi talað fallega um Ísland hefur áhugi hennar og áhersla færst frá landinu. Kostnaður á Íslandi er hár og illa hefur gengið að finna samstarfsaðila með flugrekstrarleyfi.

„Það eina sem að liggur fyrir er það að Ísland verður áfangastaður. Hér mun verða starfsemi. Hversu umfangsmikil hún verður, það verður að fá að koma í ljós síðar,“ segir Páll. „Við skulum orða það þannig að höfuðstöðvar WOW verða ekki á Íslandi.“

Allt að gerast á Ítalíu

Michele réði stjórnanda til að byggja upp WOW í Rússlandi og annan til að leiða WOW Italy, sem er reyndar með aðsetur í Chicago í Bandaríkjunum. Í viðtali við Kveik sagði hún að það væri stutt í að greint yrði frá nýju sameiginlegu verkefni, endurreisn flugfélagsins Alitalia, en hún kæmi að því verkefni að beiðni ítalskra stjórnvalda.

Í grein dagblaðsins Corriere della sera í sumar var fjallað um þessar meintu fyrirætlanir með frekar háðuglegum hætti. Fulltrúi Michele útlistaði hugmyndir svipaðar þeim sem hún hefur um nýtt WOW. En tveimur mánuðum síðar hefur ekkert frést af þessum fyrirætlunum og þegar ítölsk stjórnvöld greindu frá endalokum Alitalia í árslok var hvergi minnst á að Michele Roosevelt Edwards eða USAerospace Partners kæmu að endurreisninni, sem á að heita Italia Trasporta Aero, eða ITA.

Er þetta alvöru?

Michele Roosevelt Edwards í aðalsvefnherbergi seturs síns í Virginíu í nóvember 2020.

Frá því að Michele Ballarin eða Michele Roosevelt Edwards keypti hluta eigna þrotabús WOW hefur ekki staðið á yfirlýsingum um byltingu í flugheiminum en það hefur óneitanlega staðið á efndunum. Fjólubláu flugvélarnar eru hvergi sjáanlegar. Og í umfjöllun annarra fjölmiðla um fyrri viðskiptafléttur Michele hefur komið í ljós að hugmyndir hennar eru oft stórar, en raunveruleikinn lítill. Nánasti samstarfsmaður Michele á Íslandi er lögmaðurinn Páll Ágúst Ólafsson. Hefur hann trú á Michele?

„Michele er alvöru. Michele er kraftmikill einstaklingur. Hefur sterka sýn. Hún hefur sannarlega stóra drauma. Og ég hef fulla trú á því sem að bæði hún segir og því sem hún gerir. Annars myndi ég ekki vinna fyrir hana,“ segir hann í viðtali við Kveik.

Kveikur sendi Michele og fulltrúum hennar níu spurninga lista áður en þessi umfjöllun var birt, meðal annars hvernig gengi með þoturnar tvær á Miami, áætlunarflugið til Íslands, kaupin á hlutum í Icelandair og fleira. Michele brást strax við og svaraði um hæl að hún hefði engan áhuga á að svara frekari spurningum Kveiks enda væri það ekki til neins. Spurningarnar væru rangar og umfjöllunin götublaðamennska. Eftir að hún hafði samráð við samstarfsmenn sína bárust þó svör fyrir hennar hönd sem voru sannast sagna rýr en meðal annars var vísað til COVID-19. Þar kom einnig ítrekað fram orðalag sem Michele hefur notað allt frá fyrsta fréttamannafundinum haustið 2019: Að ótímabært væri að greina frá tilteknum atriðum, það verði gert á réttum stað og stund.