Eins og að koma út úr skápnum

Kennaranemar voru flestir árið 2002, rétt um 850 og komust færri að en vildu. Síðan hefur þeim fækkað og algert hrun varð þegar námið var lengt í fimm ár árið 2009.

Kveikur ræddi við nokkra kennaranema á dögunum í tengslum við umfjöllun kvöldsins um yfirvofandi kennaraskort.

Hjörvar Gunnarsson segist hafa vitað frá því hann var í 6. eða 7. bekk að hann langaði að verða íslenskukennari. Hann þagði þó yfir því alveg fram á lokaár framhaldsskólagöngunnar.

Þetta hafi verið eins og leyndarmál sem hann burðaðist með, næstum eins og að vera í skápnum - en svo þegar hann sagði frá því, voru viðbrögðin mjög góð. Hann fór því beina leið suður í kennaranám eftir stúdentspróf.

Samnemendur Hjörvars taka undir með honum, sáttir með sitt val. Þótt þau viti að kjarabaráttan verði fyrirferðarmikil áfram, þá skipti þau mestu að geta starfað við það sem veiti þeim ánægju, þar sem enginn dagur er eins.

Tölfræðin sem við blasir er þó sláandi. Útskrifaðir kennarar eru hvergi nærri því að uppfylla endurnýjunarþörfina, nú þegar stórir árgangar eru að fara á eftirlaun.

Viðtöl við kennaranemana má horfa á í spilaranum hér að ofan. Nánar verður fjallað um stöðu kennara og yfirvofandi kennaraskort í fréttaskýringaþættinum Kveik í kvöld klukkan 20.